Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla
Miðvikudaginn 21. mars 1990


     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frv. enda hef ég komið nálægt því á fyrri stigum. Eins og fram kom í máli hæstv. félmrh. og kemur fram í athugasemdum við lagafrv. tók ég sæti í nefndinni sem vann að endurskoðun laganna í nóvember árið 1988 eftir að nefnd hafði starfað frá því í maí sama ár. Það sem hér kemur fram er því að mestu leyti afurð þeirrar nefndar. Örlitlar breytingar hafa orðið frá því að ég skildi við frv. en ég tel þær óverulegar. Ég vona eins og hæstv. ráðherra að frv. geti orðið að lögum á þessu þingi.
    Ég vildi aðeins gera að umtalsefni nokkur atriði. Í 4. gr. frv. er talað um að konum og körlum skuli greidd jöfn laun og þau skuli njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Þetta er að sjálfsögðu mjög mikilvægt atriði, en það sem vekur athygli er að það er búið að vera lengi í lögum að konur og karlar skuli njóta sömu launa fyrir sambærileg störf en þó hefur lítið gerst. Ég vil benda á að í athugasemd við þessa grein á bls. 7 er sagt orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Nauðsynlegt er að í reglugerð verði skýrt nánar hvað felist í orðunum ,,jafnverðmæt og sambærileg störf``. Einn mikilvægasti þátturinn í slíkri skilgreiningu þarf að vera að uppeldis-, umönnunar- og önnur hefðbundin kvennastörf verði metin til jafns við hefðbundin karlastörf.`` Þetta tel ég vera mjög mikilvægt atriði vegna þess að það er einmitt þar sem pottur er brotinn. Það hefur ekki borið neitt verulega á því að konur og karlar fái mjög mismunandi laun fyrir nákvæmlega sömu vinnuna, en mesti munurinn sem fram kemur er að hefðbundin kvennastörf hafi verið metin til lægri launa en hefðbundin karlastörf. Þess vegna er mjög mikilvægt hvernig framkvæmdin verður og hvernig hægt er að breyta þessum áherslum sem verið hafa hingað til. Sérstaklega á ríkið að ganga á undan með góðu fordæmi að því er þetta
varðar og munu þá aðilar vinnumarkaðarins væntanlega fara eftir þeim áherslubreytingum sem ríkið getur gert á grundvelli þessara laga. En auðvitað eigum við að útvíkka þetta enn frekar, ekki eingöngu gera það hjá ríkinu, en þar getum við þó alla vega byrjað og ætti ekki að þurfa að verða nein bið á því.
    Í 5. gr. frv. er talað um að atvinnurekandi skuli sérstaklega vinna að því að jafna stöðu kynjanna og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Ég vil taka það fram að ég tel alls ekkert óeðlilegt að konur vinni ákveðin störf og karlar önnur. En það sem er óeðlilegt er að laun séu mismunandi eftir því hvort um hefðbundin karlastörf eða hefðbundin kvennastörf er að ræða. Ég túlka þess vegna ekki þessa grein þannig að það þýði að allir þurfi að vinna í öllum störfum heldur að störfin flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf og þar með í mismunandi launaflokka eftir því. Hins vegar verður að sjálfsögðu að gefa öllum kost á því að vinna öll störf, hvort sem þau eru hefðbundin karlastörf eða hefðbundin kvennastörf, allir verða að

