Utanríkismál
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Í 5. tölul. 19. gr. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er kveðið á um þá skyldu aðildarríkja stofnunarinnar að kynna löggjafarsamkomunni þær samþykktir og tillögur sem gerðar hafa verið á alþjóðavinnumálaþinginu. Þetta skal gert eigi síðar en innan árs frá slitum vinnumálaþingsins. Í samræmi við tilvitnuð ákvæði í stofnskrá ILO er nú lögð fyrir Alþingi skýrsla um 76. alþjóðavinnumálaþingið sem haldið var dagana 6.--27. júní 1989.
    Í skýrslunni er birt alþjóðasamþykkt sem þingið afgreiddi. Hér er um að ræða alþjóðasamþykkt nr. 169 um frumbyggja og ættflokka í sjálfstæðum ríkjum. Nýja samþykktin kemur í stað eldri samþykktar nr. 107 frá 1957, um frumbyggja og annað kynþáttafólk eða frumstætt innan sjálfstæðra ríkja. Sú samþykkt markaði á sínum tíma nokkur tímamót varðandi stöðu þjóðarbrota og ættbálka en er ekki lengur í hátt við breytta tíma, einkum að því er varðar varðveislu menningararfs og tungu. Kjarni þeirrar samþykktar var að gera þessum minnihlutahópum kleift að tileinka sér tungu og menningu meiri hlutans. Ekkert Norðurlandanna hefur fullgilt samþykkt nr. 107.
    Nýja alþjóðasamþykktin fjallar um almenna stefnumótun í málefnum frumbyggja og ættflokka í sjálfstæðum ríkjum og réttindi þeirra til afnota af landi. Í samþykktinni eru einnig settar fram reglur um verndun launafólks af þjóðflokkum sem gildissvið samþykktarinnar tekur til. Benda má í þessu sambandi á III. kafla samþykktarinnar.
    Í IV. kaflanum er fjallað um starfsþjálfun, handiðnir og iðnað í dreifbýli. Í þessum kafla er lögð áhersla á mikilvægi þess að viðhalda og efla iðnað og sjálfsþurftarbúskap sem tengdur er menningu hlutaðeigandi þjóðflokks.
    Kveðið er á um réttindi þjóðflokka til almannatrygginga og þjónustu á sviði heilbrigðismála í V. kaflanum. Þar er því slegið föstu að þeir eigi sama rétt og aðrir þegnar hlutaðeigandi ríkis.
    Mikilvægasta breytingin frá eldri samþykktinni frá 1957 kemur fram í VI. kaflanum um menntun og samskiptaleiðir. Í 28. gr. er dregið fram mikilvægi þess að viðhalda menningarlegum sérkennum þjóðflokka, m.a. með því að kenna börnum að lesa og skrifa á eigin tungumáli frumbyggja eða því tungumáli sem almennt er notað í þeim hópi sem þau tilheyra. Í samþykktinni frá 1957 lá áherslan á því að laga þjóðflokkana að tungu og menningu meiri hlutans.
    Í VII. til IX. kafla í samþykktinni er fjallað um stjórnsýsluleg atriði og almenn ákvæði sem snerta skuldbindingar samkvæmt samþykktinni. Allsherjarþing alþjóðavinnumálaþingsins samþykkti einróma tillögu frá fulltrúum ríkisstjórna Norðurlanda sem hvetur Alþjóðavinnumálastofnunina til að grípa til nauðsynlegra aðgerða í því skyni að fylgja eftir hinni nýju alþjóðasamþykkt sem er birt í heild sem fskj. I með þessari skýrslu.
    Á þessu stigi málsins er ekki lagt til að Ísland

fullgildi samþykktina. Þetta er gert með þeim fyrirvara að hægt sé að taka málið upp síðar þegar nánari athugun á efni og skuldbindingum samþykktarinnar hefur átt sér stað.
    Virðulegi forseti. Í skýrslu minni um 76. alþjóðavinnumálaþingið er fjallað um fleiri atriði en nýja alþjóðasamþykkt. Ég vil vekja sérstaka athygli á kafla 2.5. þar sem gerð er grein fyrir framkvæmd alþjóðasamþykkta og tillagna ILO. Í kaflanum er greint frá nokkrum málum sem vöktu sérstaka athygli og sagt frá alvarlegum brotum aðildarríkja á ILO-samþykktum. Í þeim hópi eru Mið-Afríkulýðveldið, Dóminíska lýðveldið, Ekvador, Kólumbía, Rúmenía og Tyrkland.
