Ásgeir Hannes Eiríksson:
    Virðulegi forseti. Ég er meðflm. að þessu frv. til laga og gerði það eftir vandlega íhugun án þess að gera miklar kröfur um efnislegar breytingar þó ýmislegt væri í þessum texta sem ég vissi að mundi orka tvímælis. Ég lít fyrst og fremst á þetta frv. sem heiðarlega tilraun til að reyna að bæta siðferðið í íslensku athafnalífi. Þess vegna er það nr. 1 að þetta mál sé rætt hér á Alþingi eins og nú er gert. Hér er verið að velta upp flötum á textanum og þá kemur ýmislegt í ljós. Og áður en sagan er öll verðum við vonandi komin að niðurstöðu sem við getum vel við unað og sem er til þess fallin að ná markmiði frv.
    Ég þekki sjálfur atvinnurekstur, ég hef stundað ýmiss konar atvinnurekstur og brask frá því að ég var í verslunarskóla og hef verið báðum megin. Bæði hef ég hagnast á atvinnurekstri og tapað á atvinnurekstri. Ég hef líka brotið þau lög sem hafa snúið að atvinnurekstri lítillega og ég hef orðið fórnarlamb þeirra brota ekki síður. Í mínum huga er ákaflega brýnt að skoða ýmsa þætti sem tekið er á í þessum lögum. Í 2. gr. segir:
    ,,Maður skal teljast hafa brugðist skyldum sínum gróflega hafi hann í atvinnurekstrinum gerst sekur um:`` --- og síðan koma nú hlutir sem þarf eiginlega ekki að fjölyrða um að eru brot ---
,,a. brot gegn almennum hegningarlögum eða annað meiri háttar afbrot,
    b. meiri háttar brot gegn lögum um opinber gjöld,
    c. meiri háttar brot gegn lögum um bókhald,
    d. önnur meiri háttar efnahagsbrot.``
    Hér er alls staðar í 2. gr. rætt um brot. Brot eiga ekki að orka tvímælis.
    Síðar í 2. gr. segir: ,,Einnig má dæma í atvinnurekstrarbann mann sem hefur í sjálfstæðum atvinnurekstri orðið gjaldþrota, enda hafi hann í atvinnurekstrinum gerst sekur um stórlega ámælisverða háttsemi gagnvart lánardrottnum sínum.`` --- Það er málið. Ekki af því að maðurinn er gjaldþrota. Thor Jensen var gjaldþrota á sínum tíma. Það var ekkert ámælisvert fundið við það gjaldþrot, þ.e. hann var gjaldþrota af ástæðum sem hann réð ekki við. Það varð ekki fundið að hann hefði gerst sekur um stórlega ámælisverða háttsemi gagnvart lánardrottnum sínum. Stórlega ámælisverð háttsemi brýtur yfirleitt einhver lög, hún stríðir yfirleitt gegn einhverjum gildandi lögum þannig að það er nokkuð sjálfgefið að sé því fylgt eftir verða menn dregnir fyrir rétt út af lögbroti.
    Virðulegur alþm. Geir Haarde sagði áðan í pontu að menn væru ekki sviptir leyfum í dag fyrir brot heldur ýmist dæmdir í sektir eða dæmdir til fangelsisvistar. Ég man nú ekki betur en það sé tiltölulega stutt síðan að forsvarsmenn fyrirtækja voru dæmdir fyrir brot á innflutningslöggjöf, fyrir verðlagsbrot og bókhaldsbrot og þá hafi leyfishafar verið sviptir leyfum. Lögmenn hafa verið sviptir réttindum og leyfum til málflutnings
fyrir brot í sínu starfi. Læknar hafa verið sviptir

leyfum fyrir brot og meira að segja prestar hafa verið sviptir kjóli og kalli. Svo að það er alls enginn nýr sannleikur að menn séu sviptir leyfum, að þeim sé haldið utan við atvinnugrein vegna þess að þeir hafa brotið af sér á einn eða annan hátt. Annaðhvort lögin eða reglur eða þeir hafa haft í frammi stórlega ámælisverða háttsemi á sínum starfsferli.
    Ég ítreka það að ég sé alls ekki fyrir mér að þessi lög nái til fólks sem lendir í erfiðleikum við gjaldþrot nema að það hafi beitt sviksemi í rekstri eða við þann rekstur sem gjaldþrota hefur orðið. Ég þekki vel dæmi af rekstri fyrirtækis þar sem eigandinn borgaði engin gjöld, safnaði í sjóði og lét fyrirtækið fara til skiptameðferðar, en hélt eftir þekkingu, hélt eftir tækjum og hélt eftir sviksamlega fengnum peningum. Byrjaði síðan á sama grunni með sams konar fyrirtæki og gamla fyrirtækið sem sett var í gjaldþrot. Og fjöldinn allur af fólki sat eftir með miklar skuldir og sárt ennið. Það eru atburðir af þessu tagi sem við erum að reyna að koma í veg fyrir. A.m.k. er minn skilningur á frv. sá að við séum að reyna að koma í veg fyrir að fólk, saklaust og grandalaust, bíði tjón og skaða af alls kyns svikastarfsemi sem er rekin í skjóli leyfa og leyfisveitinga í þjóðfélaginu.
    Nái Alþingi einhverjum árangri á þessu sviði þá tel ég að þetta frv. sé af hinu góða. Hvort það verður samþykkt orðrétt eins og það kemur fyrir hér eða hvort það tekur miklum breytingum. Ég vona að frv. leiði til þess að viðskiptalíf í landinu verði betra á eftir og hægt sé að hefja atvinnureksturinn víða á hærra plan.