Kynning á nýjum Evrópumarkaði
Mánudaginn 05. mars 1990


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um skipulega kynningu á nýjum Evrópumarkaði EFTA og EB. Tillagan hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja þegar í stað kynningu meðal þjóðarinnar um málefni EFTA og EB vegna sameinaðs markaðar í Evrópu. Ríkisstjórnin skili Alþingi áfangaskýrslu um málið í þingbyrjun haustið 1990.``
    Ástæðan fyrir því að þessi tillaga er flutt er fyrst og fremst sú að í skoðanakönnunum hefur komið í ljós að íslenska þjóðin hefur ekki fylgst nógu vel með þeim viðræðum sem verið hafa í gangi á milli EFTA og EB-ríkjanna um væntanlegan og hugsanlegan sameinaðan markað í Evrópu.
    Þjóðin stendur brátt frammi fyrir mjög stórri spurningu sem hún þarf að svara á einn eða annan veg. Nú standa samningar EB og EFTA enn þá yfir þannig að það er ekki ljóst hvaða kostir það eru sem okkur bjóðast en það styttist óðum í það að við þurfum að gera upp hug okkar frammi fyrir þeim kostum og þess vegna telur flm. nauðsynlegt að þjóðin sé látin fylgjast betur með framvindu þessara mála en verið hefur.
    Flm. telur að það sé hlutverk Alþingis að sjá til þess að öllum Íslendingum standi til boða að kynna sér forsögu þessa máls, kynna sér allt um Efnahagsbandalagið og EFTA, um þreifingarnar og undirbúninginn sem verið hefur og þær viðræður sem núna eru byrjaðar. Við þurfum að hafa tækifæri til að meta þetta, raða upp kostum og ókostum, nákvæmlega eins og í bókhaldi, debet og kredit, og hver einasti maður verður fyrr eða síðar að vera nógu vel að sér um þessi mál til þess að geta gert upp hug sinn sjálfur. Þess vegna þarf að nota í þessu sambandi alla
fjölmiðla þjóðfélagsins. Það þarf að nota skólana, vinnustaði, fundi, félagslíf og samkomur til að koma þessu áleiðis því að þetta er einhver stærsta spurning sem Íslendingar hafa staðið frammi fyrir. Hún er þó þannig í laginu einhvern veginn að fólk hefur ekki áhuga, lítur á þetta sem hversdagslegan og sjálfsagðan hlut. Það hefur í rauninni ekki áhuga vegna þess að eðli málsins er frekar þurrt. Fyrir bragðið má búast við því einn góðan veðurdag að menn geti staðið frammi fyrir því að ekki verði aftur snúið, það sé búið að samþykkja eitthvað sem þeim er sjálfum þvert um geð og kemur beint á þeirra vilja, hagsmuni eða skynsemi.
    Virðulegi forseti. Ég held að ekki þurfi að fara fleiri orðum um þetta nema ég ítreka það að það er skylda Alþingis að koma kynningu og fræðslu um þessi mál til allrar þjóðarinnar þannig að enginn maður velkist í vafa um hvað þetta mál snýst um þegar að því kemur að hann þarf að taka ákvörðunina um að ganga til samstarfs við þessar þjóðir eða hafna samstarfi. Og að lokum vil ég leggja til að þetta mál verði lagt fyrir dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu samfara alþingiskosningum eða næstu kosningum eftir að valkostir eru ljósir.

    Að svo mæltu legg ég til að tillögunni verði vísað til síðari umr. og til hv. utanrmn.