    Í þessum kafla er einnig greint frá kærumáli ASÍ á hendur íslensku ríkisstjórninni vegna setningar bráðabirgðalaga nr. 14/1988, um aðgerðir í efnahagsmálum. Rétt er að taka fram að kærumálið var ekki á meðal þeirra sem valin voru á málaskrá þingnefndar sem fjallar um framkvæmd alþjóðasamþykkta. En þar sem niðurstaða fékkst í þetta kærumál á sl. ári er gerð grein fyrir henni efnislega í kafla 2.5. í skýrslunni. Hins vegar eru birt bréfaskipti íslenskra stjórnvalda og Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um þetta mál í viðauka.
    Niðurstaða nefndar um félagafrelsi í máli Íslands er í stuttu máli sú að vakin er á því athygli að bráðabirgðalög nr. 14/1988 takmörkuðu rétt aðila vinnumarkaðarins til frjálsra kjarasamninga. Hún lýsir áhyggjum sínum af því að þetta var í níunda skiptið sem höfð voru slík afskipti á tíu árum. Hins vegar telur nefndin að þegar á heildina er litið hafi brýna þjóðarnauðsyn borið til að setja slíkar hömlur. Þær hafi verið settar aðeins að því marki sem nauðsynlegt var, þær hafi aðeins verið í gildi um sanngjarnan tíma og jafnframt þeim hafi verið gerðar viðunandi ráðstafanir til að tryggja lífskjör launafólks. Samkvæmt þessu telur nefndin að miðað við aðstæður og með tilliti til hliðaraðgerða brjóti lög nr. 14/1988 ekki í bága við alþjóðasamþykktir nr. 87, um félagafrelsi, og nr. 98, um réttinn til að stofna félög og semja sameiginlega.
    Þar sem Ísland hefur fullgilt bæði alþjóðasamþykkt nr. 87 og 98 var umrætt kærumál sent sérfræðinganefnd ILO um framkvæmd alþjóðasamþykkta til
umfjöllunar. Í sérfræðinganefndinni eiga sæti 20 fulltrúar skipaðir af stjórnarnefnd ILO. Þeir sem veljast til setu í sérfræðinganefndinni eru yfirleitt hæstaréttardómarar, dómarar í félagsdómum eða sérfræðingar í alþjóðalögum.
    Félmrn. barst bréf frá Alþjóðavinnumálaskrifstofunni, dags. 11. sept. 1989, sem hefur að geyma álit sérfræðinganefndarinnar. Sérfræðinganefndin kemst að svipaðri niðurstöðu og nefndin um félagafrelsi. Þó er í áliti hennar fjallað ítarlega um samráðsfundi sem haldnir voru með fulltrúum ASÍ fyrir setningu bráðabirgðalaganna og telur nefndin sér skylt að benda á að sú staðreynd að

svo djúpstæður ágreiningur ríkir um afstöðu málsaðila til samráðs bendi til þess að starfsreglum um samráð sé að einhverju leyti áfátt.
    Ég ætla ekki að fjölyrða um framangreinda niðurstöðu nefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar en þetta hlýtur að vera leiðbeinandi fyrir Alþingi og ríkisstjórn þegar hliðstæð mál koma upp í framtíðinni.
    Meðal þess sem gerð er grein fyrir í fylgiskjölum með skýrslunni um 76. alþjóðavinnumálaþingið eru athugasemdir sem sérfræðinganefnd Evrópuráðsins hefur gert um framkvæmd Íslands á félagsmálasáttmála Evrópu sem Ísland fullgilti árið 1976. Ástæðan er samkomulag sem félmrn. og heilbr.- og trmrn. gerðu í árslok 1987 um að fyrrnefnd ráðuneyti taki að sér umsjón með framkvæmd Íslands á félagsmálasáttmálanum.
    Helstu athugasemdir sem sérfræðinganefnd Evrópuráðsins gerir við framkvæmd Íslands á félagsmálasáttmála Evrópu varðar eftirtaldar greinar:
    Önnur mgr. 1. gr. um að réttur verkafólks til að vinna fyrir sér í starfi sem það hefur valið sér sé verndaður á raunhæfan hátt. Sérfræðinganefnd Evrópuráðsins gerir hliðstæðar athugasemdir við framkvæmd Íslands á þessu ákvæði og sérfræðinganefnd ILO gerir við framkvæmd á alþjóðasamþykkt nr. 105, um afnám nauðungarvinnu.
