Rannsóknir og vísindastarfsemi
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans. Þau voru í raun á þann veg sem ég bjóst við og varpa skýru ljósi á þá alvarlegu vanrækslu og afskiptaleysi sem málefni vísinda og rannsókna hafa sætt og sæta enn í stjórnsýslunni. Í raun kom fram að það er einungis einn starfsmaður í menntmrn. sem hefur það að meginverkefni, og e.t.v. alls ekki allan sinn vinnutíma, að sinna því sem ég lagði áherslu á hér áðan, þ.e. skipulagningu, stefnumótun, eflingu og allri umsýslu um vísindi og rannsóknastarfsemi. Þetta er auðvitað arfur sem hæstv. menntmrh. hefur tekið frá forverum sínum. Þessi tilhögun mála skýrir kannski einmitt það sem kom fram bæði í fsp. og svari við fsp. Danfríðar Skarphéðinsdóttur hér á undan, að við Íslendingar erum svo aftarlega á merinni miðað við aðrar Evrópuþjóðir, eða a.m.k. meðal þjóða sem tilheyra Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, í því að styðja við rannsóknir og þróunarstarfsemi að okkur má jafna við þær þjóðir í Evrópu sem skemmst eru á veg komnar.
    Við leggjum rétt um 0,8% af þjóðartekjum okkar til þessara mála. Það hlutfall hefur að vísu aðeins hækkað á síðustu árum en það er ekki vegna þess að hið opinbera hafi lagt þar fram fé heldur fyrst og fremst vegna aukinna framlaga atvinnulífsins til rannsókna.
    Ég held að við verðum að losa okkur við það svefnþorn sem við höfum verið stungin í þessum efnum. Við verðum að komast eitthvað í áttina að nágrannaþjóðum okkar á Norðurlöndunum með því að hækka þetta framlag og skipuleggja öll þessi mál betur innan stjórnsýslunnar þannig að þau séu í raun og veru á ábyrgð a.m.k. meira en eins manns.
    Mig langar að geta þess að fyrir nokkrum árum gerði ég það vegna erindis sem ég þurfti að flytja hjá Rannsóknaráði ríkisins á afmæli stofnana atvinnuveganna að ég fór í allar stefnuræður forsætisráðherra sem hafa verið fluttar hér á Alþingi sl. 12 ár. Ég fór sömuleiðis í alla málefnagrundvelli. Það mátti leita með logandi ljósi að því erindi í málefnasamningi eða í stefnuræðum þar sem getið var um mikilvægi rannsókna og vísindastarfsemi eða þróunar af því tagi. Það var hreinlega sorglegt að sjá hve oft þetta hafði gleymst. Enda voru efndirnar í samræmi við það.
    Ég vona að hæstv. menntmrh. hafi svigrúm, fjármagn og áhuga á því að kippa þessum málum í lag því að í raun og veru varðar þetta mjög miklu fyrir framtíð okkar hér á landi.