Stjórnarráð Íslands
Föstudaginn 23. febrúar 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Það hvarflar oft að mér að ég sé e.t.v. of lágróma, það heyrist ekki þegar ég er að reyna að ná hér eyrum hv. þm. og hæstv. ráðherra stundum. Ég reyni því að hækka rödd mína í von um að önnur hlustunarskilyrði trufli ekki.
    Ég bar fram nokkrar fyrirspurnir til hæstv. hagstofuráðherra, og nú er mér ekki kunnugt um hvort hann heyrir til mín. ( Forseti: Ég skal athuga hvort ekki er hægt að sækja hann.)
    Ég mun þá snúa mér aftur að fyrirspurnum mínum en mér fannst eins og annaðhvort hefði ég talað of lágt áðan eða hlustunarskilyrði verið eitthvað slæm hér inni í deildinni. Hæstv. hagstofuráðherra gerði tilraun til að svara tveimur spurninga minna. Hinar standa eftir og þeim hefur ekki verið svarað. Þær voru reyndar fimm eða sex. Þau svör sem hann gaf gáfu svo sem ekki tilefni til neinnar bjartsýni um að væntanlegt umhverfisráðuneyti yrði afgerandi, t.d. ef um væri að ræða árekstra milli atvinnulífsins og umhverfisins, umhverfisverndarsjónarmiða. Ég spurði hæstv. ráðherra áðan í ræðu minni hvernig hann skilgreindi hugtakið umhverfisvernd. Ég fjallaði nokkuð um það hér við 2. umr. málsins. Eins og fram kom í máli mínu áðan hefur ekki heyrst neitt um það hver sé umhverfisverndarstefna eða umhverfisstefna tilvonandi ráðherra þessa málaflokks. Því vildi ég gjarnan fá að heyra hvernig hann skilur þetta hugtak, umhverfisvernd. Ég spurði líka um umhverfisfræðsluna, á hvaða sviðum hún yrði fyrst og fremst, hvað hann teldi að fyrst bæri að leggja áherslu á, að hvaða atriðum og að hvaða aðilum í þjóðfélaginu hún ætti að beinast. Ég spurði hann líka um þá brtt. sem kynnt hefur verið í Nd. og hvert væri hans viðhorf, hvaða skoðun hann hefði á þeirri brtt. sem þar er lögð fram varðandi friðunaraðgerðir.
    Þá vil ég aðeins bæta við örfáum atriðum vegna þeirra orðaskipta sem við höfum átt hér, hv. 4. þm. Austurl. og ég. Mér sýnist einhvern veginn að það sama gildi þar um hlustunarskilyrðin. Ég sit nú einmitt með fyrri ræðu mína frá því um daginn og hann talaði hér um fordóma áðan. Ég get ekki komið auga á fordóma í þeirri ræðu sem ég þá flutti og vil undirstrika að ég gat um það í máli mínu, og ég endurtek það nú, að Landgræðslan hefur unnið mjög gott starf alveg frá því að hún var stofnuð. Hún hefur auðvitað eins og aðrar stofnanir ríkisins haft mislítið fé, liggur mér við að segja, vegna þess að þar hefði auðvitað þurft að vera miklu meira fjármagn til að snúa vörn í sókn eins og ég hef líka talað um aftur og aftur í máli mínu. Sennilega er það einmitt vegna fjárskorts að hluta til að ekki liggur fyrir nein heildarúttekt á árangri Landgræðslunnar því þar hafa menn trúlega kosið að eyða þeim takmörkuðu fjármunum sem þeir hafa fengið í uppgræðsluna því þau sár sem eru í landinu blasa við. Ég vil líka að það komi fram hér og nú, það hefur komið fram fyrr í þessari umræðu af minni hálfu, að það er mikið fagnaðarefni hversu jákvæð viðhorf ríkja í landinu

almennt meðal þjóðarinnar og þá á ég við alla þjóðina, bændur líka, til gróðurverndar. ( EgJ: Þetta er nákvæmlega það sem ég sagði.) Þetta er nákvæmlega það sem hv. þm. sagði og ég sagði það líka í minni fyrri ræðu og get reyndar sýnt honum það hér á eftir. Eins og hann veit og reyndar ég líka, þá hafa bændasamtökin um árabil ályktað um margvíslega þætti skynsamlegrar landnýtingar, svo og um landgræðslu og skógrækt. Eins og við vitum þá er þeim, alla vega í tilteknum landshlutum, ætlað að hafa atvinnu af þessu í þar sem litið er á landgræðslu og þá sérstaklega skógrækt sem sérstakar búgreinar í framtíðinni. Það er auðvitað von okkar allra að þar takist vel til. Mér finnst reyndar sú hugmynd að koma af stað skógrækt með þeim hætti sem nú er stefnt að bera vott um nokkra framtíðarsýn og ég fagna því sérstaklega vegna þess að við vitum að skógrækt gefur ekki beinharðan arð strax í dag.
    En ég vil ítreka enn og aftur spurningar mínar til hæstv. hagstofuráðherra og undrast loðin og óljós svör eins og: ,,Ég hef nú reyndar alltaf verið mikill gróðurverndarsinni og lýsi því yfir hér.`` Það eru ekki svör við spurningum mínum og vil ég mega vænta þess að hann svari þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann.