Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Ég hygg að 1. þm. Suðurl. hafi orðið á smá mismæli undir lok ræðu sinnar þegar hann talaði um mistök stjórnarliða en mun hafa átt við mistök stjórnarandstæðinga þegar þeim varð það á, á viðkvæmri stundu áður en gengið var til hins sameiginlega utanríkisráðherrafundar EFTA og EB, að flytja vantraust á stefnu ríkisstjórnarinnar í þessu máli, einmitt undir formerkjum þeirrar kröfu að taka upp tvíhliða samningaviðræður strax. Þetta gat spillt málstað okkar Íslendinga á þeim tíma og var misráðið og er almennt skilið bæði meðal stjórnarliða og þjóðarinnar í heild að þetta hafi að vísu verið mistök. Margt bendir til þess, svo sem heyra má á málflutningi hv. 1. þm. Suðurl., að hann vilji gjarnan bæta fyrir þau mistök og koma í veg fyrir að umræður hér á hinu háa Alþingi ýki þann ágreining. Það er gagnkvæmt því ég dreg enga dul á að mér er það mikið kapps- og áhugamál að við búum okkur ekki til ágreiningsefni að óþörfu í innbyrðis deilum hérna heldur reynum að ná saman um það sem sameinar okkur sem er auðvitað að gæta hagsmuna Íslands eftir því sem best við getum.
    Leiðir kunna að vera álitamál en ég held að þessar umræður hafi leitt í ljós að það sem sameinar okkur í þessu máli er miklu stærra og meira en slíkur hugsanlegur ágreiningur. Þegar ég lagði hlustir við málflutning þeirra talsmanna Sjálfstfl. sem hér hafa talað, þ.e. hv. 8. þm. Reykv., 1. flm. tillögunnar, og formanns flokksins, 1. þm. Suðurl., vakti hann upp nokkrar spurningar um það hver hugur búi að baki eða hvort hér sé í raun og veru einhver viðleitni til þess að búa flokki þeirra til einhverja sérstöðu í málinu. Nú er ég ekki með neina hótfyndni eða tilætlunarsemi heldur spyr ég.
    Hér er lagt til að við tökum upp sem fyrst formlegar tvíhliða samningaviðræður við framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins um tollaívilnanir. 1. flm. tillögunnar er reyndar kunnur að því að hafa þá skoðun að við Evrópubandalagið eigum við ekkert að ræða um fiskmálefni, bara alls ekki neitt. (Gripið fram í.) Alls ekki, þetta er laukrétt. 1. flm. tillögunnar er þeirrar skoðunar að það sé hin mesta goðgá að sjútvrh. sé yfirleitt nokkuð að þvælast til Brussel og ræða sérmál Íslands og fiskveiðimálefni við Evrópubandalagið, það sé stórhættulegt. ( Gripið fram í: Þetta er útúrsnúningur.) Þetta er ekki útúrsnúningur, alls ekki nei, það er ekki svo, hv. þm.
    Annars vegar er sett fram ósk um að taka þegar í stað upp tvíhliða formlegar samningaviðræður, hins vegar eru látnar uppi strangar efasemdir um að sjútvrh. eigi að sinna tvíhliða viðræðum um sérmál Íslands sem eru fiskur. Annars vegar kemur formaður flokksins, hv. 1. þm. Suðurl., og rifjar upp réttilega að EFTA-ríkin hafa sett fram kröfuna um fríverslun með fisk og framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins svarar með því að vísa í hina sameiginlegu fiskveiðistefnu Evrópubandalagsins, nefnilega að hún hafi ekki umboð til þess að veita tollívilnanir með fiskafurðir nema

gegn veiðiheimildum. En 1. flm. tillögunnar er einmitt sá maður, ég hygg sá eini í veröldinni núna, sem segir að þessi stefna sé bara alls ekki til og fyrir henni sé ekki flugufótur. Það setur að mér nokkra bakþanka um það hvernig hefði verið haldið á þessum málum hefði það verið gert af þessum
forustumönnum Sjálfstfl. og hver samstaða sé um það þeirra á milli hvernig halda skuli á málinu. Annars vegar er krafan um tvíhliða samningaviðræður strax, en jafnframt látnar í ljósi efasemdir og því mótmælt að verið sé að ræða tvíhliða við Evrópubandalagið. Hins vegar er bent á það að ríkisstjórnin hafi þegar vakið upp kröfu hinnar sameiginlegu fiskveiðistefnu um veiðiheimildir en samt segir flm. að slík stefna sé alls ekki til.
