Byggingarsjóður ríkisins
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Margt fróðlegt kom fram í ræðu hæstv. ráðherra en þau frýjuorð sem hann lét falla í minn garð um að ég hefði ekki haft neinar tillögur við fjárlagagerðina voru náttúrlega úr lausu lofti gripin. Hæstv. ráðherra veit betur. Þegar við hv. þm. fluttum hér á sinni tíð mjög viðamikið frv. um húsnæðismál, svokallað húsbankamál, sem hefði gripið mjög vel á þessu máli og hefur reynst afskaplega vel í Danmörku, var það fullnægjandi til þess að leysa þessa þörf. Og hæstv. ráðherra hefði betur mátt taka allt frv. og nota það en taka ekki bara einn hlutann út úr því þegar hæstv. ráðherra tók húsbréfin út úr því frv. og notaði sem nýtt kerfi hér. Þurft hefði að taka allt það kerfi upp og þá væri staðan e.t.v. öðruvísi og þá þyrftu enginn að bíða nema í þrjár vikur eins og hæstv. ráðherra kom hér inn á og benti á að þeir sem færu nú í húsbréfin þyrftu aðeins að bíða í þrjár vikur og var gott að vita að svo er, sem ég efast ekkert um. Sannleikurinn er hins vegar sá að við vorum með mjög viðamiklar tillögur í þessum málum og hefði verið hægt að fá hér bæði erlent fjármagn og setja þessi mál fram á þann hátt að húsbankar hefðu verið settir hér á stofn og það hefði leyst þennan vanda.
    Ég minni að lokum á það að enn þá er alveg ljóst að fjöldi fólks bíður í allverulegan tíma og það verður að leysa þessi mál með þeim hætti að menn séu ekki teknir sífellt fram fyrir í biðröðinni eins og hæstv. félmrh. hefur sagt hér á þinginu meira að segja við aðra þingmenn að þeir séu alltaf að taka menn fram fyrir í biðröðinni. Ég minni á það sem hæstv. félmrh. sagði um sendiherrann í París. Hæstv. ráðherra var að ásaka hann, að hann væri alltaf að taka menn fram fyrir í biðröðinni. Nú er hæstv. félmrh. alltaf að taka menn fram fyrir í biðröðinni og það er því svo að þetta kerfi er fyrst og fremst biðraðakerfi og sérstakt kerfi fyrir félmrh. til að mismuna fólki.