Fyrirspyrjandi (Friðrik Sophusson) (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Það undrar mig stórum ef virðulegur forseti hefur ekki skilið þá umræðu sem hér hefur farið fram. Þetta mál snýst um stóralvarlega hluti sem hæstv. forseti er kannski mest ábyrgur fyrir að vera á varðbergi fyrir. Ég ætla að skýra það aðeins um hvað þetta snýst. Þetta gengur út á það að í landinu gilda lög um jöfnunargjald. Þessum lögum hefur verið hagað þannig að nú á að taka inn 5% jöfnunargjald af ákveðnum vöruflokkum. Í umræðum um fjárlög kemur fram að ef þessu lagaákvæði er beitt, og það er viðurkennt af hálfu allra aðila, muni fást tekjur á heilu ári upp á 1000 millj. kr., 1 milljarð. Þegar hæstv. fjmrh. er spurður hvernig á því standi að aðeins sé um að ræða 500 millj. í fjárlagafrv. eru svör hans ákaflega skýr. Þau eru þessi: Lögunum um jöfnunargjald á aðeins að beita hluta af árinu. Það kemur skýrt fram. Og ég er hræddur um að ýmsir hv. þm. hafi samþykkt þetta einmitt á þessum grundvelli því að hér er vissulega um brot að ræða á samskiptum við önnur ríki. Ég ætla ekki að fara út í þá sálma.
    Ef þetta er ekki umræða um þingsköp, hvað er þá umræða um þingsköp? Ef það er virkilega svo að hægt sé fyrir hæstv. ráðherra að koma með fjárlagafrv. sem sýnir tölu sem er helmingi lægri en sú sem fæst ef viðkomandi tekjulög eiga að gilda út allt árið og því er síðan svarað: Þetta er vegna þess að það á ekki að beita lögunum nema hluta úr árinu --- ef síðan eftir nokkra mánuði annar hæstv. ráðherra getur komið hér í ræðustól og sagt: Við höfum verið að hugsa um það í hæstv. ríkisstjórn að nota þessi lög áfram og ná inn 1000 millj. ( Viðskrh.: Þau gilda, þau gilda.) Alveg hárrétt. Ef hæstv. ríkisstjórn ætlar síðan að láta innheimtuna ganga áfram, ná inn 1000 millj., án þess að leggja málið fyrir hv. Alþingi öðruvísi en með fjáraukalögum sem eðli máls samkvæmt koma fram síðar, þá er verið að skapa hér fordæmi fyrir því, virðulegur forseti, að umræður um fjárlög séu einskis virði. Það er í raun og veru verið að skapa fordæmi fyrir því að hægt sé að setja í fjárlög, alveg vísvitandi, helmingi lægri tölur, tekjutölur, en hægt er að sýna fram á að koma inn á fjárlagaárinu. Síðan, þegar líður á næsta ár, er bara sagt: Ja, við höfum ákveðið að gera þetta öðruvísi. Við höfum ákveðið að láta tölurnar í fjárlögunum tvöfaldast.
    Og ef þetta, virðulegur forseti, er ekki umræða um þingsköp, þá veit ég ekki um hvað slíkar umræður eiga að snúast. Þessi umræða hér snýst um það eingöngu hvort hæstv. ríkisstjórn ætlar að leggja málið fyrir Alþingi ef framhald á að vera á því að innheimta jöfnunargjaldið eða hvort hæstv. ríkisstjórn ætlar að láta undir höfuð leggjast að gera það, ná inn helmingi meiri peningum en hæstv. ríkisstjórn og Alþingi ætlaðist til þegar fjárlög voru samþykkt fyrir síðustu jól. Um þetta snýst málið.
    Ég hef ekkert rætt hér um efnisatriði málsins, að öðru leyti, vegna þess að ég er hér að ræða um

þingsköp. Um efnisatriðin get ég rætt við annað tækifæri.