Grunnskóli
Miðvikudaginn 04. apríl 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um grunnskóla og má segja að í grundvallaratriðum hvíli þetta frv. á sömu meginforsendum og gildandi grunnskólalög. Breytingin frá gildandi lögum kemur einna skýrast fram í yfirliti sem birt er í greinargerð frv. og ég mun hér rekja.
    Meginbreytingar frv. eru sem hér segir:
    1. Gert er ráð fyrir tíu ára grunnskóla en samkvæmt gildandi lögum er hann níu ár. Hér er fyrst um fremst um jöfnunaratriði að ræða þar sem meginhluti sex ára barna er þegar í skólum eða talsvert yfir 90%. Það eru börn í dreifbýli sem ekki fá kennslu strax sex ára eða svo litla og fáa tíma að vart kemur að notum.
    2. Í 3. gr. frv. er kveðið á um einsetningu skóla sem þýðir að hver bekkjardeild hafi sína stofu. Þetta er undirstaða þess að unnt sé að lengja viðverutíma barna í skólunum á sama tíma og þjóðfélagið byggir á þeirri forsendu að báðir foreldrar vinni utan heimilis. Með lengdum skóladegi er gert ráð fyrir því að unnt verði að sinna margvíslegum verkefnum í skólunum sem nú vinnst ekki tími til. Í ákvæði til bráðabirgða er við það miðað að þessu markmiði verði náð á tíu ára tímabili.
    3. Gert er ráð fyrir því að stofnað verði grunnskólaráð sem er samstarfsvettvangur þeirra aðila sem vinna að málefnum grunnskólans. Fulltrúar foreldrafélaga, kennarafélaga og kennaramenntunarstofnana verða í
grunnskólaráði, auk fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga, Námsgagnastofnunar og menntamálaráðuneytisins.
    4. Í frv. eru alls staðar felld út orðin ,,skipun`` og ,,setning`` og talað um ráðningu í staðinn. Er gert ráð fyrir því að skólastjórar annist ráðningu kennara og annarra starfsmanna skólanna en stjórnenda. Ráðning stjórnenda yrði í höndum fræðslustjóra í umboði menntamálaráðuneytisins. Að sjálfsögðu er miðað við að hlítt verði lagaákvæðum um réttindi kennara eins og þau eru nú. Er miðað við að útfærsla þessa lagaákvæðis verði í einstökum atriðum rædd við kennarasamtökin.
    5. Í frv. er gert ráð fyrir því að hámarksfjöldi nemenda í 1.--3. bekk verði lækkaður frá því sem nú er og er gert ráð fyrir því að þetta ákvæði komi til framkvæmda á fimm árum.
    6. Valddreifing er eitt einkenni frv. Þannig eru foreldrar og kennarar og einstakir skólastjórnendur kvaddir til verka oftar en í gildandi lögum. Þetta kemur m.a. fram í auknum verkum fræðslustjóra og fræðsluskrifstofa og skólastjórnenda. Þetta birtist líka í því að gert er ráð fyrir því að skipta stærstu sveitarfélögunum í skólahverfi þar sem hvert hverfi hafi sína skólanefnd. Er það síðastnefnda í samræmi við frv. sem lagt var fram í efri deild Alþingis í fyrra frá þingmönnum úr öllum flokkum. Í frv. er ekki gerð tillaga um að kennarar og foreldrar eigi fulla aðild að skólanefndum og fræðsluráðum. Stafar þetta af því að

fylgt er út í hörgul þeim breytingum á grunnskólalögum sem gerðar voru á síðasta þingi varðandi breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég tel hins vegar æskilegt að Alþingi taki afstöðu til þess hvort ekki er rétt og nauðsynlegt að tryggja foreldrum og kennurum fulla aðild að fræðsluráðum og skólanefndunum.
    7. Í frv. er gert ráð fyrir náms- og starfsráðgjöf í skólunum bæði til þess að tengja þá umhverfi sínu en ekki síður til þess að búa nemendur betur undir framhaldsnám en nú er gert í grunnskólanum. Þá er í frv. gert ráð fyrir að nemendaverndarráð hafi samræmingarhlutverk vegna einstakra nemenda sem njóta þjónustu sérfræðinga og sérkennara.
