Fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Miðvikudaginn 14. mars 1990


     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa hér langt mál um þetta ágæta frv. sem hér liggur til umræðu. Það er búið að ræða það nokkuð í þingsölum og ekki síður í þjóðfélaginu því þegar þetta frv. kom fram þá vakti það mikla athygli og hefur verið vel tekið alls staðar að þarna væri verið að brydda á nýjungum, þarna væri verið að brydda á breytingum sem væri nauðsynlegt miðað við það sem áður hefur verið hér í okkar þjóðfélagi. Og vegna ræðu hæstv. heilbr.- og trmrh. vil ég einmitt undirstrika þetta. Hér eru ný vinnubrögð sem hann þekkir að sjálfsögðu nokkuð þörfina á. Það er verið að reyna að koma einmitt í veg fyrir þá óvissu sem hefur verið í þessum málum með því að taka fastar á fjárlagagerðinni og nota ný og allt önnur vinnubrögð en hafa verið til þessa. Auka ábyrgð ráðuneytanna og láta þau sem sagt vinna öðruvísi heldur en hefur verið gert og þó að það hafi mikið verið lagfært á síðari árum er alveg ljóst að á þessu er brýn þörf.
    Ég vil benda hæstv. ráðherra á það í sambandi við einmitt 10. og 11. gr. að þar er verið að taka á þeim málum sem hann ber mestan kvíðboga fyrir og ég vil einnig benda honum á það í sambandi við óvænt útgjöld eins og hafa komið upp, að það er ekkert því til fyrirstöðu samkvæmt þessum breytingum að leggja fram ný fjáraukalög áður en þessu þingi lýkur, fyrir vorið, þegar um er að ræða sérstök neyðartilfelli eða mál sem verður að leysa sem hafa alveg fallið í gleymsku eða ekki verið komin fram áður en fjárlög voru samþykkt. Þannig að það þarf ekki að leggja málið þannig fyrir að þetta sé algjörlega út í vindinn.
    En af því að tíminn er orðinn svona stuttur nú verð ég sjálfsagt að fá leyfi til að vera á mælendaskrá áfram í þessu máli, því mig langar til að segja hér ýmislegt um það sem fram hefur komið.
    Hv. 1. þm. Norðurl. v., sem því miður er ekki hér í salnum, kom hér mjög borginmannlega upp í ræðustól og sagði að þetta frv. fjvn. allrar þýddi að það
ætti að búa til 10 fjmrh. þannig að þeir ættu að vera nokkurs konar yfirnefnd yfir öllum fjármálum og fjármálastjórn íslenska ríkisins.
    Ég verð að segja það núna áður en ég fer úr ræðustól eftir þennan stutta ræðutíma að mér finnst furðulegt að hv. þm. Páll Pétursson skuli auglýsa það að hann hafi ekki lesið frv. Ég verð að segja það alveg eins og er að hann er sá hv. þm. sem tekur mest þátt í norrænu samstarfi og telur sig þekkja stjórnskipulag á Norðurlöndunum manna best en í þessu frv. er farið yfir stöðuna á öllum Norðurlöndunum. Og hvað kemur í ljós? Það er einmitt það sem við erum að byggja þennan lagaramma á að það styðst við það sem er gert á hinum Norðurlöndunum öllum. Það sem hefur viðgengist hjá okkur er að koma með aukafjárlög eða fara fram úr gildandi fjárlögum upp á fleiri, fleiri milljarða á hverju einasta ári. Og þó að sumt af því sé nauðsynlegt þá þarf að finna þessu form. Það er

útilokað að starfa svona áfram. Og ég verð að segja alveg eins og er að mér kom á óvart þessi afstaða hans, ekki síst þar sem þetta frv. var lagt fram í desember og það var afhent öllum þingflokkunum en það hefur aldrei verið hægt í þingflokki okkar framsóknarmanna að taka þetta frv. til umræðu fyrr en núna síðustu dagana fyrir frumkvæði forsrh. Þó hefur það legið á borðum hv. 1. þm. Norðurl. v. sem þingflokksformanns og það hefur ekki verið hægt að fá rúm til þess að ræða það efnislega. Svo kemur hv. þm. hér upp og segir að við sem leggjum þetta fram séum að skapa hér ný embætti, nýtt ráðuneyti sem á að vera skipað 10 ráðherrum til þess að hafa yfirumsjón með öllum fjármálum ríkisins.
    Herra forseti. Ég ætla ekki að eyða meiri tíma en mundi þá áskilja mér rétt til þess að taka til máls þegar þetta mál verður næst á dagskrá til þess að ofbjóða ekki þeim tíma sem hér hefur í það farið. En ég vil aðeins segja það að forsenda þess að þetta var tekið upp og aðdragandi eru þær gífurlega miklu óvissuupphæðir sem hafa komið upp í meðferð fjárlaga, ekki síst núna á síðari árum, sem skipta ekki milljarði heldur mörgum, mörgum milljörðum króna, sem hafa verið hér til umræðu.
    Á síðasta ári var tekin upp sú nýbreytni hjá fjmrh. að leggja fram fjáraukalög fyrir sama árið og við afgreiðum það rétt fyrir jólin. En því miður verðum við núna að fjalla um ný fjáraukalög fyrir árið 1989, fyrir þá 10 daga sem eftir lifðu af árinu. Og það er líka milljarður og jafnvel meira. Mér finnst þetta benda til þarfarinnar á því að fara að taka þessi mál föstum, nýjum tökum. Og ég verð að segja það alveg eins og er að það vekur vissa undrun að einmitt þeir sem við þykjumst vera að gera þetta fyrir, þeir aðilar sem eiga að stjórna íslenska ríkinu og ekki síst fjármálum, að þeir skuli frekar tala gegn þessu heldur en aðrir almennir þingmenn.
    Ég verð að segja það líka að hæstv. fjmrh. óskaði eftir því þegar hann tók til starfa, og þessi ómögulega fjvn. sem situr að völdum að mati hv. 1. þm. Norðurl. v., að eiga sérstakt samstarf við nefndina, leiða inn ný vinnubrögð í samstarfi. Þetta gekk nokkuð eftir hans stefnu 1988 en datt niður á sl. ári þannig að fjvn. kom sama og ekkert að fjárlagafrv. fyrr en það var lagt fram hér á hv. Alþingi. Og ríkisfjármálanefndin sem hæstv. heilbr.- og trmrh.
nefndi áðan var að störfum 1988, að nokkru leyti miðað við það sem hún á að gera, en árið 1989 og síðan hefur hún ekki komið saman. Þannig að það er fjmrh. sjálfur sem hefur afskrifað hana þó hann leggi til í þessum punktum núna sem sérstakt atriði að hún ætti að taka til starfa.
    Herra forseti. Ég ætla ekki að þreyta þingheim meira en ég áskil mér rétt til að fá að tala til máls þegar málið kemur næst á dagskrá til að ljúka máli mínu.