Rannsóknir og vísindastarfsemi
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Íslendingar eru eins og aðrar þjóðir staddir á miklu breytingaskeiði í atvinnuháttum. Örar tækniframfarir og aukin samkeppni í viðskiptum á alþjóðavettvangi knýja til breyttra atvinnuhátta. Auðlindir lands og sjávar þola takmarkaða nýtingu og sókn manna beinist nú fremur að því að rækta og virkja hugvit fólksins í stað þess að þrautpína hefðbundnar atvinnugreinar sem víða geta ekki staðið undir meiri hagvexti án breyttra atvinnuhátta. Til þess þarf auðvitað að kosta fé og það verður ekki gert nema með góðu skólakerfi alveg frá fyrsta grunni til háskólastigs. Við þurfum gagngerar breytingar á menntunarmöguleikum sem bjóða upp á fjölþættara nám, fjarnám, símenntun, endurmenntun og fullorðinsfræðslu. --- En verst þykir mér ef hæstv. ráðherra ætlar nú að ganga úr salnum þegar ég er að tala við hann. --- Ég bíð róleg.
    Háskólinn þarf að geta sinnt rannsóknum í mun ríkara mæli. Sama má segja um rannsóknastofnanir atvinnuveganna, svo og aðrar stofnanir sem það hlutverk hafa í þjóðfélaginu. Það skiptir svo auðvitað meginmáli að innan stjórnsýslunnar sé mannafli með sérþekkingu, áhrif og tíma til að sinna skipulagningu, stefnumótun, eflingu og allri umsýslu þessa mikilvæga málaflokks sem margir hafa á hátíðarstundu talið hornstein þeirra framtíðarkosta sem bíða barna okkar. Ég spyr því hæstv. menntmrh.:
,,1. Hve margt starfsfólk í Stjórnarráðinu annast málefni er varða rannsóknir og vísindastarfsemi í þjóðfélaginu?
    2. Hve margt starfsfólk hefur slíkt hlutverk að meginviðfangsefni?
    3. Telur menntmrh. þörf á því að fjölga þeim sem sinna þessu mikilvæga hlutverki innan Stjórnarráðsins eða skipuleggja verksvið þeirra er nú annast þessi málefni þannig að þeim gefist meiri tími til verkefna sem varða rannsóknir og vísindastarfsemi?``