Sala fisks í gegnum íslenska fiskmarkaði
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka þær þó litlu undirtektir sem hér hafa orðið við þau mál sem ég hef hér mælt fyrir. Ég reikna ekki með að verða við síðari umræðu, en ég vænti þess að bæði í hv. atvmn. og einnig við þá umræðu fái báðar þessar tillögur þá umræðu og umfjöllun sem efni þeirra á skilið.
    Ég hafði, rétt eins og hv. þm. Málmfríður Sigurðardóttir, átt von á því að þingmenn hér á hæstv. Alþingi hefðu á því meiri áhuga þegar fram kæmu hugmyndir í þá veru sem hér hefur verið mælt fyrir og ég verð að segja að það kemur mér óþægilega á óvart að áhugi fyrir þeim málum sem þar voru reifuð skuli ekki vera meiri hér á hæstv. Alþingi. Það segir e.t.v. sína sögu og kann að vera hluti af skýringu á því hvernig komið er fyrir okkur.
    Ég vil hins vegar láta þess getið, virðulegi forseti, að þó svo að undirtektir hér í þingsölum hafi verið takmarkaðar eða áhugi það lítill að viðvera hv. þm. er með minnsta móti hafa undirtektir annars staðar verið býsna miklar og flm. hefur fengið mjög sterk og jákvæð viðbrögð frá sjómönnum varðandi þá þáltill. sem hér var mælt fyrir um undirmálsfisk.