Sementsverksmiðja ríkisins
Föstudaginn 23. mars 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Herra forseti. Ég hef í rauninni litlu að bæta við það sem ég sagði áðan. Hæstv. iðnrh. sagði að það væri mjög algengt að það kæmu fram sams konar frv., fleiri en eitt. Ég held að þetta sé ofmælt. Það er ekki mjög algengt. En það getur komið fyrir og ég var ekki að segja að gæti ekki komið fyrir. Þannig að það sem hæstv. ráðherra sagði um þetta virðist mér ekki hnekkja í neinu þeirri almennu skoðun sem ég var að tala um áðan. En það er rétt að veita því athygli að hæstv. ráðherra sagði að það frv., sem hv. 1. þm. Reykv. leggur fram í neðri deild, hafi verið samið í iðnrn., eins og hann orðaði það, og að þess vegna væri það ekki venjulegt þingmannafrv. Ég fæ nú ekki séð annað eftir þessar upplýsingar en að það sé enn eðlilegra, en ég áður taldi, að hæstv. ráðherra hefði látið sér nægja að gera breytingar við frv. sem var samið í iðnrn. og ekki var eiginlegt þingmannafrv.