Vegáætlun 1989-1992
Mánudaginn 02. apríl 1990


     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Virðulegi forseti. Nú er tæpt ár síðan við samþykktum vegáætlun og þegar er henni riðlað. Það er dálítið erfitt fyrir landsbyggðarfólk að horfa upp á það og horfa til þess að framkvæmdir eigi að minnka við vegagerð. Eitt af því sem heitast brennur á landsbyggðarfólki, eins og reyndar allir hér munu vera sammála um, eru samgöngur. Góðar samgöngur eru undirstaða þess að atvinnulíf og mannlíf á landsbyggðinni þróist á eðlilegan hátt og þess vegna er sérlega erfitt að horfa upp á það að þeim góðu áformum sem voru og eru í vegáætlun þeirri sem hefur verið í gildi sé breytt.
    Ég vil nefna það að það er mikils vert þegar menn hugsa til þeirra áhrifa sem verkaskiptingin milli ríkis og sveitarfélaga hefur og sem henni er ætlað að hafa í þá veru að sveitarfélög sameinist fremur en hingað til hefur verið. Í rauninni er krafa stjórnvalda að þetta gerist og það er líka sýnilegt að eftir því sem tímar líða finna sveitarfélögin þörf til að eflast og stækka. Með aukinni samvinnu og jafnvel samruna þeirra hlýtur að liggja í augum uppi hvað það er mikils vert að samgöngur séu greiðar því undir þeim, ekki síst, er þessi samvinna komin. Þróun byggða í landinu hefur tekið miklum breytingum á síðari áratugum og við sjáum ekki glöggt á hvaða braut við erum í þeim efnum. Við vitum ekki hvar þetta endar. Og ég vil endurtaka það að kannski er það eitt allra brýnasta verkefnið sem við þurfum til að styðja við byggðina í landinu, eitt allra brýnasta verkefnið sem við þurfum að sinna, að sjá um að samgöngurnar séu sem greiðastar og bestar til þess að fólkið eigi auðveldara með að ná saman og vinna saman.
    Hæstv. samgrh. nefndi áðan að hann hefði sett á stofn nefnd sem hefði það hlutverk að finna nýjan grundvöll fyrir langtímaáætlun í vegamálum. Ég mundi vilja beina því til hæstv. samgrh. að ég held að það sé ekki síður nauðsynlegt að setja á stofn nefnd er hafi það verkefni að samræma samgöngumálin á landi,
á legi og í lofti og taka mið af því hvernig þessir þættir spila saman því með því einu að hafa alla þessa þætti í hendi sér er hægt að skipa þessum málum á sem hagkvæmastan og ódýrastan hátt.
    Frv. boðar okkur annað, þ.e. verulegan samdrátt í atvinnu á landsbyggðinni. Við vitum það að víða um landsbyggðina eru verktakafyrirtæki sem hafa unnið hjá Vegagerðinni, boðið í verkefni og unnið þau. Með verulegum samdrætti í vegafé hlýtur að liggja í augum uppi að atvinna minnkar og einnig hjá bílstjórafélögunum sem vinna við vegagerðina. Það er mikil spurning hvort það sé rétt frá þjóðhagslegu sjónarmiði þegar atvinnusamdráttur er að ríkið gangi á undan í því að draga úr atvinnunni. Margir hagfræðingar hafa haft það á orði að þegar samdráttur sé í atvinnu í þjóðfélaginu beri ríkinu að halda uppi atvinnu svo að ekki komi til stórfelldrar kreppu í þeim málum, kreppu sem vindur alltaf upp á sig og verður erfiðara og erfiðara að komast út úr.

    Ég vil nefna það í sambandi við frv. sem hér liggur fyrir og hefur lítillega verið skoðað af fjárveitinganefndarmönnum að gögn sem við höfum viðvíkjandi því eru verulega misvísandi. Það er alls ekki ljóst t.d. hvort 2% flatur niðurskurður á ríkisframkvæmdum á eftir að koma ofan á þær tölur sem eru á þessari breyttu vegáætlun og ég mundi vilja fá upplýsingar um það út frá hverju á að ganga í því.
    Það er nú svo að þrátt fyrir þennan niðurskurð á vegafé hefur samt sem áður aukist skattlagning á þá sem um vegina fara. Það var staðið að því hér fyrir nokkrum dögum að hækka bensíngjald. Ég verð að segja það að ég er í sjálfu sér ekki andvíg þeirri tekjuöflun fyrir ríkissjóð að leggja gjald á bifreiðar, en það er ýmislegt við þá skattlagningu að athuga og ekki síst hvernig þessum skattpeningum er varið. Við kvennalistakonur hefðum kosið að bifreiðagjald ákvarðaðist ekki einungis af þyngd bifreiða heldur einnig af verðmæti. Með því væru meiri tekjujöfnunaráhrif en því fyrirkomulagi sem nú er boðað. Það má líka segja að hæpið sé að leggja bifreiðagjald með fullum þunga á bifreiðar sem eru atvinnutæki, þar sem skattlagning er töluverð fyrir. En það sem vegur þyngst í því að ég er mótfallin því hvernig staðið var að þessum skatti er það að þrátt fyrir hækkun allra bifreiðaskatta er dregið úr framlögum til vegamála. Samkvæmt nýjum upplýsingum frá fjmrn. eru áætlaðar heildartekjur af bifreiðasköttum 5 milljarðar 395 millj. fyrir árið 1990. En framlög til vegamála fyrir árið 1990 eru 4 milljarðar 496 millj. Þarna munar 899 millj. af skattlagningu sem fer í aðra eyðslu ríkisins en til vegamála og guð má vita til hvers það fer, hvort það fer yfir höfuð til nokkurra verulegra framkvæmda.
    Þessu hljótum við að mótmæla því mér er ekki grunlaust um það að bifreiðaeigendur mundu með glaðara geði borga sína skatta ef þeir vissu fyrir fram að þeir færu til vegamála.
    Ég ætla ekki að lengja mál mitt frekar því að það er eftir að fjalla um þessa breyttu vegáætlun í fjvn. og ég vænti þess að geta komið með athugasemdir seinna.