Bifreiðagjald
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nál. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. sem er að finna á þskj. 769. En það hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Frv. til laga um breytingu á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, liggur nú loks fyrir í endanlegri mynd, þ.e. með brtt. þeim sem meiri hl. nefndarinnar leggur fram. Er þá lokið langri og krókóttri leið bifreiðagjalds í þetta sinn. Annar minni hl. er í sjálfu sér ekki andvígur þeirri tekjuöflun að leggja gjald á bifreiðar en hefur þó margt við framkvæmd þessarar skattlagningar að athuga og ekki síst það hvernig þessum skattpeningum skal varið.
    Kvennalistakonur hefðu kosið að bifreiðagjald ákvarðaðist ekki einungis af þyngd bifreiða heldur einnig verðmæti. Með því móti væru tekjujöfnunaráhrif meiri en með því fyrirkomulagi sem nú er boðað. Einnig telja kvennalistakonur hæpið að leggja bifreiðagjald með fullum þunga á bifreiðar sem eru atvinnutæki þar sem skattlagning er ærin fyrir.
    Samkvæmt nýjum upplýsingum frá fjmrn. eru áætlaðar heildartekjur af bifreiðasköttum 5.395 millj. kr. árið 1990 (sjá fskj.). Á fjárlögum fyrir árið 1990 eru framlög til vegamála 4.575 millj. kr. Í fjáraukalögum fyrir árið 1990 var sú upphæð lækkuð um 79 millj. kr. Framlög til vegamála eru nú 4.496 millj. kr.
    Dæmið lítur þá svona út: Áætlaðar heildartekjur af bifreiðasköttum 5.395 millj. kr. Framlög til vegamála árið 1990 4.496 millj. kr. Mismunur 899 millj. kr.
    Þegar áætlaðar tekjur af bifreiðagjaldi eru um 100 millj. kr. hærri en þessi mismunur þykir 2. minni hl. fráleitt að styðja þetta frv. um bifreiðagjald
þar sem ekkert af innheimtunni mun renna til vegamála heldur fara beint í ríkissjóð. Kvennalistakonur munu því greiða atkvæði gegn frv.``
    Þessi langa og krókótta leið frv. sem minnst er á í nál. var nokkuð rakin hér í máli hv. 1. þm. Reykv. Í fyrstu útgáfu var það tengt við mengun, þ.e. tengingin í frv. var í sjálfu sér engin. Hún var einungis í munni hæstv. fjmrh. því bifreiðagjaldið átti ekki að vera breytilegt eftir því hvers konar orkugjafi var notaður á bifreiðar eða með tilliti til þeirrar mengunar sem af hlytist. T.d. skipti engu máli hvort bifreiðar notuðu blýlaust bensín eða ekki þannig að tengsl þessarar skattlagningar við mengun frá bifreiðum voru í raun engin. Nú hefði verið fróðlegt að sjá hvernig frv. hefði litið út sem raunverulega hefði tekið tillit til mengunar. Það er alls ekki óhugsandi leið að hvetja til betri hreinsiútbúnaðar og orkunotkunar einmitt með skattlagningu svo það sé hvetjandi fyrir bifreiðaeigendur að standa þannig að að mengun frá bifreiðum verði sem minnst. Enda heyktist hæstv. fjmrh. á því að halda því til streitu að þetta væri mengunarskattur og lagði nú fram annað frv. Þar var gert ráð fyrir flötum skatti allt upp að 2500 kg eigin þyngd bifreiðar. Síðan komu nokkur millifrumvörp um dagsetningar og loks var svo frv.

lagt fram með þeim brtt. sem meiri hl. fjh.- og viðskn. leggur til. Þar hefur gjald á bifreiðar upp að 1000 kg verið lækkað en síðan kemur til meiri álagning á hvert kg eftir það. Í þessu eru vissulega tekjujöfnunaráhrif því að reikna má með að efnaminna fólk aki frekar á litlum bílum og léttari. Þó ber að hafa í huga að þungir bílar eldast líka ekki síður en léttir og verða verðminni með árunum þannig, eins og ég nefndi áðan, að við kvennalistakonur hefðum kosið að verðmæti bíla væri líka viðmiðun í álagningu bifreiðagjalds.
