Fjáraukalög 1988
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. hefur hér mælt fyrir frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1988. Frv. til fjáraukalaga og fjáraukalög sýna í raun niðurstöðu af fjármálum ríkisins fyrir það ár sem hlut á að máli. Þar er að finna vitnisburð um fjármálastjórnina, hvernig hún hefur tekist á því ári sem fjáraukalögin fjalla um.
    Ég held að ástæða sé til að nefna hér hver voru helstu markmiðin sem sett voru þegar fjárlög fyrir þetta ár, árið 1988, voru afgreidd. Nú er rétt að taka fram að á því ári, árinu 1988, sátu tveir fjármálaráðherrar, tvær ríkisstjórnir störfuðu á því ári þannig að vera kann að ekki liggi ljóst fyrir hverjum beri heiður eða hverjum beri skömm af því sem þá hefur gerst nema að einhverju takmörkuðu leyti. Ég vil hins vegar rifja upp að þegar fjárlög voru afgreidd fyrir árið 1988 voru meginmarkmiðin þessi:
    Að ná jöfnuði í ríkisbúskapnum. Að minnka lánsfjárþörf ríkissjóðs þannig að engar nýjar erlendar lántökur þyrfti fyrir A-hluta ríkissjóðs. Endurskoða átti tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs með það að markmiði að gera kerfið einfaldara, skilvirkara og réttlátara, eins og það var orðað. Draga átti úr sjálfvirkni ríkisútgjalda. Það átti að aflétta ríkisábyrgðum og stefna að sölu ríkisfyrirtækja. Öllum er kunnugt að a.m.k. eitt af þessum markmiðum komst í framkvæmd, en það var endurskoðun tekjuöflunarkerfis ríkissjóðs með veigamiklum skattalagabreytingum. Hvort þær urðu til þess að gera kerfið einfaldara, skilvirkara og réttlátara getum við látið liggja á milli hluta. Það er enn fremur álitamál hvort með þeim kerfisbreytingum hafi náðst jafnmikil breyting í þá átt að koma innheimtu af óbeinum sköttum í betra horf en áður var eins og til var ætlast. Aðrir þættir í þessum markmiðum ýmist náðust ekki eða illa.
    Það kemur auðvitað best fram í þessum fjáraukalögum vegna þess að það var síður en svo að jöfnuður næðist í ríkisbúskapnum. Afkoma A-hluta ríkissjóðs var miklu verri en stefnt var að við fjárlagagerð fyrir árið 1988. Þá voru fjárlög afgreidd með jöfnuði og að því var vitaskuld stefnt að framkvæmd fjárlaganna yrði með þeim hætti að sá jöfnuður héldist. Niðurstaðan liggur hér fyrir og er raunar kunn. Hún er á þann veg að halli varð á ríkisbúskapnum sem nemur 8,1 milljarði kr. Þessi niðurstaða er auðvitað hrapalleg. Og þetta gerðist með þeim hætti að þrátt fyrir að samdráttur yrði í veltu í þjóðfélaginu, eins og hefur verið lögð rík áhersla á sem orsök að þessum mikla halla, var það nú samt svo að tekjur ríkissjóðs urðu um 930 millj. kr. hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir. En á hinn bóginn urðu útgjöld A-hluta ríkissjóðs yfir 9 milljörðum hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Þrátt fyrir að segja megi að tekjur ríkissjóðs á þessu ári hafi eigi vaxið jafnmikið og hefði mátt vænta með tilliti til breytinga á verðlagsforsendum er þó ljóst af þessu að útkoman stafar fyrst og fremst af útgjaldaþenslu, gífurlegri útgjaldasprengingu. Útkoman stafar af útgjaldavanda

en ekki af tekjuvanda nema að litlum hluta. Þetta er sú niðurstaða sem fyrir liggur.
    Nú ætla ég ekki að auðvelt sé að skilja nákvæmlega á milli hvar mistökin hafi verið gerð, skilja á milli þeirra hæstv. ríkisstjórna sem sátu á þessu ári, í fyrsta lagi ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar sem sat fram undir lok september og síðan ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar sem settist að völdum að ég ætla 28. september þetta ár. En ljóst er að ríkisfjármálastjórnin fór úr böndum í höndum þeirra tveggja hæstv. ráðherra sem sátu að störfum þetta ár, þ.e. hæstv. núv. utanrrh. Jóns Baldvins Hannibalssonar og hæstv. núv. fjmrh. Ólafs Ragnars Grímssonar.