    Nefnd Evrópuráðsins harmar að ákvæði 81. gr. sjómannalaga skuli enn vera í gildi. Nefndin ítrekar það álit sitt að ákvæðið brjóti í bága við félagsmálasáttmálann. Svo fremi að ekki komi fram frekari upplýsingar geti nefndin ekki annað en staðfest fyrra álit sitt um að framkvæmd Íslands sé ekki í samræmi við ákvæði sáttmálans.
    Þess skal getið að lagt hefur verið fram á Alþingi frv. um að fella ákvæði 81. gr. úr sjómannalögunum.
    Ein athugasemd sérfræðinganefndarinnar snertir framkvæmd á ákvæðum 5. gr. félagsmálasáttmálans um réttinn til að stofna félög. Í skýrslu nefndarinnar segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin veitti sérstaka athygli athugasemdum í íslensku skýrslunni og viðbótarupplýsingum sem skýrðu ástandið hvað varðar rétt launamanna til að stofna eða ganga í stéttarfélög.
    Hún veitti því fyrst og fremst athygli að samkvæmt túlkun Hæstaréttar í desember 1988 á 73. gr. Stjórnarskrár Íslands er mönnum ekki tryggður réttur til þess að vera ekki félagar í stéttarfélagi. Auk þess taldi rétturinn að alþjóðlegir samningar, svo sem Evrópuráðssamningar um verndun mannréttinda og mannfrelsis, Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um almenn og pólitísk réttindi o.s.frv., ógiltu ekki sjálfkrafa ,,staðfest`` ákvæði Stjórnarskrárinnar.
    Nefndin taldi --- með tilliti til þess að frelsi manna til að ganga í stéttarfélög, sem tryggt er með ákvæðum 5. gr. sáttmálans, hlýtur að fela í sér að menn séu ekki með neinum hætti skyldir til að gerast eða vera áfram félagar í stéttarfélagi --- að skortur á viðeigandi vernd slíks frelsis í landslögum (hvort sem það stafar af því að viðeigandi lög hafa ekki verið sett eða fordæmisréttur löghelgar athæfi sem brýtur í

bága við rétt manna til að mynda með sér félög) geti ekki talist samrýmast ákvæðum 5. gr. sáttmálans.
    Nefndin veitti því enn fremur athygli að samkvæmt lögum nr. 64/1981 eiga aðeins félagar í stéttarfélögum rétt á atvinnuleysisbótum. Með tilliti til þess að það að svipta launamann rétti til fjárhagslegrar verndar ef hann er atvinnulaus er óverjandi ráðstöfun, sem hefur þann tilgang að neyða hann til að ganga í eða vera áfram félagi í stéttarfélagi, hlaut nefndin að komast að þeirri niðurstöðu að ofangreind lög brytu í bága við anda og bókstaf 5. gr. sáttmálans.
    Fram kemur í íslensku skýrslunni að í flestum almennum kjarasamningum er ákvæði þess efnis að félagar í stéttarfélögum skuli ganga fyrir um vinnu. Þótt heimild til slíkrar ráðstöfunar sé ekki að finna í lögum veitti nefndin því athygli að slík ákvæði um forgang hafa verið staðfest fyrir Félagsdómi. Nefndin taldi að slíkar lögþvinganir gagnvart launamönnum, sem óska ekki eftir að vera félagar í stéttarfélögum, gætu ekki talist vera í samræmi við ákvæði 5. gr. sáttmálans um rétt manna til að mynda með sér félög.
    Nefndin veitti því einnig athygli að í almennum kjarasamningum fólks, sem starfar í iðnaði og við verslunar- og skrifstofustörf, eru ákvæði þess efnis að viðkomandi fyrirtækjum sé ekki heimilt að ráða til starfa aðra en félaga í því stéttarfélagi sem það semur við um kaup og kjör. Nefndin taldi að lagasetning (eða skortur á lagasetningu), sem heimilar slíka ráðstöfun og er í
mótsögn við sjálft eðli þess frelsis að stofna félög, sem verndað er með ákvæðum 5. gr. sáttmálans, geti ekki talist til þess fallin að tryggja virka framkvæmd þeirrar meginreglu sem fólgin er í 5. gr.
    Af ofangreindum ástæðum komst nefndin að þeirri niðurstöðu að ástandið á Íslandi bryti enn í bága við ákvæði 5. gr. sáttmálans. Nefndin vonaði að í næstu skýrslu kæmi fram hvort höfnun launamanns á því að ganga í eða vera áfram félagi í stéttarfélagi gæti orðið til þess að honum yrði sagt upp störfum eða honum yrði mismunað með einhverjum hætti.``
    Í sambandi við þetta vil ég geta þess að félmrn. skrifaði helstu samtökum aðila vinnumarkaðarins bréf 24. okt. 1989 þar sem greint var frá athugasemdum Evrópuráðsins og jafnframt óskað eftir afstöðu þeirra til þess hvort nauðsynlegt væri að endurskoða lög nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.
