Flm. (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 535, um skipulega fræðslu og leiðsögn fyrir útlendinga sem taka sér búsetu á Íslandi. Flm. ásamt mér eru þingkonur Kvennalistans, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Guðrún Agnarsdóttir, Kristín Einarsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá um að útlendingar, sem taka sér búsetu á Íslandi, hljóti skipulega fræðslu og leiðsögn sem miði að því að auðvelda þeim að takast á við daglegt líf í íslensku umhverfi.
    Fræðslan skal einkum ná til eftirtalinna atriða: kennslu í íslensku, fræðslu um réttindi og skyldur íslenskra þjóðfélagsþegna, fræðslu um íslenska þjóðfélagið og helstu stofnanir þess, fræðslu um sögu landsins og staðhætti, íslenska menningu og þjóðlíf.``
    Í fylgiskjali með tillögu þessari er að finna fréttatilkynningu frá Hagstofu Íslands frá 12. jan. sl. þar sem m.a. má sjá fjölda þeirra sem búsettir eru á Íslandi en fæddir erlendis, en það eru nú um 10 þús. einstaklingar. Eins og sjá má á því fylgiskjali er nú búsett á Íslandi fólk frá öllum heimsálfum auk þess sem fjölmargir hafa fengið íslenskan ríkisborgararétt hin síðari ár. Á allra síðustu árum hefur æ oftar komið í ljós að erlendar konur, sem giftast Íslendingum, virðast að ýmsu leyti verr settar en karlar hvað varðar það að tengjast og aðlagast íslensku þjóðfélagi. Einkum er þetta erfitt fyrir konur sem eru upprunnar í þjóðfélögum þar sem staða konunnar og viðhorf til kvenna er gjörólíkt því sem gerist hér á landi, þjóðfélögum þar sem litið er svo á að vettvangur konunnar sé eingöngu heimilið og engin félagsleg þjónusta er fyrir hendi.
    Um málefni kvenna frá fjarlægum heimsálfum hefur nokkuð verið fjallað í blöðum undanfarin rúmlega tvö ár en samkvæmt frétt í Pressunni frá 11. maí sl. leita íslenskir karlmenn í auknum mæli til Thailands og Filipseyja eftir kvonfangi. Talið er að í hverjum mánuði komi milli 10 og 20 einstaklingar til landsins með thailenskt eða filipeyskt vegabréf og er hluti þess hóps konur sem hingað koma með væntanlegum íslenskum eiginmönnum sínum. Ég ætla aðeins að fá að vitna til þessarar greinar, með leyfi forseta, en þar segir í síðasta hluta greinarinnar undir yfirskriftinni ,,Flýja fátæktina``:
    ,,Á Filipseyjum og í Thailandi er mikil fátækt og sennilega er það hluti skýringarinnar á því að stúlkur þaðan hætta á ferð út í óvissuna með karlmönnum sem koma frá velmegunarríkjum Vestur-Evrópu. Það er reynsla tollyfirvalda á Norðurlöndum að ættingjar stúlkna frá þessum löndum sæki í að komast til þeirra og setjast að í viðkomandi landi. Karl Jóhannsson segir það sama uppi á teningnum hér á landi og að ásókn Asíubúa í að koma hingað fari vaxandi.`` Það er rétt að geta þess að Karl Jóhannsson, sem hér var nefndur, vinnur hjá útlendingaeftirlitinu.
    Þrátt fyrir þá staðreynd að staða kvenna hér á landi

er allt önnur er ekki auðvelt fyrir þessar konur að brjótast undan því viðhorfi sem þær hafa vanist frá bernsku. Hér á landi koma þær inn í nýjan menningarheim og er þá trúlegt að ýmsir árekstrar verði og þá kannski ekki síst árekstrar milli kynslóða því að í umræddri frétt í Pressunni frá 11. maí kemur fram að eiginmenn þessara kvenna eru oft um það bil helmingi eldri en þær. Ég ætla aðeins að fá að vitna til greinarinnar aftur, með leyfi forseta. Þar segir:
    ,,Starfsfólk á ferðaskrifstofum kannast við íslenska karlmenn sem biðja um ferð til Filipseyja eða Thailands. Lausleg athugun leiddi í ljós að gjarnan eru það eldri menn sem sækja þessar ferðir, oft komnir á sextugsaldur.`` Og skömmu síðar í greininni segir: ,,Eftir því sem Pressan kemst næst eru stúlkurnar sem koma hingað frá Filipseyjum og Thailandi iðulega á aldrinum 20--25 ára eða helmingi yngri en eiginmennirnir.`` Hlutskipti þessara kvenna verður oft það að einangrast við heimilisstörf. Af þeim sökum kynnast þær e.t.v. aðeins þröngum hópi fólks og leita sumar eingöngu eftir félagsskap við eigin landsmenn séu þeir til staðar. Þar eð engin upplýsinga- og fræðsluskylda er fyrir hendi í þjóðfélaginu reynist þeim mjög erfitt að læra tungumálið og fæstar þekkja réttindi sín og skyldur og leita ekki eftir slíkri fræðslu af eigin hvötum. Við hjúskaparslit eða fráfall maka standa þær oft frammi fyrir vandamálum sem eru þeim óyfirstíganleg.
