Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég tel að umræða fyrirspyrjanda, hv. 1. þm. Reykv., hafi alls ekki verið um þingsköp. Hún var um efnisatriði þess máls sem hér var fyrr á dagskrá í fyrirspurnatíma. En látum það nú liggja kyrrt um sinn. Hitt er svo annað að ég skil það mjög vel að hann segði það sem hann sagði, að hann gæti ekki rökstutt þetta frekar. Það er eðlilegt vegna þess að það þarf ekkert að rökstyðja. Málið er þannig að í gildi eru lög í landinu sem þingið hefur ekki breytt. Forsendur eru breyttar fyrir áætlunum útgjalda og tekna í fjárlögum sem eðlilegt er að meðhöndla í fjáraukalögum. Ég vil benda hv. fyrirspyrjanda á að það er fjáraukalagafrv. fyrir þinginu nú. Væntanlega kæmi annað til greina á haustinu, um það ætla ég ekki að spá. En ég vil segja það sem skýrast að hér er ekki verið að breyta stefnu á nokkurn hátt. Hins vegar er verið að bregðast við breyttum aðstæðum eftir því sem efni standa til. Það er nú það sem máli skiptir, efnið en ekki formið, þótt því sé í öllu fylgt rétt eins og í þingsköpum og lögum segir.