    Ég hef leyft mér að rifja það upp á stundum að sá af þessum tveimur fjmrh. sem fyrr gegndi starfi á því ári, þ.e. Jón Baldvin Hannibalsson, hafði gefið um það skýrslu til þáv. ríkisstjórnar í ágústmánuði 1988 að líklegur halli á ríkissjóði á því ári yrði 693 millj. kr. Þegar Ríkisendurskoðun gerði athugasemdir við þessa skýrslu hæstv. fjmrh. brást hann hinn versti við og hafði sína starfsmenn með sér í þeim leik að hrekja ályktanir Ríkisendurskoðunar í mörgum liðum. Og hann hélt því fram innan ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar fram undir það síðasta að hallinn yrði þessi, hvorki meiri né minni.
    Nú fór það svo að hallinn varð eins og hér liggur fyrir um 8,1 milljarður kr. Það er sannarlega mikil breyting frá áætlunum hæstv. fyrrv. fjmrh. Jóns Baldvins Hannibalssonar til þeirrar niðurstöðu sem varð í höndum hæstv. fjmrh. Ólafs Ragnars Grímssonar. Hvort áætlanir hæstv. ráðherra Jóns Baldvins Hannibalssonar hafa verið rangar, annað tveggja vegna þess að hann eða hans menn hafa ekki séð þróunina fyrir, eða hvort þar var um villandi greinargerð að ræða skal hér ósagt látið. Þetta var hins vegar það sem lagt var fyrir þáv. ríkisstjórn. Segja má sem svo að miðað við þær áætlanir að halli á ríkissjóði yrði eigi meiri en þetta er kannski ekki hægt að ásaka þá ríkisstjórn stórkostlega fyrir að hafa ekki gripið til ráðstafana til að mæta hinum breyttu horfum í ríkisrekstrinum. Á hinn bóginn þegar það blasir við á þeim
mánuðum sem fóru í hönd eftir að ný ríkisstjórn hafði tekið við völdum, þá var heldur ekki gerð nein tilraun til að bregðast við versnandi horfum til þess að reyna að hafa áhrif á það að halli ríkissjóðs yrði minni en varð. Þetta er auðvitað ásökunarefni og hefði verið full þörf á því að leitast við með sparnaði og miklu aðhaldi og e.t.v. með lagabreytingum að koma því til leiðar að útkoman yrði ekki jafnhrapalleg og hér hefur verið lýst og hér liggur fyrir í því frv. sem hæstv. ráðherra hefur mælt fyrir.
    Ég ætla ekki að greina mjög í sundur milli þessara hæstv. ráðherra. Það hefði kannski ekki verið óeðlilegt að sá hæstv. fjmrh. sem tók við á síðari hluta ársins hefði hugsað sem svo að það gerði ekki eins mikið til frá pólitísku sjónarmiði frá hans hálfu þó að útkoma þess árs, þ.e. ársins 1988, yrði lakari, ef það gæti orðið til þess að hann næði betri tökum á

ríkisfjármálum árinu á eftir, þ.e. árinu 1989. Það væri kannski ekkert einkennilegt þó að hann hefði haldið svo á málum að hnika til útgjöldum þannig að útgjöldin færðust meira á árið 1988 nálægt áramótum heldur en kannski væri mögulegt og ekki unnið að þeim málum með þeim hætti að fara að geyma útgjöld fram yfir áramót og ég vænti að svo hafi verið gert. En útkoman á árinu 1989 sýnir að ekki varð breyting til batnaðar svo neinu nam.
    Þessi staða er auðvitað dómur um það að fjármálastjórnin hefur mistekist hrapallega á árinu 1988 í höndum þeirra tveggja hæstv. fjmrh. sem þá sátu, sem síðar urðu félagar og nær fóstbræður í fundaferð um landið sem þeir kölluðu ,,Á rauðu ljósi``. Þeir hafa margt átt saman að sælda síðan og hafa gert miklar tilraunir til að breyta flokkaskipun í landinu með því að sameina sína flokka og ætla sér þá að fara um í nýju ljósi. Látum svo vera.
    Ég sagði áðan að mikið hefði verið gert úr því af hálfu fjmrh. að það hefðu orðið þáttaskil í efnahagskerfinu og mikill samdráttur hefði orðið í veltu. Víst varð nokkur samdráttur í veltu og samdráttur í efnahagskerfinu en eigi að síður var þetta þó svo að í heild urðu tekjur ríkissjóðs á umræddu ári um 930 millj. hærri en að var stefnt í fjárlögum. Þetta gerðist m.a. með því að beinir skattar voru um 1 milljarði hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Á hinn bóginn varð innheimta söluskatts lægri þrátt fyrir þær breytingar sem orðið höfðu á söluskattskerfinu. Ég hef stundum sagt það að yfirlýsing fyrrv. hæstv. fjmrh. Jóns Baldvins Hannibalssonar á miðju ári varðandi það að hafa reiður á innheimtumálum fyrir ríkissjóð hafi verið afar óheppileg. Þá gaf hæstv. þáv. fjmrh. út þá yfirlýsingu að felld yrðu niður viðurlög af hálfu ríkisins við vanskilum á opinberum gjöldum. Ég hef satt að segja sjaldan heyrt jafnóviturlega yfirlýsingu af hálfu eins fjmrh. Þetta leiddi auðvitað til þess að innheimta hrapaði niður sem sýnir sig í því m.a. að á árinu í heild varð innheimta á söluskatti 1,2 milljörðum lægri en gert var ráð fyrir í fjárlögum.
