Meðferð mála á Alþingi
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég hef nú hlustað á framsöguræðu flm. þessarar tillögu, hv. 16. þm. Reykv., um þinglega meðferð allra mála á Alþingi og það er auðvitað rétt sem kemur fram í hans máli að hér er vandamál sem áreiðanlega flestir ef ekki allir þingmenn hafa oft rætt og velt fyrir sér hvers vegna mál eru ekki afgreidd eða fá ekki, eins og hann orðar það, þinglega meðferð á hverju þingi fyrir sig. Greinargerð hans með tillögunni hefst á nokkrum spurningum og þær spurningar sem hann leggur þar fram finnst mér kannski vera meginatriði þessa máls, þ.e. hvers vegna er alþm. gefinn kostur á að leggja fram þingmál sem sæta aldrei lokaafgreiðslu á Alþingi? Þarna er spurningin um hvort eigi að takmarka fjölda mála sem þingmenn megi flytja. Mér kemur í hug hvort hv. 16. þm. Reykv. hefði verið það kært eins og hann er duglegur við að leggja fram mál ef það hefði kannski verið takmarkað við að hver þingmaður mætti ekki flytja þingsályktunartillögur nema kannski tvær eða jafnvel eina á hverju þingi til þess að hægt væri að tryggja að þær fengju þinglega meðferð. Nú vitum við að t.d. mál eins og þingsályktunartillögur fá meðferð í nefndum. Þær eru sendar til umsagnar, þær eru ræddar af þm. sem sæti eiga í viðkomandi nefndum og jafnvel aðilar kallaðir á fund nefndanna til þess að fjalla um þær. Stundum er það svo hvort sem um er að ræða frumvörp eða tillögur til þingsályktunar að flutningsmenn viðkomandi máls vilja heldur að málið fari ekki út úr nefnd en að þeir eigi jafnvel á hættu að það verði fellt ef þeir finna að málið hefur ekki meirihlutastuðning í þinginu. Það er svo margt sem kemur þarna til greina að ég held að afar erfitt sé að ákvarða það að hvert einasta mál skuli fá þinglega meðferð. En ef svo ætti að vera, eins og hv. 16. þm. Reykv. leggur til, sýnist mér að það gerist ekki öðruvísi en að farið yrði að takmarka hversu mörg mál hver þingmaður mætti flytja á hverju þingi. Og þá kemur til sögunnar afstaða til þess hvort t.d. varamenn sem taka sæti á Alþingi eigi að fá
leyfi til þess að flytja mál. Við höfum t.d. séð dæmi um það í dag að varaþm., hv. 4. þm. Norðurl. e., fékk tækifæri til þess að flytja þrjár tillögur til þingsályktunar um mál sem hún hefur áhuga á að vekja athygli á, geri ég ráð fyrir, hvort sem þau verða nú afgreidd í gegnum þingið eða ekki. Ég geri ráð fyrir að hún telji sig hafa náð nokkrum árangri því að málin vekja athygli, jafnvel utan þings og úti í þjóðfélaginu. Það kom t.d. fram í máli hennar þegar hún mælti fyrir einni tillögunni að hún hefði fengið meiri viðbrögð utan þings en hún fékk hér í þingsölum þar sem fáir þingmenn hafa setið hér í dag. Ég vildi aðeins velta upp þessum hugsunum sem komu í huga minn meðan ég var að hlusta á framsöguræðu hv. 16. þm. Reykv. Ég held nefnilega að málið sé ekki svona einfalt. Það yrði að taka svo margt annað inn í myndina og þar með þá að hefta frelsi þingmanna til þess að flytja þau mál sem þeir hafa áhuga á hverju sinni.

    Við vitum ósköp vel að það er jafnvel metnaður sumra þingmanna að geta sýnt fram á að þeir hafi flutt sem allra flest mál, helst tekið sem oftast til máls. Og við vitum að oft er það svo að fjömiðlarnir leggja mat á dugnað þingmanna eftir því hvað þeir taka oft til máls eða hvað þeir flytja mörg mál þó að við vitum það sjálf, þingmenn, að það er enginn mælikvarði á störf þingmanna hversu oft þeir standa í ræðustóli, hversu lengi eða hversu mörg mál þeir flytja.
    Þetta vildi ég aðeins koma inn á, hæstv. forseti, því að ég held að við getum öll verið sammála um að þetta mál, sem hér er hreyft við, er vissulega visst vandamál hér en sú afstaða hefur verið tekin að frelsi manna til þess að flytja mál sé ekki heft, jafnvel ekki varamanna. Það hefur komið fyrir að varaþingmenn hafa komið hér inn og flutt --- ég man ekki hversu mörg, það er næstum því, held ég, að það hafi skipt tug þó þeir sitji hér á þingi í tvær vikur. Og það er ekki hægt að gera ráð fyrir því að hægt sé að afgreiða öll slík mál á einu þingi. En þingmenn hafa alltaf möguleika á að endurflytja málin ef þau hafa ekki verið afgreidd á þinginu.
    Þetta vildi ég aðeins nefna í sambandi við flutning þessarar tillögu.