    Í DV 27. jan. sl. eru tvær fréttir um konur sem koma frá Asíulöndum og hér segir í yfirskrift annarrar fréttarinnar, með leyfi forseta: ,,Fá slæmar móttökur hér á landi``, en það er haft eftir Guðrúnu Ágústsdóttur, aðstoðarmanni menntmrh. Það kemur einnig fram og er auðvitað áhyggjuefni að konur þessar hafa, reyndar eins og aðrar konur, þurft að leita til Kvennaathvarfsins en í annarri frétt, sem er undir yfirskriftinni ,,Kvenfyrirlitning fremur en kynþáttahatur, segir Nanna Christensen hjá Kvennaathvarfinu``, segir, með leyfi forseta:
    ,,Á síðasta ári leituðu um 170 konur í Kvennaathvarfið og af þeim eru sex konur frá framandi menningarsvæðum, Thailandi og Filipseyjum,,, sagði Nanna
Christensen hjá Kvennaathvarfinu í Reykjavík. ,,Það hefur komið í ljós í viðtölum við þessar konur að þær eru afar ófróðar um réttarstöðu sína og hvaða möguleika þær hafa hér á landi. Sem dæmi má nefna að ein varð afar undrandi á því að hún gæti skilið við mann sinn án þess að verða rekin úr landi sem hún gat ekki hugsað sér.``
    Nanna taldi ekki að hér væri um kynþáttahatur að ræða, heldur miklu fremur almenna kvenfyrirlitningu. ,,Það er nú svo að margir karlmenn eru haldnir þessari kvenfyrirlitningu og telja að þeir geti vaðið yfir konur á allan máta. Íslenskar konur sem leita til athvarfsins eru margar hverjar mjög beygðar, en þær eiga betri möguleika á að taka föggur sínar og losa sig úr þess konar ástandi. Tungumálaerfiðleikar austurlensku kvennanna koma einnig í veg fyrir að þær fái atvinnu við sitt hæfi. Þeim vex í augum að standa á eigin

fótum og verða fyrir bragðið algerlega háðar eiginmanni sínum.``
    Það eykur enn á vandann að oftast eru þessar konur ekki talandi á öðru tungumáli en sínu móðurmáli og því er hægt að telja þeim trú um hvað sem er.``
    Þó að við sem flytjum þessa tillögu hér bendum sérstaklega á stöðu kvenna sem setjast að á Íslandi vegna hjúskapartengsla teljum við að sjálfsögðu ekki síður nauðsynlegt að karlar úr fjarlægum þjóðfélögum sem kvænast íslenskum konum fái haldgóðan skilning á þeim viðhorfum sem konur þeirra hafa alist upp við. Eins og ég gat um í upphafi máls míns hafa fregnir af þessum hópum austurlenskra kvenna sem hingað hafa flust alltaf birst öðru hverju í fjölmiðlum. Kvennalistakonur hafa um nokkurt skeið fjallað nokkuð um þetta mál og reynt að gera sér grein fyrir með hvaða hætti væri best að taka á því. Mig langar, með leyfi forseta, til að vitna í stutta frétt úr Alþýðublaðinu frá 30. des. 1987 en þar er haft eftir þingkonu Kvennalista, Guðrúnu Agnarsdóttur:
    ,,Guðrún Agnarsdóttir sagði að þær hafi rætt þessi mál í sínum hópi og hyggist þær beita sér fyrir því að þeir sem flytji hingað til lands, hvort sem það er vegna giftingar eða annars, eigi vísan upplýsingaaðila sem kynni þeim réttindi sín og eigi greiðan aðgang varðandi aðstoð ef með þarf.``
    Þetta mál er búið að vera í deiglunni nokkuð lengi bæði í fjölmiðlum og í okkar röðum og sáum við þann kost vænstan að flytja tillögu þess efnis sem hér er flutt.
    1. des. 1989 bjuggu tæplega 5000 erlendir ríkisborgarar á Íslandi. Starfsfólk erlendra sendiráða og erlendir þegnar á vegum Bandaríkjahers eiga ekki lögheimili hér á landi og fylla því ekki þennan hóp. Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands voru 1. des. 1989 tæplega 10 þús. manns búsettir á Íslandi sem fæddir eru erlendis. Vitað er að nokkur hluti þess hóps eru börn íslenskra foreldra sem búið hafa erlendis um skeið. Ekki liggja fyrir aðgengilegar tölur um hve margir í þessum tæplega 10 þús. manna hópi eru í raun útlendingar en tölurnar sýna þó að hér á landi er búsettur stór hópur fólks sem á rætur sínar í öðrum og ólíkum samfélögum. Og hin síðari ár hefur þeim fjölgað sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt.
