Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svar hans. En ég undirstrika það að vandamálið er ekki hvort ég er getspakur eður ei heldur hitt hvort hinir erlendu aðilar sem þarna mundu um semja teldu að sér væri of þröngur stakkur skorinn. Mér er ekki ljóst hvort þeir sem starfa í nefndinni og fá þetta til umfjöllunar eru þar dómbærari um en hæstv. iðnrh. Ég hygg að þeir séu fjær þeim vettvangi. Ég tel að hæstv. ráðherra komist ekki undan því á einhverjum stigum þessa máls að taka afstöðu til þessa. Með þessu er ég ekki á nokkurn hátt að álasa honum fyrir það þó að hann hafi ekki tekið afstöðu til þess í umræðunni hér og nú.