Staða íslensks ullariðnaðar
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Virðulegur forseti. Ég verð að láta mér nægja að gera hér stutta athugasemd en þetta mál sem er til umræðu væri sannarlega efni í langa ræðu.
    Við ræðum hér um vandamál Álafoss og ullariðnaðarins í landinu. Ég get eiginlega ekki hugsað þá hugsun til enda ef Álafoss, stærsta ullariðnaðarfyrirtæki landsins, fer um koll. Með því glatast ekki einungis, eins og hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson benti á, 600 störf heldur glatast þar sú þekking og sú færni sem við höfum fengið við verksmiðjuiðnað á ull. Það má aftur á móti deila um það hvernig sá iðnaður hefur gengið. Að vissu leyti hefur hann verið unninn, ekki bara úr íslenskri ull heldur hefur verið blandað í hann erlendri ull, sem er umdeilanlegt hvort við eigum að sætta okkur við að sé gert. En ég vil benda á þá mikilvægu auðlind sem íslenska ullin er og ég vil benda á það hvað við eigum þar mikinn óplægðan akur. Íslenskar konur hafa um aldir unnið ullina okkar og þær hafa unnið hana í alls konar fatnað og þær hafa unnið listiðnað á því sviði. Þarna liggur ein auðlind sem ónýtt er, eiginlega með öllu, og þarna er mál sem þarf að taka á vegna þess að bráðum eru ekki lengur til konur sem kunna þessa iðn og þessum iðnaði á að halda í heiðri. Og ég bendi á það að Heimilisiðnaðarskólinn, sem er sá vettvangur þar sem fyrst og fremst hafa verið kennd þessi vinnubrögð á seinni árum, hefur búið við algert fjársvelti og ég vil leggja á það áherslu við hv. þingheim að vinna að því að þeim málum verði breytt.
    Ég vil enn fremur ítreka þá skoðun mína að með öllu er óþolandi ef þannig er búið að ullariðnaðinum í landinu að aðalfyrirtækið í þeirri grein standi frammi fyrir gjaldþroti. Ég skora á hæstv. ráðherra iðnaðarmála að leita allra leiða til að rétta hag fyirtækisins og ullariðnaðarins í heild.
    Íslenskar konur unnu um aldir klæði sem dugðu þjóðinni úr íslenskri ull. Það væri höfuðskömm ef fordild, tæknihyggja og hagvaxtartrú yrðu þess valdandi að ullariðnaðurinn legðist af.