Könnun á endurnýtanlegum pappír
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Anna Ólafsdóttir Björnsson:
    Virðulegi forseti. Þáltill. sú sem hér er til umræðu hreyfir einu mikilvægasta umhverfismáli sem við stöndum frammi fyrir nú í seinni tíð: sóun á mikilvægum hráefnum jarðarinnar, sameiginlegum auðlindum okkar allra. Það er ekki að ástæðulausu að menn líta til þeirrar gegndarlausu pappírssóunar sem viðgengst um heim allan. Merki þess að mönnum sé farið að blöskra er alls staðar að finna og sjá og heyra. Börnin spyrja áleitinna spurninga eins og hvort ekki sé hægt að setja allan þennan pappír sem til fellur jafnvel á einu litlu heimili í sér poka og nýta aftur.
    Á ýmsum stofnunum eru menn farnir að vakna til vitundar um að ekki tjóir að bíða eftir að skipulagt átak verði gegn þessari sóun. Þannig eru ýmis félög og stofnanir til að mynda farin að nota endurunninn pappír, innfluttan. Svo lítið dæmi sé tekið þá er t.d. starfandi innan Vegagerðarinnar svokölluð ,,Amason-nefnd``, óformleg að vísu, og henni er falið að skipuleggja að dregið sé úr pappírssóun innan stofnunarinnar.
    Það þarf í rauninni tvennt til til að breyta aðstæðum. Annars vegar að gæta þess að endurunninn pappír sé notaður alls staðar þar sem hægt er. Á sl. vetri bar hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir fram fsp. um notkun endurunnins pappírs hjá opinberum stofnunum. Í svari forsrh. þá kom fram að hvergi nærri nóg er að gert og mjög auðvelt ætti að vera að ganga mun lengra í að nýta endurunninn pappír. Er þá einkum talað um rissblöð og ýmislegt af þeim mikla pappír sem notaður er og ekki ætlaður til geymslu. Einhverjar umræður hafa verið um ágæti endurunnins pappírs en ljóst er að langstærsti hluti þess pappírs sem fer um hendur fólks í opinberum stofnunum þyrfti ekki að vera úr varanlegra efni en endurunninn pappír er. Og gæði þess pappírs eru ljómandi í allt venjulegt brúk. Hins vegar þarf að hafa möguleika til að skila pappírnum til endurvinnslu og að því lýtur þessi tillaga hv. flm.
    Það er fengur í því að kanna magn endurnýtanlegs pappírs og hvernig hægt er að safna og endurnýta. Er það góður áfangi á þeirri leið sem kvennalistaþingkonur lögðu til að farin væri fyrir tveimur árum. Því ber að fagna þessari till. og ég vonast til þess að hún fái jákvæða umfjöllun hér í þinginu.