Friðun hrygningarsvæða
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Mig langar aðeins að segja örfá orð og lýsa yfir stuðningi mínum við þessa tillögu. Hún leiðir auðvitað hugann að því að við hljótum í ríkari mæli en gert hefur verið að fara að rækta fisk og fiskstofna, ekki síst sjávarfiska. Þó að það sé merkilegt starf sem hefur verið unnið í sambandi við ræktun vatnafiska er auðvitað framtíðin sú að rækta fyrst og fremst sjávarfiskana. Það er svo sem ekkert nýtt að menn hafi vakið athygli á því að það er hægt að hjálpa náttúrunni til sjávarins ekkert síður en á landi og auðvitað verður sjórinn ræktaður alveg eins og þurrlendið hefur verið ræktað. Það sem liggur fyrir raunar er að það þarf mun minna fóður til þess að rækta eitt kg af fiski en t.d. kíló af kjúklingi eða nautum o.s.frv. Vatnafiskar eru ódýrari þegar rétt er að staðið.
    Það er langt um liðið síðan Bjarni Sæmundsson vakti athygli sjómanna á því og barðist fyrir því að menn reyndu um hrygningartímann að hræra saman hrognum og svilum, láta svil komast í snertingu við t.d. þorskahrognin áður en allt hraut svo fyrir borð. Þetta var gjarnan að mér skilst gert í fötum eða bölum eða þá bara hreinlega á þilfarinu og vissi hann vafalaust hvað hann söng. Hugmyndir hafa raunar verið uppi um það líka að t.d. eitt eða fleiri skip sem færu í úreldingu væru tekin og beinlínis notuð til þess að fara með hrogn og svil á hrygningartímanum víða um land, sleppa á mörgum stöðum því að straumar geta að mér skilst stundum borið hrogn svo afvega að þau farist meira og minna. Þetta er nánast ekkert rannsakað hér á Íslandi og er ekki vansalaust. Í Noregi t.d. hafa menn með góðum árangri ræktað þorsk og eru að byrja á því í Saxlandi, sem nýlegar fréttir eru af, endurreisa þorskstofninn þar með því hreinlega að rækta hann og sleppa sem smáseiðum.
    Mér er sagt að þorskur sé ekkert síður ratvís en t.d. lax, urriði eða bleikja, hann leiti gjarnan aftur á svipaðar slóðir og hann er uppruninn
á. Ekki sel ég það dýrara en ég keypti en það hefur verið reynsla Norðmanna að þegar fiskurinn fer að eldast leitar hann gjarnan, a.m.k. á einhverjum tíma ársins, á upprunalegu slóðirnar. Og því skyldi þessi vera ekki vera jafnfætis svo mörgum öðrum hvort sem það er lax eða þorskur. Það er a.m.k. sagt að svo sé. Þetta er óplægður akur og þess vegna mjög tímabært að flytja þessa tillögu sem hér er flutt. Og það leiðir hugann til þess hve mikið starf er hér óunnið á þessu sviði. Framtíðin er að sjálfsögðu að rækta sjávarfiska, ekki síst þá aldýrustu eins og t.d. lúðuna sem selst á mun hærra verði, stórlúða selst á mun hærra verði á heimsmarkaði. Í fínum búðum á Manhattan t.d. selst úrvalslax á háu verði en jafnvel þegar laxinn var í hæsta verðinu, sem hann er nú vonandi að komast í aftur, var samt stórlúðan enn þá dýrari.
    Annar fiskur sem mundi henta mjög vel til að rækta hér á landi, ekki endilega til að sleppa honum heldur rækta hann í sláturstærð, er sandhverfa sem einnig er mjög dýr fiskur, álíka verð á henni eða

hærra en stórlúðunni og mjög lítið magn er á markaði. Þetta eru verkefni sem á að vinna að sem allra bráðast og þess vegna tek ég undir orð frsm. um nauðsyn þess líka að friða þau svæði þar sem við vitum að ýmis smáfiskaseiði eru í uppeldi en jafnframt stuðla að því að dreifa þeim sem allra víðast, vegna þess að það er náttúrlega aragrúi, eins og allir vita, af hrognum í hverri einustu þorskahrygnu, þau eru margfalt fleiri en t.d. í vatnafiskunum. Það má gjarnan fara inn á aðra hverja vík og sleppa þar því að við vitum að þaraþyrskling er nú víða að finna, fiskeldisstöðvarnar eru ekki bara á einum stað við Ísland. Þær eru um landið allt.