Sementsverksmiðja ríkisins
Föstudaginn 23. mars 1990


     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Hér er á ferðinni að mínu mati mjög mikilsvert mál, tillaga um að breyta Sementsverksmiðju ríkisins í hlutafélag. Umræðan er að verða að meginhluta til um form frv. sem flutt er. Mér þykir þetta miður, ekki síst vegna þess að við förum að hafa svolítið knappan tíma og bundinn til þess að fjalla frekar um þessi málefni. Ég tel ástæðu til að vekja athygli á því að hv. 4. þm. Vestf. benti á mjög veigamikið atriði í ræðu sinni og spurði hæstv. ráðherra um aðalþáttinn sem skiptir sköpum. Hv. 4. þm. Vestf. lýsti því sem sinni skoðun að frv. í þeim búningi sem það er væri tilgangur þess ,,vængstýfður``, eins og hv. þm. nefndi það, þ.e. að það væri ekki ætlast til að einkafjármagn kæmi til verksmiðjunnar og tilgangur frv. væri ekki sá. Og hann óskaði eftir því að hæstv. ráðherra svaraði því hvort það væri skoðun hans eins og kom fram sem skoðun mín og hv. 3. þm. Vesturl. í umræðunni að ekki ætti að bjóða út hlutabréf verksmiðjunnar til sölu. Ég held að við 1. umr. sé mjög nauðsynlegt að hæstv. ráðherra svari þessari fsp. hv. 4. þm. Vestf. og ég geri jafnframt þessa spurningu hans að minni.
    Ég vil vekja athygli á því, sem reyndar kom fram í ræðu hv. 3. þm. Vesturl., að rekstur Sementsverksmiðju ríkisins hefur gengið mjög vel á undanförnum árum. Alveg er það jafnrétt að á liðnum tímum gekk þar á ýmsu, m.a. vegna þess að ríkissjóður var þá að skipta sér af verðlagningu sements. Ég vil líka undirstrika það að frá því 1981 hefur Sementsverksmiðja ríkisins verið í stöðugri endurnýjun. Á árunum 1981 og 1982 var farið að kynda verksmiðjuna með kolum í stað olíu og frá þeirri framkvæmd hefur verið stöðug endurnýjun á verksmiðjunni og segja má að að tækjakosti sé þessi verksmiðja að meginhluta til ný. Með þeim stjórntækjum og nýju tækjum sem hv. 4. þm. Vestf. lýsti áðan má segja að annað mjög stórt skref hafi verið stigið til viðbótar við það sem stigið var með breytingu á orkugjafa verksmiðjunnar. Rekstur verksmiðjunnar hefur batnað við hverja aðgerð jafnvel þó að þær hafi kostað mikla peninga og verið fjárfesting fyrir verksmiðjuna. Ég tel því að verksmiðjan sé í þeim sporum núna að ekki sé líklegt að hún þurfi að fá nýtt fjármagn til rekstursins eða nýrrar fjárfestingar til þess að sinna því hlutverki sem hún hefur rækt og á að rækja í framtíðinni. Ég held því að hæstv. ráðherra verði að svara þeirri spurningu sem við berum nú fram tveir um það hvort það sé hugmynd hæstv. ráðherra að þetta frv. sé fyrsta skrefið til þess að opna fyrir einkafjármagn inn í þetta fyrirtæki, hver meining hans er í því máli.