Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Mér virðist þessar fyrirspurnir sem hér eru bornar fram af hv. þm. Þórhildi Þorleifsdóttur byggjast satt að segja á pínulitlum misskilningi á því sem hefur verið að gerast í málefnum Ríkisútvarpsins og hefur verið ákveðið á Alþingi nú þegar. Í fyrsta lagi er ljóst að tekjur Ríkisútvarpsins á árinu 1990 eru að raunvirði um 40% hærri en þær voru á árinu 1987 þannig að tekjustaða Ríkisútvarpsins hefur sjaldan verið betri en hún er á þessu ári.
    Í öðru lagi liggur það fyrir að Alþingi hefur ákveðið að fella niður þær skuldir sem um er að ræða vegna aldraðra og öryrkja og þeirra sem njóta fullrar tekjutryggingar og heimilisuppbótar. Þær skuldir flytjast yfir á ríkið samkvæmt ákvörðun sem tekin var við afgreiðslu fjárlaga hér í haust og lesa má um í ræðu hv. formanns fjvn. hér í Sþ. 21. des. 1989. Þesar ákvarðanir liggja fyrir og hafa legið fyrir um skeið.
    Svörin við fyrirspurnunum eru í stuttu máli þessi: ,,Hvert var tekjutap Ríkisútvarpsins vegna niðurfellingar afnotagjalda samkvæmt ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sl. fimm ár?`` Auðvitað er þetta ekki ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins heldur hefur þetta verið ákvörðun ríkisstjórnar og Alþingis á hverjum tíma. Það er ekki Tryggingastofnun sem slík sem er að leggja gjöld eða byrðar á Ríkisútvarpið. Ég hef hér fyrir framan mig tölur um þetta á hverju ári, á verðlagi hvers árs. Þær segja svo sem ósköp lítið vegna þess að þurft hefði að framreikna þær til núvirðis. Á verðlagi ársins 1990 eru þetta 105 millj. kr. Á verðlagi síðasta árs voru þetta 92 millj. kr., á verðlagi ársins 1988 voru þetta 61 millj. kr., 1987 voru þetta 37,6 millj. kr. og 1986 25,8 millj. kr.
    Síðan er spurt: ,,Er Ríkisútvarpinu bætt tekjutapið og ef svo er, með hverjum hætti?`` Í niðurstöðu nefndar sem skilaði áliti 13. des. 1988 um brýnan
fjárhagsvanda Ríkisútvarpsins segir svo: ,,Tryggingastofnun ríkisins greiði útgarpsgjald fyrir þá skjólstæðinga sína sem undanþegnir eru greiðslu. Árleg endurgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins næstu þrjú árin gangi beint upp í launaskuld Ríkisútvarpsins hjá fjmrn. Ætla má að þessi upphæð nemi rúmlega 90 millj. kr. á næsta ári.`` Þetta álit þessarar starfsnefndar frá 13. des. 1988 var samþykkt af menntmrn. og fjmrn.
    Í þriðja lagi er spurt: ,,Hefur Ríkisútvarpið aðgang að skrá yfir þá sem njóta niðurfellingar í því skyni að fylgjast með ákvörðunum um niðurfellingu og endurskoðun á skránni?`` Svarið er að 31. jan. 1990 fékk Ríkisútvarpið lista í tölvutæku formi frá Tryggingastofnun ríkisins yfir þá sem niðurfellingar njóta. Áður höfðu fengist útprentaðir listar sem bornir voru saman við skráningu Ríkisútvarpsins og var leiðrétting byggð á þessum samanburði.
