Utandagskrárumræður í deildum
Miðvikudaginn 28. mars 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég frétti það, eins og aðrir landsmenn, að í fjölmiðlum í gær voru frásagnir af greinargerð ríkislögmanns til fjvn. og ýmsum öðrum skjölum í þessu máli. Ég hef ekki hugmynd um það hvernig þau gögn frá fjvn. voru komin til fjölmiðla og ætla í sjálfu sér ekkert að tjá mig um það. Hins vegar hafa ýmsir blaða- og fréttamenn leitað til mín í morgun og óskað eftir viðtölum við mig í dag um þetta mál, sem er eðlilegt og sjálfsagt af þeirra hálfu. Það var einfalt hagræðingaratriði af minni hálfu að kalla þá alla saman sem vildu spyrja mig um þetta mál hér í þinghúsinu síðar í dag til þess að ég þyrfti ekki að verja miklum tíma í að endurtaka sjö, átta eða níu sinnum sömu hlutina fyrir fulltrúum fjölmiðlanna. Þetta er skýringin á því hvers vegna ég boðaði blaðamenn og fréttamenn til fundar hér í þinghúsinu, sem er nú ekki úti í bæ, til þess að svara spurningum þeirra og leggja fram þau gögn sem ég tel nauðsynlegt að leggja fram vegna þeirra frétta sem komu í útvarpi og sjónvarpi í gær og blöðum í morgun. Þess vegna finnst mér ekki hægt að gagnrýna það með neinum hætti að ég hafi ákveðið að svara spurningum fulltrúa fjölmiðla á einum stað.
    Ég vil hins vegar geta þess hér að sá þingmaður sem bað um þessa umræðu utan dagskrár lét mig ekkert vita um það að hann óskaði eftir að tala við mig um þetta mál. Mér finnst því satt að segja dálítið sérkennilegt að flokksbróðir hans, hv. 1. þm. Reykv., skuli nú allt í einu óska eftir því að ég flytji í þinginu skýrslu um málið þegar sá sem óskar eftir utandagskrárumræðunni óskaði ekki eftir því að fjmrh. væri viðstaddur. Það var fyrir hreina tilviljun rétt fyrir hádegið sem ég frétti að hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson hefði beðið um umræðu utan dagskrár um þetta mál. Hins vegar er ég að sjálfsögðu reiðubúinn til að veita þinginu allar þær upplýsingar sem það óskar eftir í þessu máli og ræða málið eins lengi og ítarlega og þingið óskar. Svo margt villandi og vitlaust hefur verið sagt um þetta mál, sérstaklega núna síðasta sólarhringinn, að það er út af fyrir sig kærkomið tækifæri að gefa þinginu ítarlega skýrslu um það. Það er mál sem ég legg í vald forseta en mun að sjálfsögðu halda þeirri vinnuhagræðingu sem ég hef reynt að temja mér gagnvart samskiptum við fréttamenn hér eftir sem hingað til.