    8. Þá er gert ráð fyrir því að ákvæðin um tímafjölda á hvern nemanda sem nú eru í grunnskólalögum verði lágmarksákvæði þannig að ekki verði heimilt að bjóða minni kennslu handa nemendunum en grunnskólalög kveða á um.
    Þetta eru, herra forseti, meginbreytingarnar í frv. Mun ég nú víkja að tildrögum þess að frv. þetta var samið og síðan að einstökum greinum frv.
    Í frv. er, eins og þegar hefur komið fram, kveðið á um margvíslega nýja þætti í starfi grunnskólans en í meginatriðum byggir frv. á gildandi grunnskólalögum sem hafa reynst vel eins og þau voru sett árið 1974. Samkvæmt þessu meginatriði er markmiðsgrein laganna óbreytt. Frv. er lagað að ákvæðum IV. kafla laga nr. 87/1989, um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Í bráðabirgðaákvæði er kveðið á um að þær nýjungar sem frv. gerir ráð fyrir komi til framkvæmda á allt að tíu árum, eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum.
    Þetta frv. er aðallega samið í menntmrn. í september og október 1989 af starfshópi sem skipaður var Gerði G. Óskarsdóttur, Hrólfi Kjartanssyni, Kolbrúnu Gunnarsdóttur, Sigurði Helgasyni, Sólrúnu Jensdóttur og Örlygi Geirssyni. Áður hafði verið lagt fram til kynningar á Alþingi vorið 1989 frv. til laga um breytingar á lögum nr. 63/1974, um grunnskóla, sem var samið af sama starfshópi. Við samningu þessa frv. sem hér liggur fyrir hafði starfshópurinn samstarf við fjöldamarga aðila og tók mið af fyrirliggjandi
tillögum að breytingum á lögunum, frv. til laga að nýjum grunnskólalögum og frv. til laga um breytingar á grunnskólalögum sem lögð hafa verið fyrir Alþingi á síðasta áratug.
    Þar má nefna tillögur nefndar sem skipuð var í maí 1979 til þess að endurskoða grunnskólalögin. Það má nefna ábendingar frá ráðstefnu í Munaðarnesi 29.--30. okt. 1981. Það má nefna frv. til laga um breytingar á grunnskólalögum frá Ingvari Gíslasyni menntmrh. 1983, frv. til laga um breytingar á grunnskólalögum sem flutt var af Skúla Alexanderssyni, Þórði Skúlasyni og Sveini Jónssyni 1986, frv. til laga um breytingar á grunnskólalögum sem flutt var af Salome Þorkelsdóttur 1986, frv. til laga um grunnskóla frá Sverri Hermannssyni menntmrh. 1987, frv. til laga um breytingar á grunnskólalögum flutt af Salome

Þorkelsdóttur, Valgerði Sverrisdóttur, Guðrúnu Agnarsdóttur, Margréti Frímannsdóttur og Guðmundi Ágústssyni 1988, frv. til laga um breytingar á lögunum sem flutt var af Ragnhildi Helgadóttur, Birgi Ísl. Gunnarssyni og Þorsteini Pálssyni 1988 og frv. til laga um breytingar á grunnskólalögum sem flutt var af Guðrúnu Agnarsdóttur og Danfríði Skarphéðinsdóttur 1988 og svo frv. og seinna lög um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
    Starfshópurinn sem fjallaði um málið ákvað að senda fyrstu drög að frv. eins og þau lágu fyrir til fjölmargra aðila sem voru beðnir um umsagnir. Þessir aðilar voru m.a. Bandalag kennarafélaga, Félag skólastjóra og yfirkennara, fræðslustjórar, Kennaraháskóli Íslands, Samband ísl. sveitarfélaga, Félag ísl. skólasálfræðinga, Félag námsráðgjafa og Félag skólasafnskennara. Fulltrúar allra þessara aðila komu á heilsdags fund með starfshópnum 20. febr. 1989 og skiluðu athugasemdum og gerðu grein fyrir þeim. Starfshópurinn sem nefndur var hér á undan vann síðan úr athugasemdunum og skilaði tillögum sínum að frv. til menntmrh. 20. mars 1989.
