Stjórnarráð Íslands
Föstudaginn 23. febrúar 1990


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Þá er þetta frv. komið til 3. umr. sem við höfum verið að fjalla hér um, eitt lítið orð, umhverfisráðuneyti, og er 129. mál þingsins. Við höfum hvað eftir annað gert tilraunir til þess að fá svör við þessari veigamiklu spurningu: Hvers vegna í ósköpunum má ekki bíða með að afgreiða þetta mál þar til fylgifrv. þess er komið hingað til afgreiðslu í deildinni og þannig hægt að ná breiðari samstöðu um þá afgreiðslu og meiri reisn yfir afgreiðslu málsins í heild frá hv. Alþingi?
    Illu heilli hefur ekki tekist að fá svar við þessari spurningu. Þess vegna þykir mér athyglisvert að sjá frétt í DV sem birtist þar í gær í ramma undir fyrirsögninni ,,Umhverfisráðuneytið`` og ,,Borgarar krefjast afgreiðslu strax``. Og það gefa menn sér að það sé samkvæmt heimildum blaðsins að borgarar hafi krafist þess að frv. verði afgreitt fyrir Norðurlandaráðsþing sem hefst hér í Reykjavík í næstu viku eins og allir vita. Getið er um það að hæstv. hagstofuráðherra hafi ekki viljað staðfesta þessa kröfu en í þess stað sagt við fréttamanninn að þessi umræða um frv. væri orðin út í hött. Þetta finnst mér vera ansi merkileg fullyrðing vegna þess að ég get ekki skilið að það sé út í hött, ef hæstv. hagstofuráðherra hefur á annað borð áhuga á því að vita hvaða verkefni hann á að fá, að fjallað sé málefnalega um meginefni þessa máls sem er fylgifrv. Það stendur því eftir að það sem sé nú að gerast sé í raun og veru það sem fréttamaður Dagblaðsins gefur sér, að nú loks sé Borgfl. að fá víxilinn sinn greiddan sem þeir gáfu út á hæstv. ríkisstjórn og hún samþykkti að greiða þeim þegar Borgfl. fékk að ganga til liðs við ríkisstjórnina. Ég hef ekki ýjað að þessum orðum fyrr, en þetta er í raun og veru það eina sem stendur eftir úr því að svona mikið liggur á. Og eins og ég sagði: Þó að frv. láti lítið yfir sér, það er aðeins eitt orð, orðið tómt, umbúðirnar án innihalds, þá felur þetta orð svo miklu, miklu meira í sér í huga okkar sem höfum áhyggjur af því hvert innihald umbúðanna verður í framtíðinni, hver verða verkefni umhverfisráðuneytisins væntanlega.
    Við höfum reynt að ná eyrum stjórnarliða og ég veit að margir þeirra eru í hjarta sínu sammála því að það sé út í hött að afgreiða þetta frv. án fylgifrv. Þeir eru í hjarta sínu sammála okkur og sammála þeim mörgu aðilum sem komu á fund nefndarinnar og létu þá skoðun í ljósi, jafnvel þeir sem vilja sérstakt umhverfisráðuneyti, að bæði þessi frumvörp beri að afgreiða samtímis, þau séu samtengd, þ.e. að innihaldið fylgi umbúðunum.
    Það er ekkert skemmtilegt upplit á Alþingi eða traustvekjandi gagnvart almenningi í landinu að á sama tíma og aðilar vinnumarkaðarins hafa nýverið gert samninga sem fela í sér litlar kjarabætur, en launþegar taka á sig byrðarnar sem því fylgja, keyrir ríkisstjórnin hér í gegnum Alþingi frv. sem er umbúðirnar einar ásamt útgjöldunum án þess að vita í hvað þessi útgjöld eiga að fara, hver verkefnin

