Kynbótastöð fyrir laxfiska
Mánudaginn 26. mars 1990


     Frsm. atvmn. (Árni Gunnarsson):
    Virðulegi forseti. Atvmn. hefur fjallað um till. til þál. um kynbótastöð fyrir laxfiska. Flm. tillögunnar var einn, hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson. Nefndin fjallaði um tillöguna og fékk um hana umsagnir frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun, Landssambandi fiskeldis- og hafbeitarstöðva, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, veiðimálastjóra og yfirdýralækni. Í nál. segir, með leyfi forseta:
    ,,Í tillögunni er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að láta reisa og reka kynbótastöð fyrir laxfiska. Vegna þessa vill nefndin minna á að undanfarin ár hafa kynbótarannsóknir á hafbeitarlaxi verið framkvæmdar í Laxeldisstöð ríkisins í Kollafirði þar sem m.a. hefur verið reist nýtt hús fyrir kynbætur á seiðastigi. Nefndin telur hins vegar að efling laxakynbóta sé það viðamikið verkefni að ekki sé eðlilegt að ríkið eitt sinni slíku heldur hljóti jafnframt að koma til þátttaka hagsmunaaðila í fiskeldi. Í ljósi þess frumkvæðis, sem stjórnvöld hafa haft í kynbótarannsóknum á laxi, telur nefndin eðlilegt að stjórnvöld hafi forustu um að kanna vilja hagsmunaaðila til samstarfs um þessi mál, sbr. 62. gr. laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði. Nefndin leggur því til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Ólafur Þ. Þórðarson var fjarverandi afgreiðslu málsins.
    Danfríður Skarphéðinsdóttir sat fund nefndarinnar og er samþykk áliti þessu.``
    Undir nál. skrifa hv. þm. Matthías Á. Mathiesen, Jón Kristjánsson, Hreggviður Jónsson, Geir Gunnarsson og Geir H. Haarde og sá sem hér mælir.