Rannsóknir og vísindastarfsemi
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Ég hygg að ekki þurfi að deila um það hér á hv. Alþingi að við Íslendingar höfum ekki staðið nægilega vel að verki varðandi rannsókna- og þróunarstarfsemi af ýmsu tagi. Vandinn þar er fyrst og fremst sá að við höfum ekki lagt nægilegt fjármagn til þess, hvorki á vegum ríkisins til Rannsóknasjóðs eða Vísindasjóðs, né til ýmissa annarra stofnana sem sinna rannsóknum og fyrirtækin eru vanmegnug í þessum efnum.
    Ég er hins vegar í grundvallaratriðum ósammála hv. 6. þm. Reykv. sem varpaði fram þessari fsp. hér um hvernig standa skuli að skipulagningu þessara mála. Ég tel það alveg af og frá að stefna eigi að því að setja upp eitthvert apparat í menntmrn. eða einhverju öðru ráðuneyti til að skipuleggja vísinda- og þróunarstarfsemi. Hana á ekki að skipuleggja á þann hátt, þar á valddreifingin að vera í fyrirrúmi. Skipulagningin á að fara fram hjá Rannsóknaráði ríkisins, hjá Háskólanum, hjá hinum ýmsu vísindastofnunum sem við höfum. En í guðanna bænum farið ekki að ráða einhverja starfsmenn til að sitja uppi í ráðuneyti til að fara að skipuleggja vísinda- og rannsóknastarfsemi í landinu. Það er af og frá.