    Heilbr.- og trmrn. var einnig skrifað bréf um svipað leyti þar sem greint er frá áliti sérfræðinganefndarinnar en á vegum þess ráðuneytis fer fram endurskoðun á lögum nr. 64/1981, um atvinnuleysistryggingar.
    Þriðja athugasemd sem sérfræðinganefnd Evrópuráðsins setur fram snertir framkvæmd 1. mgr. 13. gr. um að sérhverjum manni sem hefur ónóg fjárráð og ekki getur aflað sér þeirra af eigin rammleik verði veitt næg aðstoð.
    Í skýrslum Íslands um framkvæmd félagsmálasáttmálans hefur verið gerð grein fyrir ákvæðum laga um aðstoð við einstaklinga sem eru fjárvana, þar á meðal ákvæðum í framfærslulögum nr.

80/1947.
    Sérfræðinganefnd sem fer yfir skýrslur um framkvæmd sáttmálans hefur verið þeirrar skoðunar að Ísland framfylgi ekki 1. mgr. 13. gr. félagsmálasáttmálans vegna þess að í íslenska löggjöf vanti lagaákvæði sem heimili einstaklingi að áfrýja ákvörðun stjórnvalda sem eru ábyrg fyrir félagslegri aðstoð. Um þetta atriði var rætt á fundi embættismannanefndarinnar á vegum Evrópuráðsins sem fjallar um framkvæmd á félagsmálasáttmála Evrópu og haldinn var í janúar 1990.
    Embættismannanefndin er algjörlega sammála sérfræðinganefndinni að þessu leyti og telur að Ísland framfylgi ekki framangreindu ákvæði félagsmálasáttmálans fyrr en réttur einstaklinga til áfrýjunar hafi verið tryggður að lögum. Þar sem Evrópuráðið hefur lengi gagnrýnt Ísland fyrir að tryggja ekki þennan rétt einstaklinga er orðið mjög brýnt að breyta íslenskri löggjöf til samræmis við óskir Evrópuráðsins.
    Í frv. til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, sem enn hefur ekki verið lagt fram á Alþingi, er ákvæði um þetta efni. Verði frv. að lögum ætti gagnrýni Evrópuráðsins að verða úr sögunni a.m.k. að því er þetta atriði varðar.
    Annað atriði þessu tengt er framkvæmd Íslands á ákvæðum félagsmálasáttmála Evrópu sem tengjast sérstökum aðgerðum stjórnvalda til að vernda fjölskylduna sem hornstein þjóðfélagsins. Hér er um að ræða framkvæmd á 16. og 17. gr. sáttmálans. Skýrslur Íslands um framkvæmd þessara ákvæða hafa verið fáorðar. Sérfræðinganefnd Evrópuráðsins hefur margsinnis lagt fram fjölmargar spurningar um framkvæmd Íslands á ákvæðunum sem erfitt hefur verið að svara vegna þess að íslensk stjórnvöld hafa ekki mótað stefnu í fjölskyldumálum. Í frv. til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga er að ýmsu leyti að finna stefnumörkun í fjölskyldumálum. Einnig af þessari ástæðu er orðið mjög brýnt að afgreiða frv.
    Virðulegi forseti. Með aðild okkar að Alþjóðavinnumálastofnuninni og Evrópuráðinu höfum við samþykkt ákveðið alþjóðlegt eftirlit með aðgerðum okkar á sviði félagsmála. Við athugun á skýrslum Íslands og framkvæmd þeirra sáttmála sem við höfum fullgilt fer fram samanburður við önnur lönd. Það er mikilvægt að niðurstöður úr slíkum samanburði séu kynntar réttum aðilum þannig að bæta megi úr því sem miður fer. Það er ljóst að við Íslendingar verðum að gæta okkar mjög á því að dragast ekki aftur úr öðrum þjóðum varðandi ýmsa þætti félagslegs öryggis, einkum þegar litið er til annarra ríkja Evrópu. Ég bendi á svið eins og öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum, jafnréttismál, réttindi launafólks, vernd barna og unglinga og stefnu í fjölskyldumálum. Staðreyndin er sú að á öllum þessum sviðum er mikið að gerast, ekki síst í aðildarríkjum Evrópubandalagsins.
    Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu. --- [Fundarhlé.]