verða. Það eru vissulega vonbrigði að ekki hefur tekist að ná samkomulagi um þetta mál sem þó hefur verið boðið upp á, en nú skal gerð lokatilraun til að ná eyrum stjórnarliða. Það er málamiðlun en eins og fram hefur komið flytjum við, ég og hv. 8. þm. Reykv. Eyjólfur Konráð Jónsson, brtt. við frv. Hún er á þskj. 652 um að lög þessi öðlist gildi 1. júní í stað þess að þau öðlist þegar gildi. Með því væri hægt að tryggja að umhverfisráðuneytið verður búið að fá verkefnin sín áður en þingi lýkur og gildistakan fylgir þar með.
    Ég verð að segja það, eins og fram hefur komið í máli okkar hvað eftir annað, að við teljum þetta vera skynsamlega leið og þetta er, eins og ég sagði, málamiðlun. Tímasetningin er líka nokkuð skynsamleg vegna þess að 1. júní eru afstaðnar sveitarstjórnarkosningar í landinu og öll þau mál sem með einum eða öðrum hætti er hægt að tengja umhverfismálum eru fyrst og fremst tengd sveitarstjórnunum, skipulagsmál, byggðamál, gróðurvernd, landvernd, skógrækt, náttúruvernd almennt, umhverfisvernd, hollustuvernd, mengunarmál, vinnueftirlit, heilbrigðiseftirlit. Þetta eru bara örfá dæmi sem ég nefni hér. Ég held þess vegna að það hefði verið nokkuð gæfulegt að tengja þetta saman, að lögin öðlist gildi 1. júní og þá sæjum við fram á að málefnin, fylgifrv., væri líka komið í höfn og þá gætu menn vel við unað.
    Ég ætla ekki, hæstv. forseti, að setja hér á langa ræðu. Ég er búin að fjalla nokkuð mikið vítt og breitt um umhverfismálin, meira að segja svo mikið að einhverjir fréttamenn, að því er mér var sagt, fundu hjá sér hvöt til að kalla það málþóf þegar ég og hv. 6. þm. Vesturl. töluðum hér, fyrir líklega tveimur kvöldum. Við vorum að sjálfsögðu að fjalla um umhverfismálin vegna þess að ég held að það sé enginn hér á hv. Alþingi sem ekki láti sig þessi mál varða og meira að segja bað nú hv. 5. þm. Norðurl. e. mig um að lesa svolítið meira fyrir sig úr þessari ágætu varnaðarbók sem ég tæpti þá aðeins á. Ég var reyndar búin að lofa honum að endurtaka þann lestur og það er margt í bókinni sem ætti erindi til okkar einmitt núna. Bókin fjallar, eins og sumir vita, um það hvernig lífkeðjan raskast þegar eitrinu er dreift yfir landsbyggðina,
hvort sem það er á láði eða legi, og það hefði verið freistandi að fara hér í nokkra fleiri punkta, en ég ætla samt sem áður að sleppa því. Ég ætla að benda hv. 5. þm. Norðurl. e. á að ef hann á ekki bókina er sjálfsagt að lána honum hana og ég er viss um að hann hefði ánægju af að lesa þar eitt og annað sem snertir áreiðanlega hans taugar eins og svo margra annarra.
    En ég leyfi mér að skora á stjórnarliða og þá ekki síst hæstv. hagstofuráðherra og forsrh. að styðja nú þessa brtt. okkar ásamt öðrum stjórnarliðum og þannig að sýna alvöruna á bak við þetta, að það sé ekki bara verið að stofna hér umhverfisráðuneyti um nafnið tómt, heldur vilji þeir að umbúðirnar fylgi með.
    Hv. 6. þm. Vesturl. flutti hér ágæta ræðu áðan og

hún sagði frá því að hún hefði setið á þingi náttúrufræðinga í morgun þar sem einmitt var verið að fjalla um umhverfisvernd og gróðurvernd. Og hún minntist á þennan bjarta sólardag sem við gætum notið í dag ef við værum ekki hér inni að afgreiða þetta mál sem í hugum okkar er svo þýðingarmikið að við teljum það í raun ekki eftir okkur að sitja hér innan dyra ef við gætum haft áhrif á og komið vitinu fyrir hæstv. ríkisstjórn í þessum efnum.
    Ég ætla að ljúka, hæstv. forseti, þessu máli mínu með því að gefa fréttamönnum tækifæri til þess að fá svolítið aðra mynd af ræðu okkar kvennanna hér í deildinni. Við tölum ekki mikið um prósentur og tölur en það sem þeir kalla málþóf. Ég datt hérna ofan á, þegar ég var að hlusta á ræðu hv. 6. þm. Vesturl. áðan, lítið fallegt ljóð um vorið eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur og ég ætla að fara með það sem lokaorð í þessari umræðu um leið og ég lýsi því að við sjálfstæðisþingmenn getum ekki stutt frv. sem er nafnið tómt en innihaldið ekkert. En ljóð Vilborgar hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Ég taldi feimin eggin
í hreiðrinu sem við fundum.
Gamall spádómur segir
að börnin mín verði jafnmörg.
Svo hallaðist ég að öxl
vinar míns og sagði:
Veist þú, er líka helryk
í Jónsmessunæturdögg?