    Skömmu eftir að ég hafði lagt frv. fram á Alþingi til kynningar sl. vor sendi ég það eftirtöldum aðilum til enn frekari skoðunar: Kennaraháskóla Íslands, Háskóla Íslands, Bandalagi kennarafélaga, Félagi skólastjóra og yfirkennara, Skólameistarafélagi Íslands, Námsgagnastofnun, Sambandi ísl. sveitarfélaga, fræðslustjórum, fræðsluráðum, Félagi ísl. skólasálfræðinga, Félagi ísl. námsráðgjafa, Félagi skólasafnskennara, Fóstrufélagi Íslands, Fósturskóla Íslands, Sálfræðingafélagi Íslands og Stéttarfélagi ísl. félagsráðgjafa.
    Ég vil taka það fram, virðulegi forseti, að allar þær umsagnir sem hér um ræðir verða lagðar fram fyrir hv. nefnd sem kemur til með að fjalla um málið auk þess sem einstakir þingmenn geta þegar í stað fengið umsagnirnar í hendur ef þeir óska eftir.
    Vegna þeirra fjölmörgu tillagna sem bárust um breytingar á frv. því sem ég lagði fram til kynningar hér í þinginu vorið 1989 og með tilliti til þess að lög nr. 87/1989, um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, breyttu ákvæðum nálægt 20 greina í gildandi lögum ákvað ég að leggja fram nýtt frv. til laga um grunnskóla. Fól ég starfshópnum í byrjun september að semja drög að því. Þetta frv. var síðan fullbúið í lok september sl. og var lagt fyrir ríkisstjórnina 12. okt. 1989 og hefur nú legið hér frammi á borðum þingmanna um tíu daga skeið eða svo.
    Ég hef gert grein fyrir helstu breytingunum sem í frv. felast og aðdragandanum að því. Ég hygg að menn sjái að hér hafa menn lagt sig eftir því að taka mið af þeim tillögum, hugmyndum og umræðum sem fram hafa farið um breytingar á grunnskólalögum á undanförnum árum þó svo það sé hins vegar ljóst að við hefðum kannski viljað taka ýmsar aðrar breytingar inn en gerðum ekki, fyrst og fremst vegna þess að við þræddum með samviskusemi nýju lögin um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og tókum hvergi

inn ákvæði sem eru íþyngjandi fyrir sveitarfélögin.
    Það er hins vegar vert að minna á það í þessu sambandi, virðulegi forseti, að á yfirstandandi þingi hefur verið rætt um nokkra þætti varðandi breytingar á grunnskólalögum sem mundu, ef samþykktir yrðu, hafa í för með sér nokkra íþyngingu fyrir sveitarfélögin. Á ég þá ekki síst við till. til þál. um skólamáltíðir sem flutt var af nokkrum þingmönnum Framsfl. og rædd hér fyrir nokkrum vikum. Ég tel eðlilegt að Alþingi taki afstöðu til þessara tillagna allra í tengslum við umræðurnar um grunnskólalögin og teldi í raun og veru slæmt ef menn þyrftu að taka einstakar tillögur út úr. Skynsamlegra væri að skoða málið í heild. Ég vil þó segja það að ég held að það orki tvímælis fyrir Alþingi um leið og afgreidd eru grunnskólalög að taka inn ákvæði sem yrðu íþyngjandi fyrir sveitarfélögin án þess að fyrir liggi sú afstaða sveitarfélaganna að þau gætu fyrir sitt leyti fallist á þá breytingu sem í lagaákvæðinu fælist.
