Launasjóður stórmeistara í skák
Þriðjudaginn 06. mars 1990


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil við þessa 1. umr. um frv. til laga um Launasjóð stórmeistara í skák gera nokkrar athugasemdir. Ég vil í upphafi segja að ég fagna því að þetta frv. skuli vera fram komið og styð í meginatriðum efni þess. Eins og fram kom í máli hæstv. menntmrh. hefur það verið svo á undanförnum áratugum, eða allt frá því að Friðrik Ólafsson vann til stórmeistaratignar 1957, að íslenskir stórmeistarar í skák hafa notið launa hjá íslenska ríkinu. Nú er svo komið að þeir eru fjórir sem njóta þessara launa, eru á launaskrá hjá menntmrn. og stunda ekki aðra atvinnu en skákiðkunina. Um þetta hafa hins vegar ekki verið neinar fastmótaðar reglur og því hefur verið nauðsyn á því, nokkuð lengi, að setja lagaramma um þessar launagreiðslur.
    Ég vil geta þess að þann tíma sem ég sat í menntmrn. lagði ég drög að því að frv. yrði samið um þetta efni en ekki vannst tími til að ljúka því verki. Hér er farin sú leið að stofna sérstakan sjóð. Það má auðvitað hugsa sér ýmsar aðrar leiðir í þessu efni eða lagaramma með öðrum hætti en að stofna sérstakan sjóð. Ég geri ekki sérstakar athugasemdir við það. Mér finnst hins vegar vera spurning hvort rétt sé að takmarka hann í lögum við fjögur stöðugildi eins og hér er gert samkvæmt 1. gr. og tel rétt að nefndin sem fær málið til meðferðar hugi frekar að því efni. Mér finnst líka rétt að huga betur að því ákvæði í 3. gr. frv. að rétt til greiðslu úr sjóðnum hafi þeir íslenskir skákmeistarar sem öðlast hafi alþjóðlegan titil stórmeistara og sýna skákstyrk sinn með því að ná stórmeistaraárangri a.m.k. einu sinni á tveggja ára tímabili. Það kann að vera að þarna þyrfti að hafa eitthvað rýmra svigrúm því að við vitum að skákmenn, eins og ýmsir aðrir afreksmenn, eiga bæði sína slæmu tíma og sína góðu tíma. Það kann að vera að hér séu settar of þröngar skorður.
    Hér eru lagðar vissar starfsskyldur á stórmeistara og það hefur ávallt verið hugmyndin á bak við þessar launagreiðslur að þeim fylgdu einnig skyldur og ekkert við því að segja. Ég held, eins og þetta er orðað, að ekki sé þrengt um of að skákmeisturunum í þessu efni en þó er rétt að kanna það örlítið nánar í nefndinni.
    Ég tel hins vegar að í 6. gr., þar sem vísað er til þess að menntmrh. setji reglugerð þar sem m.a. er kveðið á um vörslu sjóðsins og úthlutanir úr honum, væri eðlilegra, úr því að þessi leið var farin að hafa sérstakan launasjóð, að fella inn í lögin sjálf hver færi með vörslu sjóðsins --- ég hef engar athugasemdir um það sem fram kemur í reglugerðardrögunum um það efni að það sé menntmrh. --- og hvernig úr honum skuli úthlutað, þ.e. í samráði við stjórn Skákskóla Íslands og Skáksamband Íslands. Ég hefði talið að ákvæði af þessu tagi ættu að vera í lögunum sjálfum en það væri ekki einfalt reglugerðaratriði að breyta því ef mönnum sýndist svo.
    Ég ítreka að ég fagna því að þetta frv. skuli vera fram komið. Ég á sjálfur sæti í þeirri nefnd sem

kemur til með að fjalla um það og skal gera mitt til þess að þetta frv. fái skjóta meðferð í hv. nefnd þannig að það fái afgreiðslu hér á þinginu í vetur.