    Til viðbótar því sem að framan segir skal upplýst að skv. 3. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 357/1986 greiða vistmenn dvalar- og elliheimila ekki afnotagjald af eigin viðtækjum sem þeir nota þar. Um síðustu

áramót námu undanþágur samkvæmt þessum lið 1105. Við þetta er því að bæta að í ræðu formanns fjvn. á Alþingi 21. des. 1989 var um þetta mál fjallað og þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Í niðurstöðu nefndar sem fjallaði um málefni Ríkisútvarpsins og skilaði áliti á sl. ári var m.a. gert ráð fyrir að Ríkisútvarpinu yrði bætt það tekjutap sem af því hlýst að Tryggingastofnun ríkisins hefur getað ávísað á niðurfellingu afnotagjalda hjá þeim aðilum sem njóta fullrar tekjutryggingar og heimilisuppbótar. Er hér um verulegar fjárhæðir að ræða sem tekjur Ríkisútvarpsins hafa lækkað um af þessum sökum og hefur stofnunin orðið að bera þá lækkun sjálf í stað þess, eins og eðlilegt hefði mátt teljast, að sá sami aðili og tekur ákvörðun um að veita niðurfellinguna beri kostnaðinn af henni.
    Til þess að draga úr hækkunarþörf Ríkisútvarpsins og bæta fjárhag stofnunarinnar er ráðgert að leysa þetta mál þannig að afskrifaður verði hluti af þeirri skuld sem Ríkisútvarpið hefur stofnað til við ríkissjóð og í forsendum fjárlagafrv. var gert ráð fyrir að stofnunin þyrfti að greiða ríkissjóði. Með þessu móti hefur verið fyrir því séð að engin hækkun mun verða á afnotagjöldum Ríkisútvarpsins í ársbyrjun 1990 eins og í frv. var gert ráð fyrir og engin hækkkun afnotagjalda Ríkisútvarpsins er ráðgerð fyrstu sex mánuði ársins 1990.``
    Í framhaldi af þessari ákvörðun Alþingis sem birtist í fjárlögum skrifar Ríkisútvarpið fjmrn. bréf sem er dags. 25. jan. 1990 og þar segir svo, með leyfi forseta: ,,Við 3. umr. fjárlaga 21. des. sl. skýrði formaður fjvn. frá því að fallið væri frá heimild til 8% hækkunar afnotagjalds Ríkisútvarpsins 1. jan. 1990. Sú hækkun var í forsendum fjárlagafrv. talin nauðsynleg til þess að jöfnuður næðist í rekstri. Á móti var ákveðið að dregið skyldi úr hækkunarþörf með því að afskrifa á þessu ári hluta af skuld Ríkisútvarpsins við ríkissjóð. Við 3. umr. var því samþykkt brtt. við fjárlagafrv. til samræmis við þetta.
    Formaður fjvn. vitnaði einnig til niðurstöðu nefndar sem haustið 1988
fjallaði um fjárhagsvanda Ríkisútvarpsins. Umrædd niðurstaða fól í sér að 318 millj. kr. skuld stofnunarinnar við ríkissjóð yrði millifærð á Tryggingastofnun ríkisins en Ríkisútvarpinu hefur verið gert að bera niðurfellingu um 6000 afnotagjalda skjólstæðinga Tryggingastofnunar mörg undangengin ár. Þeir sem sátu í framangreindri nefnd eru sammála um að fjmrn. hafi samþykkt tillögu um millifærslu í desember 1988 og átti hún að hefjast í upphafi árs 1989.``
    Þetta er bréf fjármálastjóra Ríkisútvarpsins til fjmrn. dags. 25. jan. 1990. Með öðrum orðum, það er verið að fella þessa skuld stofnunarinnar niður og þannig að gera upp launaskuld Ríkisútvarpsins við ríkissjóð sem stóð í verulegum upphæðum fyrir fáeinum missirum. Þessar skuldir, þessir þættir verða í rauninni jafnaðir út. Það er í framhaldi af tillögum nefndar sem birtar voru 13. des. 1988. Ég vænti þess að þessum þætti verði í raun og veru ekki aðeins nú

aftur í tímann heldur einnig framvegis létt af Ríkisútvarpinu, sem er auðvitað eðlilegt, og að ríkissjóður og Alþingi sem taka ákvörðun um þetta mál beri þar með ábyrgð á kostnaðinum.