    Í þeim upplýsingum sem bárust fjh.- og viðskn. voru m.a. þungar kvartanir frá atvinnubílstjórum, aðallega vöruflutningabílstjórum, þar sem þeir tíunduðu nokkuð þær álögur sem þeir mega nú greiða af atvinnustarfsemi sinni. Held ég að flestum þyki nóg um sem renna augum yfir þau plögg og þær upplýsingar. Er í rauninni vandséð hvernig þeir eiga að rísa undir þessum álögum án þess að hækka þjónustugjöld sín en það er eitt af skilyrðum fyrir núllsamningunum að þjónusta öll hækki sem allra minnst. Og ef ekki má hækka þjónustu þá hlýtur auðvitað að þurfa að taka úr eigin vasa þau gjöld sem nú eru lögð á bílstjóra. Því hefði það verið í réttlætisátt að undanþiggja bifreiðar, sem eru atvinnutæki, þessu bifreiðagjaldi.
    Í þeim tillögum sem nú liggja fyrir eru álögur lækkaðar frá því sem fyrir lá í fyrri tillögum. Og eins og oft áður er látið í veðri vaka að lækkun á fyrirhuguðum hækkunum sé í raun lækkun. Það er auðvitað ekki svo, þetta er hækkun frá því sem fyrir var þó að hún sé ekki eins mikil og áætlað var. Þessi rök voru líka notuð í virðisaukaskatti. Hér var talað fullum fetum um að verið væri að lækka virðisaukaskatt. Það var einungis vegna þess að uppi voru áform um að hækka skattstigið og síðan var talað um það sem lækkun að horfið var frá hækkun. Þetta eru mjög algeng rök í munni hæstv. fjmrh. og hafa mikið verið notuð nú í sambandi við bifreiðaskatta.
    Það er ljóst að ástæða fyrir þessari lækkun á fyrirhuguðum hækkunum er fyrst og fremst tilkomin vegna þrýstings frá aðilum vinnumarkaðarins sem sýndu fram á það að ef þessar hækkanir næðu fram að ganga mundu forsendur kjarasamninga vera brostnar þar sem framfærsluvísitala mundi þá hækka of mikið. Hækkunin á
bifreiðagjaldi var áætluð um 80% en lækkaði niður í 40--50%, mönnum ber nú ekki alveg saman um þær tillögur sem hér liggja frammi.
    Það er athyglisvert í þessum málum eins og fleirum hvernig ýmsir sem aðild eiga nú að ríkisstjórn hafa snúist eins og þeytispjald í vindi í skoðunum. Mig langar í því sambandi að rifja upp nefndarálit frá því í maí 1988 sem var samhljóða í Ed. og Nd. Það var nefndarálit um frv. til laga um bifreiðagjald frá þáv. minni hl. fjh.- og viðskn. Í Ed. var það núv. hæstv. menntmrh. sem undirritaði þetta nál. og það sem er öllu athyglisverðara er að í Nd. var það núv. hæstv. landb.- og samgrh. sem undirritaði umrætt nál.

Langar mig til að lesa nokkrar línur úr því, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Minni hl. er andvígur þessu gjaldi á bifreiðar, ekki vegna þess að fráleitt þurfi að vera að leggja gjald á bifreiðar heldur vegna þess að ekkert á að fara til vegaframkvæmda af þeirri skattheimtu sem hér um ræðir.``
    Þessar línur ættu að nægja til að sýna fram á það að hæstv. samgrh. hefur heldur en ekki skipt um skoðun í þessu máli. E.t.v. hefur hann ekki lesið þetta nál. nýlega en gaman hefði verið að geta hresst upp á minni hans ef hann hefði verið hér viðstaddur þegar verið er að ræða þessa skatta sem tengjast svo mjög framlögum til vegamála í landinu.
    Ég mun ekki hafa þessi orð fleiri í bili en vil ítreka aftur að við kvennalistakonur munum greiða atkvæði gegn þessu frv. vegna þess hvernig að því er staðið og hvert innheimtuféð á að renna.