    Um þá miklu útgjaldasprengingu sem varð á því ári er auðvitað hægt að hafa mörg orð. Sú útgjaldasprenging er sundurgreind í þessu frv. Það má draga það nokkuð í sundur. Þar er gert ráð fyrir að hækkun gjalda vegna verðlagsbreytinga hafi orðið um 3,3 milljörðum kr. meiri en gert var ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga. Aukin útgjöld vegna nýrra verkefna og magnaukningar í umfangi ríkiskerfisins urðu um 1,3 milljarðar umfram það sem fjárlög gerðu ráð fyrir. Magnaukning og ný verkefni á vegum ríkisins á þessu ári kostuðu sem svaraði 1,3 milljörðum meira en gert var ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga. Síðan má tala um hækkanir sem stafa af breyttum forsendum og vanáætlunum í fjárlögum og magnaukningum frá áætlun fjárlaga sem nemur alls um 3,4 milljörðum kr.
    Ég held að auðvitað sé rétt að taka eftir því að um 2 / 3 af allri þessari aukningu útgjalda eru vegna vaxta, launa, lífeyris- og sjúkratrygginga. En um 12% af þessari aukningu eru vegna niðurgreiðslna á búvöru og uppbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir. Á árinu

1988 varð hrein aukning á starfsmannahaldi, magnaukning á starfsmannahaldi ríkisins hjá A-hluta ríkissjóðs, um 280 stöðugildi. Það sýnir að þurft hefði að halda fastar á málum af hálfu þeirra sem fóru með fjármál ríkisins á þessu ári. Miðað við versnandi horfur í ríkisbúskapnum hefði þurft að koma í veg fyrir ný útgjöld vegna nýrra viðfangsefna, vegna magnaukningar, vegna nýrra stöðugilda og margs konar eyðslu. Því miður var þetta ekki gert. Ég minnist þess til að mynda að á þessu ári var stofnuð án heimilda ný deild, sett á laggir ný deild innan fjmrn., svokölluð hagdeild. Voru þó ærið margar hagstofnanir til í þjóðfélaginu. Hagstofnanir sem sumar hverjar höfðu það að markmiði að þjóna starfandi ríkisstjórn. Og í tengslum við fjmrn. starfar Fjárlaga- og hagsýslustofnun, eins og kunnugt er, sem hefur m.a. hagsýsluverkefni með höndum, auk þess sem Þjóðhagsstofnun hafði til þess tíma haft með höndum í umboði Fjárlaga- og hagsýslustofnunar að reikna út og gera áætlanir um tekjuhlið fjárlaganna og tekjur ríkissjóðs.
    Hér var eigi að síður sett á laggir ný deild innan fjmrn. og það án þess að heimildir lægju fyrir og án þess að nokkur stafkrókur væri fyrir því í fjárlögum eða á annan hátt heimildir frá Alþingi að það skyldi gert.
    Á árinu 1988, árinu sem átti að koma í veg fyrir allar nýjar erlendar lántökur vegna A-hluta ríkissjóðs, urðu nýjar erlendar lántökur eigi að síður 4 milljarðar 230 millj. kr. Og innlendar lántökur A-hluta ríkissjóðs hækkuðu einnig stórlega. Að meðaltali var skuld ríkissjóðs við Seðlabanka Íslands á því ári um 6,8 milljarðar á mánuði hverjum, í hverjum einasta mánuði ársins að meðaltali. Það var u.þ.b. tvöfalt hærri skuld hjá Seðlabankanum en gert hafði verið ráð fyrir þegar lagt var upp með fjárlög ríkisins í upphafi ársins.
    Ég held að ástæða sé til að draga þessi atriði fram og ég tek vitaskuld fram að með því er ég ekki að ásaka núv. hæstv. fjmrh. fyrir allt það sem miður fór á árinu 1988. Þar var meðferð þessara mála meiri hluta ársins í höndum annars ráðherra, hæstv. ráðherra Jóns Baldvins Hannibalssonar. En það haggar ekki því að á því ári fóru fjármál ríkisins úr böndunum í höndum þessara tveggja hæstv. ráðherra. Og þetta varð vitaskuld til þess m.a. að umræður spruttu upp hér á Alþingi og annars staðar um að svo búið mætti ekki lengur standa. Ég man að hv. 2. þm. Vestf. tók stundum skarplega til orða um þessi mál og við tveir hv. þm. Sjálfstfl. fluttum frv. sem átti að hafa að markmiði að hafa nokkurn hemil á sjálftökuvaldi hæstv. fjmrh. um útgjöld ríkissjóðs. En síðan tók fjvn. það mál upp og undirbjó það frv. sem hér var til 1. umr. í gær.
