Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson hefur flutt hér athyglisvert frv. Það er ljóst að mjög hefur skort á að nægilegar heimildir og skýr ákvæði væru um eftirlit með starfsemi lífeyrissjóða og hafa af því skapast ýmsir erfiðleikar. Hv. þm. hefur mjög mikla reynslu á þessu sviði og hefur veitt forstöðu einum stærsta ef ekki stærsta lífeyrissjóði á almennum markaði hér í landinu. Það er þess vegna athyglisvert að heyra þau sjónarmið sem hann flutti hér um það hvernig hann teldi eðlilegast að koma þessum eftirlitsmálum fyrir á næstu árum.
    Ég vildi láta það koma hér fram við 1. umr. að ég tel skynsamlegt að athuga með jákvæðu hugarfari og vandlega þær hugmyndir sem koma fram í þessu frv. Jafnframt vil ég lýsa því yfir að á allra næstu dögum hyggst ég leggja fyrir þessa hv. deild það frv. um lífeyrissjóði sem legið hefur í fjmrn. nokkur undanfarin ár en ákveðið hefur verið að leggja fram á þinginu nú fyrir vorið og láta síðan milliþinganefnd starfa að því máli fram að næsta hausti.
    Mér finnst athyglisvert að hv. þm. benti á það hér að hluti af hans frv. væri tekinn upp úr þessu frv. sem legið hefur tilbúið um nokkurt árabil án þess að vera lagt fram hér á Alþingi. Ég segi þetta vegna þess að það kemur auðvitað til greina að taka ákveðna þætti þess frv. út úr og setja þá í lög fyrr en geyma síðan til nánari athugunar þau ákvæði sem skiptari skoðanir eru um. Ég tek það skýrt fram til að fyrirbyggja misskilning að ég er ekki að gera það að tillögu minni. Það er aðferð sem hægt er að ræða þegar ég hef lagt stóra lífeyrissjóðafrv. fyrir þessa hv. deild á næstu dögum.
    Mér fannst rétt að greina deildinni frá því að þetta frv. um starfsemi lífeyrissjóðanna í heild og lífeyrissjóðakerfið í landinu væri væntanlegt til þingsins og jafnframt að ég hefði ákveðið að leggja það fyrir hv. Ed. Ég geri það m.a. vegna þess, með fullri virðingu fyrir fjölmörgum ágætismönnum sem í
hv. Nd. starfa, að innan þessarar deildar er að finna einstaklinga sem að öllum öðrum þingmönnum ólöstuðum hafa meiri reynslu og þekkingu á þessu sviði en aðrir hér á Alþingi. Ég vænti þess því að hv. fjh.- og viðskn. geti innan tíðar einnig fengið það stóra mál til skoðunar, þótt ekki sé ætlunin að ljúka því hér á þessu þingi, og geti haft hliðsjón af því þegar hún fjallar um það athyglisverða frv. sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson hefur hér mælt fyrir.