Frestun umræðu um fjáraukalög
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að blanda mér inn í samninga forseta við einstaka þingmenn stjórnarandstöðu. En það er óhjákvæmilegt að ég geri þinginu grein fyrir því að þegar flutt er frv. til fjáraukalaga um breytingu á fjárlögum yfirstandandi árs, þá er afar brýnt að þingið taki slíkt frv. skjótum og föstum tökum. Það væri afar vont að skapa það fordæmi hér á þingi eða láta það viðgangast að mál af því tagi sé vikum saman til meðferðar hér í þinginu, sérstaklega þegar fyrir liggur að með því frv. sem hér á að koma til umræðu er verið að skera niður ríkisútgjöldin og þar með takmarka þau umsvif sem ríkisstofnanir og fjölmargir aðrir aðilar hafa til framkvæmda og reksturs á því ári sem nú er að líða.
    Ég veit að umræðan um EFTA og EB er mikilvæg. En hún hefur þó ekki bein áhrif frá degi til dags. Þar er um að ræða dagskrárefni sem búið er að vera til umræðu af og til sl. fimm mánuði og getur varla breytt miklu til eða frá hvort það kemur áfram til umræðu deginum fyrr eða síðar. Ég verð hins vegar að vara við því að ef það gerist hér á mánudag að umræða um EFTA og EB standi allan daginn og fram til kvölds getur farið svo að þá verði ekki heldur tími eða aðstæður til þess að taka fyrir frv. til fjáraukalaga og það þurfi að bíða til fimmtudags í næstu viku. Það líði því hálfur mánuður frá því að frv. sem hefur áhrif á rekstrarútgjöld ríkisstofnana nánast nú þegar, vegna þess að hér er verið að leggja til niðurskurð á ríkisútgjöldum í kringum 3 milljarða þegar allt er talið, bæði vegna breytinga á forsendum og vegna sérstakra aðgerða og það skapar svo gífurlega óvissu í rekstrarstöðu og framkvæmdum fjölmargra ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja að það er algerlega óviðunandi. Þess vegna verð ég að leggja á það ríka áherslu við þingflokkana og við forseta að menn íhugi í alvöru möguleikana á því að semja um að taka þetta frv. til fjáraukalaga fyrir 1990, sem er miklu mikilvægara en 1988 vegna þess að það er liðin tíð, til umræðu á mánudag og semja um það að ljúka --- ekki bara taka það á dagskrá, virðulegi forseti, heldur ljúka þeirri umræðu nk. mánudag svo að þingið geti sameinast um að afgreiða þetta frv. í þessum mánuði.