Vandi loðdýræktarinnar
Mánudaginn 12. mars 1990


     Stefán Guðmundsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. málshefjanda fyrir að hefja mál þetta hér. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við ræðum um vandamál þessarar atvinnugreinar og það er út af fyrir sig hörmulegt að við skulum gera það í því tímahraki sem við þurfum að leika. Málið er vissulega það alvarlegt að við þyrftum að taka til þess betri tíma.
    Hins vegar er öllum ljóst hver vilji Alþingis er í þessu máli. Þess vegna þurfum við ekki að eyða hér löngum tíma. Vilji Alþingis er alveg skýr í þessu máli. Landbúnaðarnefndir beggja deilda komust að niðurstöðu, sem þingið samþykkti, um að finna lausn á þessu máli. Margar nefndir hafa starfað í sambandi við vandamál þessarar atvinnugreinar. Það eru búnar að starfa nógu margar nefndir og það er búið að taka saman nógu mikið af skýrslum, það vantar ekkert af þessu. Það vantar athafnir og framkvæmdir.
    Menn hafa einnig talað um það hér að það sé Byggðastofnun sem eigi að fara með málefni fóðurstöðvanna. Hv. þm. Ólafur Þórðarson svaraði því hér að nokkru leyti áðan og það er rétt að ætlast var til þess að Byggðastofnun gerði það. Byggðastofnun getur það hins vegar ekki. Það verður öllum að vera ljóst. Byggðastofnun getur það ekki nema hún fái til þess fjármagn. Byggðastofnun verður að fá sérstakt fjármagn ef hún á að geta orðið við því og það er öllum ljóst að ef á að reka fóðurstöðvarnar er grundvallaratriði að fóðrið sé borgað. Og það kom einmitt fram hjá einum ræðumanni áðan að skuldir bænda við fóðurstöðvanrnar væru hvorki meira eða minna en 92 millj. kr.
    Ég hefði einnig viljað fá það fram í þessari umræðu og alla vega að skoða það hjá þeim aðilum sem eru að vinna í þessum málum hvað það mundi kosta að
bændur sæktu þann rétt sem þeir eiga í hefðbundnum búskap ef þeir þurfa að hverfa frá loðdýraræktinni. Þeir hafa leigt sinn framleiðslurétt og þeir munu sækja hann aftur, og hvað mun það kosta?