Málefni aldraðra
Miðvikudaginn 28. mars 1990


     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Jón Sæmundur Sigurjónsson):
    Herra forseti. Nefndin hefur fjallað um þetta mál og klofnaði í tvo jafnstóra minni hluta. Mæli ég fyrir nál. þess minni hl. sem kallaður hefur verið 1. minni hl. Þar segir:
    ,,Í forsendum fjárlaga fyrir árið 1990 er m.a. gert ráð fyrir sérstöku gjaldi til Framkvæmdasjóðs aldraðra sem á að standa undir fjárveitingu til sjóðsins að upphæð 230 millj. kr.
    Nú er það ekkert launungarmál að nokkur ágreiningur hefur verið um það meðal stjórnarflokkanna og innan þingsins hvort innheimta skuli gjald þetta með þessum hætti eða eingöngu samkvæmt ákvæðum laga um staðgreiðslu skatta.
    Rétt er að minna á að þegar staðgreiðslan var tekin upp féllu niður fjórir smáskattar sem urðu hluti staðgreiðslunnar og hækkaði álagningarhlutfall hennar sem þeim nam. Þessir skattar voru sóknargjald, kirkjugarðsgjald og sjúkratryggingargjald auk hins sérstaka gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra.
    Með því að taka einn þessara skatta upp í tengslum við samþykkt nýrra laga um Framkvæmdasjóð aldraðra er verið að fitja að nýju upp á álagningu þessara smáskatta og gefa um leið fordæmi fyrir frekari beitingu þeirra án þess að staðgreiðsluhlutfallið lækki á móti. Með þessu er verið að grafa undan framkvæmd staðgreiðslunnar sem hefur það að markmiði að sem flestir gjaldendur séu jafnan skuldlausir við ríkissjóð. Í núgildandi kerfi eru það eingöngu gjaldendur eignarskatta sem greiða eftir á, sem og þeir sem ekki hafa staðgreitt skatta af tekjum sínum með venjulegum hætti. Allir smáskattar og fráhvarf frá samtímainnheimtu skatta gerir framkvæmd staðgreiðslunnar erfiðari og mun auka fjölda þeirra gjaldenda sem ekki eru gerðir upp að fullu í staðgreiðslunni.
    Nú hefur meiri hluti Alþingis samþykkt forsendur fjárlaga og þar með áðurgreint fyrirkomulag á innheimtu gjalds til Framkvæmdasjóðs aldraðra. Það breytir því ekki að þessi tilhögun er órökrétt og óhagkvæm í innheimtu. Fyrsti minni hl. telur því rétt að nákvæm athugun fari fram á álagningu þessa gjalds í framtíðinni og að niðurstöður þeirrar athugunar eigi að liggja fyrir eigi síðar en við 1. umr. fjárlaga fyrir árið 1991. Fyrsti minni hl. nefndarinnar leggur því til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``
    Undir þetta álit skrifa Guðmundur G. Þórarinsson, Sverrir Sveinsson og Jón Sæmundur Sigurjónsson.