    Mun ég nú, herra forseti, víkja að einstökum greinum frv. og þá fyrst að 1. gr. þess. Þar er gert ráð fyrir því að lögleidd verði skólaskylda 6 ára barna. Með því að færa núverandi forskóla 6 ára barna inn í grunnskólann er verið að svara kröfum tímans um aukinn þátt skólanna í uppeldi og fræðslu á þessu
aldursstigi. Forskólanefnd á vegum menntmrn. lagði til 1981 að lögfesta fræðsluskyldu 6 ára barna og stefna að skólaskyldu þessa aldurshóps. Sérstakur starfshópur ráðuneytisins um forskólann lagði til 1984 og 1986 að komið yrði á skólaskyldu 6 ára barna og þau þannig viðurkennd sem fullgildir nemendur grunnskólans. Undir þetta tóku allir þáv. fræðslustjórar landsins.
    Í frv. til laga um grunnskólann 1987 var lagt til að lögfesta fræðsluskyldu 6 ára barna og í frv. til laga um breytingu á lögum um grunnskólann 1988 var lagt til að lögfesta þessa skólaskyldu. Í skólastefnu Kennarasambands Íslands hefur verið lögð áhersla á fræðsluskyldu 6 ára barna um langt árabil. Í nágrannalöndum okkar hefur þessu verið á ýmsan veg farið. Í Svíþjóð er fræðsluskylda fyrir 6 ára börn og í Bretlandi hefst skólaskylda við 5 ára aldur svo að dæmi séu tekin. Hins vegar hefst skólaskylda í Noregi enn við 7 ára aldur. Í þessari grein eru undanþáguákvæði frá skólaskyldu og eru þau óbreytt frá gildandi lögum.
    Eins og sakir standa sækja 95% 6 ára barna forskóla. Kennslumagn fyrir 6 ára börn er miðað við fjölda þeirra í viðkomandi skóla, þ.e. ein stund á viku fyrir hvert barn. Þetta þýðir að nemendum er mismunað stórlega þar sem kennslustundir geta verið allt frá einni stund á viku í minnstu skólunum upp í 20 stundir í þeim stærstu.
    Markmiðsgrein frv. er óbreytt markmiðsgrein grunnskólalaganna frá 1974.
    Í 3. gr. eru gerðar breytingar til samræmis við breytingar á 1. gr. og talað um tíu ára skóla. Núverandi 6 ára bekkur verður 1. bekkur, 1. bekkur verður 2. bekkur o.s.frv. Sveitarstjórnum er gert samkvæmt þessari grein að ákveða í samráði við

menntmrn. hvort skóli skuli starfa sem ein stofnun eða vera skipt í einingar en þó er stefnt að heildstæðum skóla, þ.e. skóla þar sem starfræktir eru allir bekkir grunnskólans frá 1. til 10. bekkjar undir einni stjórn. Einnig er gert ráð fyrir þeim nýmælum í þessu frv. að skólar skuli vera einsetnir, þ.e. að hver bekkjardeild hafi sína skólastofu og séu þær því sem næst jafnmargar og bekkjardeildirnar í viðkomandi skóla, auk sérgreinastofanna.
    Í greininni eins og hún lítur hér út er gert ráð fyrir að stefnt skuli að því að hver grunnskóli verði heildstæður og einsetinn og nemendur verði ekki fleiri en 650.
    Í 4. gr. frv. eru nánast óbreytt ákvæði frá því sem er í gildandi lögum. Þó er gert ráð fyrir því að frumkvæðið að því er varðar heimanakstur til aðalskóla verði fært frá ráðuneytinu til sveitarstjórna og í greininni eru þau nýmæli að gert er ráð fyrir því að ákvörðun um þessi mál og frumkvæði verði að vera á vegum sveitarstjórna.
    Í 5. gr. frv. er gert ráð fyrir því að fella brott ákvæði sem ekki eiga lengur við vegna laga um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
    Í 6. gr. frv. eru þær breytingar einar gerðar að gert er ráð fyrir því að skólastjóri hafi samvinnu við starfsmenn ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu og skólanefnd um lausn mála áður en málum yrði vísað til fræðslustjóra.
    Í 7. gr. eru ákvæði um það hvaða börn geta verið undanþegin því að sækja grunnskóla og eru þau ákvæði nákvæmlega samhljóða því sem er í gildandi lögum.