hafa frjálst val. Fólk verður að fá að velja hvers konar störf það vill stunda og því sé ekki mismunað á grundvelli kynferðis í að taka að sér ákveðin störf. Ég veit að margir vilja túlka þetta þannig að stefnt skuli að því að eyða hinum kynskipta vinnumarkaði. Ég er ekki sammála því og langar til að láta það koma hér fram.
    Mig langar aðeins að gera að umtalsefni 15. gr. frv. þar sem talað er um Jafnréttisráð. Um skipan Jafnréttisráðs voru miklar umræður í nefndinni. Við höfðum sjálfsagt öll á því skoðanir sem ekki voru allar á sama veg. Ég hafði ákveðna skoðun og hinir höfðu hver sína en við komumst síðan að þessari sameiginlegu niðurstöðu sem þarna er þó að við hefðum kannski hugsað okkur einhverja aðra skipan. Það er alltaf hægt að deila um hvort þessi eigi að eiga fulltrúa eða hinn. En þetta varð okkar niðurstaða og varð samstaða í nefndinni um að leggja þetta fram eins og þarna er eftir miklar vangaveltur og vendingar til og frá hvernig þessu mundi best verða fyrir komið. Eins og hæstv. félmrh. nefndi varð það niðurstaða okkar að kljúfa Jafnréttisráð í kærunefnd og Jafnréttisráð. Ástæðan fyrir því var fyrst og fremst sú að mjög mikill tími Jafnréttisráðs hefur farið í kærur þannig að tími þess hefur ekki sem skyldi getað nýst í önnur mál sem skipta mjög miklu máli ekkert síður en kærurnar sem til þess koma. Þar af leiðandi var talið eðlilegt að breyta skipan Jafnréttisráðs frá því sem nú er.
    Þær greinar sem ég tek eftir að búið er að hnika til eru 17. og 18. gr. Þar er ekki alveg eins fast að orði kveðið um það hversu mjög fjárlagagerðin skuli taka mið af áætlun í jafnréttismálum. Ég tel það mjög mikilvægt að við fjárlagagerð sé tekin afstaða til þess hversu mikið fé fer í þennan málaflokk en ekki reynt að halda fram að svo og svo mikið eigi að gera í jafnréttismálum og svo er lítið sem ekkert gert. Ég sé að það er kveðið á um það í athugasemdunum og vona að fast verði eftir því gengið að hvert ráðuneyti geri grein fyrir því hvaða fjárveitingar verði til þessara mála. Í 17. gr. og athugasemdum með henni er kveðið á um þetta atriði og ég vona að hæstv.
félmrh. gangi þar fast eftir og treysti ég henni til þess að láta þá nú ekki sleppa við það þó að þetta sé aðeins veikara þarna en við hefðum kosið.
    Og einnig varðandi jafnréttisráðgjafa. Við höfum gert ráð fyrir að jafnréttisráðgjafar ,,skyldu`` ráðnir en þarna er talað um heimild. Mér finnst það heldur veikara orðað en ætla samt ekki að gera frekari athugasemd við það en bendi bara á það atriði. Við teljum mjög mikilvægt að gera átak í þessum málum og við ræddum það í nefndinni að e.t.v. væri rétt að ganga enn lengra og stofna embætti umboðsmanns jafnréttismála svipað og er í Noregi. Við höfum m.a. fyrirmynd þaðan. En við ákváðum að sættast á þessa niðurstöðu sem hér er og vonum svo að síðar meir verði tekið á því frekar þannig að í ráðuneytinu væri starfandi umboðsmaður jafnréttismála sem tæki sérstaklega á þessum málum og starfaði þá í tengslum við kærunefnd og að sjálfsögðu Jafnréttisráð líka.

Þetta þarf að athuga nánar síðar.
    Síðan er ákvæði sem ég tel að skipti líka mjög miklu máli og það er í 22. gr. þar sem talað er um skaðabótaskyldur. Komið hefur í ljós að það þarf að herða mjög viðurlög við brotum á jafnréttislögum þar sem það virðist nánast vera talið í lagi að brjóta lögin vegna þess að ekkert er hægt að gera í málinu. Þess vegna þarf að herða viðurlögin.
    Þó að lög eins og jafnréttislög séu ágæt út af fyrir sig eru þau ein og sér að sjálfsögðu engin trygging fyrir auknu jafnrétti. Það hafa konur reynt. Árið 1976 voru sett lög, ný jafnréttislög þar sem m.a. var kveðið á um að ekki mætti mismuna fólki í launum eftir kynferði. En þrátt fyrir það ákvæði í lögum öll þessi ár fá konur aðeins um 60% af launum karla ef borin eru saman laun þeirra sem eru í fullu starfi svo að enn þá er mjög langt í land. Þess vegna þarf raunverulegar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna auk þess að laun þeirra þurfa að hækka til jafns við karla. Heimilisstörf eru ekki metin til starfsreynslu úti á vinnumarkaðinum eins og þyrfti að vera. Það er að einhverju leyti gert í sumum tilvikum en ekki nærri, nærri nægjanlega. Það er ljóst að umönnun hvílir fyrst og fremst á herðum kvenna og þess vegna þarf að taka tillit til þess, bæði með lengingu skóladags og eins aukningu á dagvistarrými og hafa legið fyrir frumvörp hér á þinginu að því er þetta varðar. En auðvitað þarf peninga til þess að þetta geti orðið að veruleika en þeim peningum er vel varið.
    Við höfum náð stórum áfanga nú í lengingu fæðingarorlofs og er það orðið sex mánuðir, en við þurfum að vinna að þessu máli áfram og vinna að enn frekari lengingu auk þess sem það er mjög mikilvægt að gefa foreldrum kost á að taka sér launalaust leyfi vegna umönnunar barna í ákveðinn tíma og að þau geti síðan horfið aftur til sinna fyrri starfa með fullum réttindum. Þetta eru aðeins fá dæmi um aðgerðir sem við þurfum að grípa til til að auka rétt kvenna til fullrar þátttöku í þjóðfélaginu.
    Ég vil endurtaka það sem ég sagði í upphafi að ég vona að ekki sé ágreiningur um frv. og það geti orðið að lögum á þessu þingi þó stuttur tími sé til stefnu. Það er búið að fá mikla umfjöllun í þjóðfélaginu. Það var lagt hér fram á síðasta þingi og síðan var farið aftur yfir umsagnir eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra svo að ég held að okkur ætti ekkert að vera að vanbúnaði að vinna fljótt og vel í þessu máli.