Bifreiðagjald
Föstudaginn 23. febrúar 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég bið Karl Steinar Guðnason afsökunar á því hafi ég misskilið orð hans og ugglaust hefur framsetning mín hér verið röng í sambandi við launanefndina. En það breytir ekki hinu að í ræðu hér í gær lýsti þessi hv. þm. yfir þeirri skoðun sinni að hann vildi að samningarnir yrðu lögfestir. Í máli hans þá kom ekki fram jafnmikil trú á samningunum og í ræðu hans hér áðan. Ég skal ekki fara út í nein fín blæbrigði í hans túlkun, en í gær kom fram að hann taldi æskilegt að samningarnir yrðu lögfestir til að tryggja þá og það var á því sem ég var að vekja athygli.
    Ég verð auðvitað að lýsa yfir vonbrigðum mínum þegar ég heyri að forustumenn í verkalýðshreyfingunni eru í ráðagerð með ríkisstjórninni að hækka venjuleg útgjöld heimilanna í landinu. Kannski maður eigi næst eftir að heyra að þessi ágæti þm. Alþfl. og forustumaður í verkalýðshreyfingu sé líka inni á því að hækka húsarafmagn um 30% síðari hluta ársins. Kannski það hafi líka verið inni í samningsgerðinni. Maður veit auðvitað ekki hversu langt þessir leynifundir hafa gengið. En ég vil óska hæstv. fjmrh. til hamingju með að hafa verkalýðsleiðtogana svona í pokanum sínum. Kannski fyrrv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, sem nú er orðinn krati, sé líka meðmæltur því að hækka bifreiðagjaldið sem mest. Það getur vel verið. Það getur vel verið að allir verkalýðsleiðtogar í Alþfl. nema Karvel Pálmason séu inni á því að hækka bifreiðagjaldið. Ég veit ekkert um það. En hitt veit ég að fólkið í landinu, launþegarnir sem samþykktu að láta það yfir sig ganga að sitja uppi með kjaraskerðinguna næstu 18 mánuðina, þetta fólk sættir sig ekki við bifreiðagjaldið. Og þetta fólk lætur sig einu gilda þótt ráðherrarnir hafi verið að pukrast með aðilum vinnumarkaðarins með ýmiss konar skattahækkanir sem áður hafði verið búið að boða.
    Ég held þessum stjórnarsinnum hér væri nær að fara að dæmi ýmissa sveitarstjórnarmanna sem hafa verið að lækka álögurnar eftir að samningarnir voru gerðir í staðinn fyrir að nota þá sem tilefni til að þyngja enn hlutfallslega álögurnar því að auðvitað er það alveg ljóst að ríkisstjórnin tapar ekki einni einustu krónu á því að verðbólgan lækki í landinu. Það þarf ekki að lesa lengi forsendur fjárlagafrv. til að rifja upp þann ótta sem hæstv. fjmrh. hafði af því að þeim fyrirtækjum færi fjölgandi á þessu ári sem yrðu gjaldþrota og það er beinlínis talað um í sambandi við tekjuskatt á fyrirtækjum að í krónum talið er sú áætlun um það bil 1 / 2 milljarði lægri
á þessum síðustu árum vegna erfiðs atvinnuástands þannig að auðvitað græðir ríkisstjórnin á þessum samningum, auðvitað græðir ríkissjóður á því.
    Mér þykir bara verst, herra forseti, að í raun og veru hafa þingmenn ekki málfrelsi hér í deildinni vegna þess hversu seint þetta frv. er fram borið. Hæstv. fjmrh. var svo smekklegur að tala fyrir því í fyrri deild í dag með þeim afleiðingum að

nefndarmönnum í fjh.- og viðskn. gefst ekki kostur á að ræða við aðila vinnumarkaðarins né spyrja hæstv. forsrh. út úr né heldur gefst okkur færi á því núna að fá fullgild og ítarleg plögg í fjh.- og viðskn. um þær ýmsu áætlanir sem gerðar hafa verið fyrir og eftir þessa samninga og þar fram eftir götunum. En það hryggir mig sem sagt að skattpíningin á að halda áfram. Það hryggir mig að fulltrúi Verkamannasambandsins hér í deildinni skuli vera mesti skattpíningarmaðurinn og raunar hrósa sér af því að vilja halda þessari stefnu til streitu.