Bifreiðagjald
Föstudaginn 23. febrúar 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Í Nd. er til umfjöllunar frv. til laga um breytingu á lögum um bifreiðagjald. Í samkomulagi þingflokkanna fyrir áramót var ákveðið að afgreiðslu þess máls yrði frestað og í því skyni var dagsetningu breytt til 1. mars. Umfjöllun um málið er ekki lokið í Nd. Eins og fram kemur á fskj. með nýgerðum kjarasamningum, sem m.a. eru prentað í Fréttabréfi Alþýðusambandsins þar sem lýst er ýmsum breytingum á gjaldskrám opinberra stofnana og breytingum á ýmsum sköttum og gjöldum sem eigi að koma til framkvæmda á þessu ári, er breyting á bifreiðagjaldi einn af þeim liðum sem þar eru nefndir.
    Ríkisstjórnin hefur hins vegar ákveðið að taka til skoðunar með hvaða hætti þessu gjaldi kunni að verða breytt ásamt ýmsum öðrum breytingum á liðum nefndum á þessu fskj. Til þess þarf tíma í næstkomandi marsmánuði. Þess vegna var ákveðið að flytja það frv. sem nýlega var samþykkt í hv. Nd. um að breyta dagsetningunni um einn mánuð, í stað 1. mars kæmi 1. apríl.
    Ég vænti þess, virðulegi forseti, að þetta frv. fái eins greiða meðferð hér í hv. Ed. og það fékk í hv. Nd. og legg til að að lokinni þessari 1. umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn. Það mun svo gefast tækifæri í marsmánuði til þess að ræða þetta mál efnislega. Hér er hins vegar eingöngu um að ræða breytingu á dagsetningu um einn mánuð.