    Því miður hefur það farið svo að útgjöld ríkissjóðs á árinu 1989, sem átti að verða tímamótaárið mikla í höndum núv. hæstv. fjmrh., þar sem hætt skyldi hallarekstri, sóun og eyðslu og tekinn upp jöfnuður í búskap ríkissjóðs, því miður fór það að litlu leyti betur. Einnig þá fóru útgjöld ríkissjóðs um 9 milljarða

eða yfir 9 milljarða fram úr því sem fjárlög kváðu á um. Þá hækkuðu að vísu tekjur ríkissjóðs umfram fjárlög meira en á árinu á undan, eða um tæpa 3 milljarða, en eigi að síður leiddi það til þess að þau tímamótafjárlög sem þá voru afgreidd með 635 millj. kr. tekjuafgangi snerust upp í það að halli á ríkissjóði varð yfir 6 milljarðar. Framhaldið hefur því verið með svipuðum hætti á árinu 1989 í höndum hæstv. núv. fjmrh. Ólafs Ragnars Grímssonar, og með þeim hætti að ég tel að Alþingi geti ekki sætt sig við það að fjármál ríkisins verði rekin með þeim hætti sem hér hefur verið gert í tvö ár. Það er eitt af hinum þýðingarmestu viðfangsefnum í efnahagsmálum okkar Íslendinga að ná tökum á fjármálum ríkissjóðs þannig að þessum gífurlega hallarekstri linni. Að ekki safnist upp í sífellu skuld ríkissjóðs erlendis sem innan lands með vaxandi vaxtabyrði sem á fjárlögum þessa árs er á milli 9 og 10 milljarðar kr.
    Þetta hlýtur að verða meðal hinna þýðingarmestu viðfangsefna sem taka verður á þegar núv. hæstv. ríkisstjórn hefur lokið sinni göngu. Og þáttur í því, veigamikill þáttur í því að stemma stigu við þeirri óráðsíu og þeirri miklu útþenslu í útgjöldum ríkissjóðs umfram fjárlög sem nú hefur viðgengist síðustu tvö árin er að fá lögfest það frv. sem hér var mælt fyrir í gær af hv. 5. þm. Vestf., formanni fjvn. Alþingis. Engir útúrsnúningar eða tillögugerð af hálfu fjmrh. um ýmsa aðra hluti hagga því að á þessu máli þarf að taka.
    Ég ætla ekki að fara ofan í einstök atriði þessa frv., sem væri auðvitað hægt að gera í mjög mörgum greinum, eða að endurteka það sem ég hef raunar oft áður sagt um misnotkun á opinberu fé, sem þó kastaði fyrst tólfunum á árinu á eftir, þ.e. árinu 1989, þar sem fé ríkissjóðs var notað í heimildarleysi til ýmissa ráðstafana á vegum ríkissjóðs og ríkisstjórnar og sumpart þannig að um leið voru brotin önnur lög, þ.e. lög um Stjórnarráð Íslands. Og enn er ekki að sjá nein merki þess að vilji sé fyrir því hjá hæstv. ríkisstjórn að taka tillit til þeirrar hörðu gagnrýni sem ég hef margoft látið koma hér fram á ráðslag ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Enn heldur hæstv. ríkisstjórn áfram að bæta fleiri rósum í hnappagat sitt hvað þetta snertir. Og ég veit ekki betur en hæstv. utanrrh. hafi nú nýlega ráðið enn nýjan mann í sína þjónustu án heimilda og í bága við lög.
    Virðulegur forseti. Hv. fjvn. mun auðvitað taka þetta mál til athugunar og hefur raunar þegar farið yfir það að verulegu leyti þrátt fyrir að málinu hafi enn ekki verið vísað til hennar, vegna þess að nefndin þarf að drýgja tíma sinn til starfa þar sem svo mörg mál bíða þess að hægt sé að takast á við þau eftir að svokallað niðurskurðarplagg eða niðurskurðaráætlun ríkisstjórnarinnar verður tekin til afgreiðslu, sem er í fjáraukalögum fyrir árið 1990. En fyrr en það mál hefur verið afgreitt er ekki hægt að takast á við ýmis veigamikil verkefni sem bíða fjvn. og Alþingis og sum hver enn ekki komin fram, svo sem till. til þál. um breytingar á vegáætlun. Það bíður hins vegar síðari umræðu um þetta mál að fara ofan í einstök

atriði frv. en ég taldi eðlilegt að fjalla um þetta hér í örfáum orðum með almennum hætti eins og ég hef gert í þessari umræðu.