Landgræðsla
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég hef verið að skoða till. til þál. um landgræðslu. Ég tel að ýmis atriði þurfi að ræða hér í þinginu til þess að menn átti sig á því hvernig þarf að standa að þessum málum og hvernig staðið er að þeim. Mér skilst að menn séu með þær hugmyndir uppi að taka upp tvenns konar áburðarverð í landinu, annars vegar það sem ætlað er til bænda og hins vegar það sem ætlað er til sandgræðslunnar.
    Nú er það svo að Áburðarverksmiðja ríkisins hefur einkarétt á allri áburðarsölu í landinu, þ.e. hún flytur inn þann áburð erlendan sem við notum og framleiðir og selur þann innlenda áburð sem hér er notaður. Ég fæ ekki séð að í reynd geti það verið réttlætanlegt að einokunaraðili eins og þessi sé í stöðu til að bjóða öðrum áburð á lægra verði nema í reynd sé verið að tala um það að menn greiði þann kostnað í gegnum búvöruverðið. Þetta vil ég að komi hér fram. Því eins og allir vita er áburðarverð einn af stóru þáttunum í ákvarðanatöku um búvöruverð og með þessu móti sýnist mér að það sé niðurstaðan að menn séu að hugsa um að greiða þetta þar í gegn. Ef menn aftur á móti legðu hér til að einokunarréttur Áburðarverksmiðju ríkisins væri afnuminn þá hefði ég að sjálfsögðu ekkert við það að athuga hvaða tilboð hún gerði öðrum aðilum.
    Einnig held ég að það sé rétt að ég geri hér grein fyrir því sem mér sýnist veikleikinn í þeim hugmyndum sem menn hafa haft uppi um að girða af land, sá í
það grasfræi og dreifa á það áburði og hafa slíkt land eftirlitslaust upp á öræfum. Það er alkunna að víða hefur það gerst þar sem bændur hafa ræktað nýrækt að nýræktin hefur öll verið eyðilögð af gæsum. Þær hafa komið í stórum flotum og lagt undir sig umrætt svæði og breytt því í flag. Þó hefur vafalaust af hendi þeirra sem nýræktina áttu oft og tíðum verið reynt að gera ýmsar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að þetta geti átt sér stað.
    Gæsaflotinn á Íslandi hefur stöðugt verið að stækka á undanförnum árum og álftaflotinn einnig. Þessi vöxtur er svo ör að ég ætla að þó að við tækjum okkur til og færum að dreifa miklu af áburði á ýmis öræfasvæði án þess að hugleiða hvernig við ætlum að hafa hemil á aukningu þessa flota, þá er mikil spurning hvort verkið yrði ekki allt unnið fyrir gýg. Þetta segi ég vegna þess að eins og allir vita þá verpir heiðagæsin í Þjórsárverum en aðeins brot af ungunum kemst upp því fæðu skortir á svæðinu. Þeir drepast einfaldlega vegna þess að þeir ná ekki að vaxa í þá stærð að geta flogið annað til fæðuöflunar áður en þeir eru orðnir hungurmorða. Ég set þetta hérna fram því ég tel að það sé tímabært að á þessu máli verði tekið. Það er hægt út af fyrir sig að handsama mjög stóra gæsahópa með þeirri þekktu aðferð að ginna þær til að koma á ákveðið gróðurlendi og skjóta svo yfir hópana neti. Ekki er viðurkennt að gera þetta til að fækka fugli en viðurkennd aðferð aftur á móti til þess að merkja fugl þegar menn eru að kanna

lifnaðarhætti hans.
    Nú vill svo til að um 80% af gæsunum sem hér eru hafa vetursetu á Bretlandseyjum. Þær eru þar vinsælar sem veiðibráð fyrir sportveiðimenn. Mönnum finnst það kannski skrýtið en að mínu viti væri ekki óeðlilegt að Íslendingar leituðu samkomulags við Breta um að þeir tækju þátt í sumareldi þessara fugla eða að hreinlega verði rætt við Breta um fækkun fuglanna, sem er eina raunhæfa leiðin til að tryggja að svo stórfelldar hugmyndir um uppgræðslu og áburðardreifingu gætu skilað þeim árangri sem ég hygg að allir Íslendingar vilji, því enginn vill horfa á örfoka land. Ég held það væri rétt að kanna þessa möguleika.
    Með þessu er ég ekki að leggjast gegn þáltill. Ég er raunverulega ekki andvígur efni hennar, nema hvað þetta eina atriði snertir að mér finnst dálítið undarlegt að einokunaraðili í verslun geti boðið tvenns konar verð. Ég held aftur á móti að það sé tímabært, mjög tímabært, að menn átt sig á því að ef þeir færu nú og dreifðu ógrynni af grasfræi og áburði um öræfin, næðu árangri í að ná þar upp gróðri, fjarlægðu allar kindur með ærnum tilkostnaði með girðingum eða með því að tryggja að bændur hefðu þær í heimahögum, þá eiga menn eftir sem áður eftir að leysa það mál hvernig þeir ætla að koma í veg fyrir að hinn stóri floti, sem í dag étur upp á öllum votlendissvæðum á hálendinu þann gróður sem þar er, taki sig til og hreinsaði þessa uppgræðslu einnig.
    Þetta taldi ég rétt að kæmi fram vegna þess að reynslan er sú á láglendi að auðvitað er þetta græna og ferska gras miklu girnilegra fyrir gæsir og álftir en sinuborið gras sem ekki hefur fengið neinn áburð. Og hætt er við að ef menn færu nú á fulla ferð en slepptu því að hugleiða þetta vandamál yrði árangurinn harla lítill.