Guðrún Helgadóttir:
    Hæstv. forseti. Ég komst ekki í umræðuna í fyrri fsp. en þar sem þessar tvær fyrirspurnir eru svo nátengdar held ég að það geti varla komið að sök. Hér er auðvitað verið að tala um tvö mjög ólík mál, annars vegar kjör ellilífeyrisþega og öryrkja og hins vegar afkomu útvarps og sjónvarps. Ég er sjálf ábyrg fyrir því að fólk á elliheimilum þarf ekki að greiða afnotagjöld af viðtækjum sínum vegna þess að ég flutti þáltill. þar að lútandi hér fyrir mörgum árum, sem var samþykkt sem betur fer.
    Ég er mjög ósammála hv. 3. þm. Reykv. um að fremur ætti að hækka bætur sem svarar greiðslu afnotagjalda. Ég er hrædd um að það yrði þá að hækka bætur ansi mikið því hættan er auðvitað sú, vegna þess hve örorkulífeyrir og ellilífeyrir er lágur, að þeir peningar mundu fara í almenna framfærslu.
    Ég er mjög vel kunnug því hvernig framkvæmd er á þessum málum í Tryggingastofnun ríkisins. Ég get fullvissað hv. þm. um að það berast mjög nákvæmar upplýsingar til Ríkisútvarps og sjónvarps um það hverjir eigi rétt á þessu og hverjir ekki. Ég held að þar séu ekki miklir möguleikar á misnotkun. Listar fara mjög þétt og með þessu er fylgst mjög nákvæmlega. Ég tel það mjög mikilvægt fyrir ellilífeyrisþega og öryrkja að þessari reglu verði haldið, að þessi gjöld falli einfaldlega niður, menn hafi af þeim engan ama yfirleitt. Fáir þurfa meira á því að halda að hafa viðtæki sín í gangi en einmitt þeir sem verst eiga með að komast að heiman til að njóta ýmislegs þess sem við hin getum notið. Ég vil því biðja menn lengstra orða að leysa vanda Ríkisútvarps og sjónvarps á annan hátt en að fara að rugla þessu kerfi sem verið hefur á niðurfellingu afnotagjalda.