Fjárveitingar til Rannsóknasjóðs
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans hér við þessum fsp. mínum. Eins og fram kom í máli hans hafa framlög til Rannsóknasjóðs lækkað. Ekki virðist tölum alveg bera saman samkvæmt þeim upplýsingum sem fram komu í fréttatilkynningunni en ég ætla nú ekki að gera þær að ágreiningsefni hér. (Gripið fram í.) Í fréttatilkynningu Rannsóknaráðs ríkisins frá 13. mars, en þar er talið að þessi rýrnun sé um 40%. Ég ætla, eins og ég sagði, ekki að fara að deila um þær tölur hér og nú. Ég vil hins vegar benda á það að ég get tekið undir það með hæstv. menntmrh. að það er ekki einfaldur hlutur heldur flókinn að ákveða hvar skuli skera niður þegar illa gengur.
    Ég vil hins vegar benda á það að auðvitað er mjög mikilvægt í þessu sambandi að hyggja að framtíðinni. Þær rannsóknir sem hafa verið í gangi í samvinnu Rannsóknaráðs og ýmissa fyrirtækja hafa leitt margt gott af sér. Það hefur líka verið farið út í ýmsa atvinnustarfsemi án þess að fullnægjandi rannsóknir hafi verið gerðar. Á það var m.a. bent í skýrslu sem Rannsóknaráð ríkisins sendi ríkisstjórninni um þróun fiskeldis sumarið 1986. Það er því hætta á, ef dregið er úr framlögum til slíkrar starfsemi, að það muni einmitt enn auka á efnahagsvanda þjóðarinnar í framtíðinni, ef framlög lækka stöðugt eins og því miður hefur verið reyndin.
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, nefna að í þessum fréttatilkynningum kemur fram að nokkur fyrirtæki hafa þegar verið stofnuð á grundvelli þróunarverkefna sem Rannsóknasjóður hefur stutt. Langar mig, með leyfi forseta, að vitna aðeins í þessa fréttatilkynningu. Þar segir:
    ,,Má nefna fiskteljara eða seiðateljara sem fyrirtækið Vaki hf. selur nú víða um heim, hugbúnað til greiningar á taugasjúkdómum sem fyrirtækið Taugagreining hf. selur, fyrirtækin Genis hf. og undirbúningsfélag líftæknivinnslu hafa verið stofnuð til að ljúka þróunarvinnu og markaðsfæra niðurstöður rannsókna á sviði líftækni.``
    Ýmislegt fleira er hér upp talið sem ekki gefst tími til að nefna. En ég vildi benda á þetta vegna þess að ég held að núna sé einmitt mikil þörf, eins og ástandið er í atvinnumálunum, á að reyna að þróa upp ný verkefni og stofna um þau fyrirtæki.