    Ég hlustaði með athygli á hv. 1. þm. Suðurl. þegar hann sagði: Rök ríkisstjórnarinnar fyrir því að ekki sé skynsamlegt núna á þessum tímapunkti að taka upp tvíhliða formlegar samningaviðræður hafa verið þessi: Við værum að draga úr stuðningi og atfylgi hinna EFTA-ríkjanna eftir sameiginlegri samningaleið með því að þau geta einfaldlega sagt: Þar sem þið hafið tekið þetta mál upp tvíhliða, tekið það af samningaborðinu með hinum EFTA-ríkjunum, þurfum við ekki að leggja neina áherslu á þann stuðning. Og hann segir: Við munum samt sem áður verða að bera þessa kröfu upp vegna þess að þungi þessa máls hvílir á okkur. Það er út af fyrir sig rétt. En það er munur á samningsstöðu þegar við erum búnir að fá það fram að hin EFTA-ríkin taka þetta mál upp sem sameiginlega kröfu og þegar það er vitað að EFTA-ríkin tala einni röddu og þegar það er vitað að aðalsamningamðaur EFTA við samningaborðið setur þessa kröfu fram sameiginlega fyrir EFTA-ríkin öll, heldur en ef við þyrftum einfaldlega að gera það hér á okkar vettvangi í tvíhliða viðræðum, sérstaklega þegar bakland okkar er þannig að um leið og þær viðræður væru hafnar mundu rísa upp öflugir talsmenn í Sjálfstfl. og segja: Þetta eru nú bara landráð. ( GHG: Hverjir gera það?) Þeir sem segja að það megi undir engum kringumstæðum ræða við Evrópubandalagið um að fá tollaívilnanir gegn veiðiheimildum, hvort heldur þær eru gagnkvæmar, hvort heldur þær snúast um flökkustofna, hvort
heldur þær snúast um vannýtta stofna, eða yfirleitt.
    Þess vegna er það alveg yfirveguð skoðun mín að við höfum farið rétta leið í þessu efni, að það hafi skipt verulegu máli að fá stuðningsyfirlýsingu hinna EFTA-ríkjanna við þessa kröfu, að samningsstaða okkar sé sterkari eftir en áður. Og þegar ég segi: Við höfum aldrei útilokað hvort, heldur hvenær kannski, hvort eða hvenær kunni að reka að því að við förum að taka upp tvíhliða viðræður, þá segi ég ósköp einfaldlega: Það ræðst af því hvaða árangri við náum við samningaborðið í samningunum með hinum EFTA-löndunum um þetta prinsipmál.
    Menn mega ekki mikla það fyrir sér þótt hægt sé að vitna til þess, og það er alveg rétt, að til eru þeir menn innan Evrópubandalagsins sem hafa sýnt málefnum okkar Íslendinga meiri skilning en annarra.

Hv. 1. þm. Suðurl. vitnaði réttilega í ummæli Hennings Christophersen, eins af varaforsetum Evrópubandalagsins, sem hefur lýst slíkum skilningi einmitt vegna þess að starfsbróðir hans hér, þ.e. viðsk.- og iðnrh., hefur boðið honum hingað til lands, átt við hann mjög rækilegar og ítarlegar viðræður, kynnt honum alveg sérstaklega, og við höfum einnig tekið þátt í því, sérmál Íslands og fengið þar með fram aukinn skilning hans á málinu. Á sama hátt hefur sjútvrh. í tvíhliða viðræðum við kollega sína, sjávarútvegsráðherra Evrópubandalagsins, von Gelden hinn þýska og sjávarútvegsráðherra Dana, Hollendinga, Belga og Breta, fengið það fram hjá þeim að þeir a.m.k. vilja taka það til velviljaðrar skoðunar. Von Gelden gekk reyndar skrefi lengra, hann beindi því til starfsbræðra sinna að tímabært væri orðið fyrir þá að taka til skoðunar hvort þeir gætu beitt sér fyrir því að sérstaða Íslands væri viðurkennd, jafnvel þótt þeir treystu sér ekki til að fá hnekkt hinni sameiginlegu fiskveiðistefnu almennt fyrir bandalagið, heldur einungis að lýsa yfir stuðningi við það sjónarmið að hún eigi ekki við í tilvikinu Ísland.
    Þetta sannar náttúrlega að við höfum verið í tvíhliða viðræðum, enda rengir það væntanlega enginn. Þetta sannar að þær hafa skilað árangri, enda rengir það væntanlega enginn. Stefna ríkisstjórnarinnar er þessi, að halda áfram þessum viðræðum, undirbúnings- og samningaviðræðum með EFTA-löndunum en jafnframt að halda áfram þessum tvíhliða viðræðum. Og til hvers þá? Til þess auðvitað að meta það í viðfangi þessara tveggja samningsferla hvort og þá hvenær knýjandi rök væru fyrir því að taka upp tvíhliða formlegar samningaviðræður.
    Ég held að þessar umræður hafi út af fyrir sig verið ágætar og gagnlegar og ég held að þær leiði í ljós að ekki er sá ágreiningur uppi sem menn hefðu tilefni til að ætla, t.d. þegar ríkisstjórnin var borin vantrausti á afar óheppilegum tíma vegna þeirrar stefnu sem ég er hér að lýsa. Við skulum vona að við getum báðir sagt að að loknum þeim hörðu deilum sé málið að færast út á borð. Gleggri og víðtækari skilningur sé að verða á því að það er ekki svart og hvítt, þetta er ekki annaðhvort eða. Við eigum að fara báðar leiðirnar, en við eigum fyrst að láta reyna á hina sameiginlegu EFTA-samningaleið. Hitt er eitthvað sem við höfum uppi í erminni ef á þarf að halda.