    Á Norðurlöndunum og í mörgum öðrum nágrannalöndum okkar telja stjórnvöld sér skylt að bjóða erlendu fólki sem flyst til landsins skipulega fræðslu og leiðsögn sem miði að því að auðvelda því að aðlaga sig samfélaginu og nýta sér þá þjónustu sem í boði er. Í Danmörku eru í gildi sérstök lög um kennslu fyrir fullorðna innflytjendur, þ.e. fólk yfir 18 ára aldri, en gert er ráð fyrir að skólakerfið sinni þeim sem yngri eru. Samkvæmt dönsku lögunum er hverju sveitarfélagi gert að standa fyrir fræðslu sem miði að því að gera innflytjendum kleift að vera raunverulegir þátttakendur í danska þjóðfélaginu. Í Svíþjóð þykir svo sjálfsagt og rétt að útlendingar búsettir í landinu fái sænskukennslu og fræðslu um

þjóðfélagið að vinnuveitendum er skylt að gefa þeim leyfi frá störfum til þess að sækja slík námskeið.
    Í fréttum á Stöð 2 fyrr í vetur voru viðtöl við nokkrar austurlenskar konur og íslenska eiginmenn þeirra. Hjá öllum kom fram að lífið hefði verið mun auðveldara ef þær hefðu getað fengið kennslu og fræðslu.
    Íslensk stjórnvöld hafa tekið á móti hópum flóttamanna og falið Rauða krossi Íslands umsjón með þeim meðan þeir eru að stíga sín fyrstu spor í framandi þjóðfélagi. Þannig hafa þeir sem hingað hafa komið í skipulögðum hópum notið nokkurrar kennslu í íslensku og leiðsagnar um íslenska þjóðfélagið. Þess má vænta að framhald verði á innflutningi fólks sem ekki á athvarf í sínu heimalandi en auk þess koma árlega fleiri eða færri einstaklingar til landsins á eigin vegum, ýmist vegna hjúskapartengsla, til náms eða í atvinnuleit. Með auknum samskiptum við umheiminn og bættum samgöngum hafa bæði námsdvalir í öðrum löndum og fjarlægum aukist að miklum mun auk þess sem Íslendingar hafa lagst í ferðalög til hinna fjarlægustu heimshluta. Einnig hefur athygli útlendinga beinst að Íslandi í auknum mæli. Áhugi á því að kynnast landi og þjóð hefur orðið til þess að fólk frá öðrum löndum hefur flykkst hingað til náms og í atvinnuleit. Öll þessi samskipti hafa leitt til nánari kynna og jafnvel hjúskapartengsla þannig að erlent fólk hefur sest hér að í sívaxandi mæli. Mjög mismunandi er hvernig þetta fólk er í stakk búið til að aðlagast íslenskum aðstæðum.
    Í stuttu máli má segja að það muni vera því þeim mun erfiðara eftir því sem tungumálið er óskyldara og þjóðfélagið ólíkara. Lega landsins, loftslag og veðurfar hefur einnig mjög mikil áhrif. Sú fræðsla sem hér er lagt til að fari fram hlýtur að vera nauðsynleg öllu erlendu fólki sem hyggur á búsetu hér. Þekking á sögu og uppruna þjóðarinnar, réttindum og skyldum þegnanna og góð tök á íslenskri tungu hljóta að vera frumskilyrði þess að fólk sem hér sest að skynji sig sem raunverulega þátttakendur í samfélaginu. Erlent fólk sem velur sér búsetu á Íslandi stendur frammi fyrir margháttuðum erfiðleikum við að samlagast þjóð og þjóðlífi. Það ætti því að vera stjórnvöldum metnaðarmál að leggja þessu fólki lið í viðleitni þess til að gerast góðir og gegnir þegnar í samfélagi okkar.
    Ég hef beint sjónum mínum aðallega að þeim hópi kvenna sem hingað flytja frá Thailandi og Filipseyjum. Okkur flutningsmönnum er að sjálfsögðu kunnugt um þá óformlegu nefnd sem sett var á laggirnar fyrir ábendingar frá Mörtu Bergmann, félagsmálastjóra í Hafnarfirði, og hæstv. félmrh. hafði forgöngu um. Í þeirri nefnd er fulltrúi frá Kvennaathvarfi og Jafnréttisráði auk aðstoðarkonu menntmrh.
    Við kvennalistakonur teljum það jákvæða viðleitni og í raun vissa viðurkenningu á því að íslenska þjóðfélagið hafi ákveðnar skyldur gagnvart þeim hópi kvenna sem hingað flytja frá framandi menningarsvæðum. Við teljum þó nauðsynlegt að fræðsla sem þessi nái til allra þeirra útlendinga sem

hingað flytja og tekið sé á henni með formlegum hætti.
    Að lokinni þessari umræðu vil ég leggja til að tillögunni verði vísað til félmn. og síðari umræðu.