    Í 8. gr. eru gerðar nokkrar brtt. við gildandi lög en greinin orðast svo í frv.: ,,Sæki forráðamaður skólaskylds barns um tímabundna undanþágu barnsins frá skólasókn er skólastjóra heimilt að veita slíka undanþágu í samráði við umsjónarkennara telji hann til þess gildar ástæður. Fræðslustjóra skal gert viðvart um slíkar undanþágur.``
    Hér er gert ráð fyrir þeirri breytingu að skólastjóri hafi að höfðu samráði við umsjónarkennara heimild til þess að veita þessa undaþágu frá skólasókn. Í gildandi lögum veitir fræðslustjóri slíkar undanþágur að fenginni umsögn skólastjóra og skólanefndar en það hefur reynst örðugt í framkvæmd. Hér er því gert ráð fyrir einföldun á málsmeðferð.
    Í 9. gr. frv. er um að ræða verulegar breytingar frá gildandi lögum að því er varðar yfirstjórn málaflokksins, einkum með því að gert er ráð fyrir að stofnað verði grunnskólaráð sem verði samstarfsvettvangur menntmrn., Sambands
ísl. sveitarfélaga, Námsgagnastofnunar og foreldra. Þessum samstarfsvettvangi er fyrst og fremst ætlað að samræma störf þeirra sem fjalla um málefni grunnskólans, stuðla að markvissara skólastarfi og auðvelda framþróun. Grunnskólaráð á að hafa yfirlit yfir gildandi lög og reglugerðir um grunnskólann og fylgjast með framkvæmd þeirra. Ég tel að við framkvæmd grunnskólalaganna væri það ákaflega mikilvægt fyrir menntmrh., hver sem hann er, að hafa

möguleika til að ráðfæra sig við grunnskólaráð, sérstaklega í erfiðum og flóknum málum. Í því sambandi vil ég t.d. nefna spurninguna um það hvort heimila á stofnun einkaskóla eða ekki þegar um slíkt er sótt. Þá er það afar gagnlegt fyrir ráðherrann, hver svo sem hann er, að geta ráðfært sig við stofnun eins og grunnskólaráð eins og hér er gerð tillaga um.
    Í 10. gr. er gerð tillaga um skiptingu landsins í fræðsluumdæmi. Breytingin er í raun og veru sú að bæta nýjum kaupstöðum við upptalninguna sem er í gildandi lögum.
    1. og 2. málsgr. 11. gr. eru samhljóða ákvæði í 11. gr. grunnskólalaga eftir þá breytingu sem gerð var með lögunum um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Felld eru niður ákvæði um fundi fræðsluráðs enda eiga þau betur heima í reglugerð. Gert er ráð fyrir að fræðslustjóri hafi rétt til setu á fundum fræðsluráðs þó hann sé ekki framkvæmdastjóri þess, sbr. 12. gr. Í greinina er síðan bætt við ákvæði um það að allur kostnaður við fræðsluráð greiðist af viðkomandi sveitarfélögum eða samtökum þeirra.
    12. gr. frv. er efnislega samhljóða 12. gr. grunnskólalaga eftir þá breytingu sem gerð var í fyrra vegna breyttrar verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga. Þó er fyrra hluta 2. málsgr. laganna sem fjallar um að fræðsluráð skuli vera fræðslustjóra til ráðuneytis um dagleg stöf hans breytt þannig að í staðinn koma ákvæði um samvinnu fræðsluráðs og fræðslustjóra um stefnumörkun skólamála í viðkomandi fræðsluumdæmi.
    13. gr. gerir ráð fyrir þeirri breytingu sem stafar af lögunum nr. 87/1989, þ.e. að fræðslustjórar hafa verið nú frá síðustu áramótum starfsmenn menntmrn. Þess vegna þykir eðlilegt að fræðsluráð séu umsagnaraðilar þegar ráða á fræðslustjóra í stað þess að gera tillögur þar um eins og verið hefur.
    14. gr. frv. er efnislega samhljóða gildandi lögum og þeirri breytingu sem ákveðin var á þeim á síðasta þingi.
    15. gr. er í meginatriðum samhljóða þeim breytingum sem ákveðnar voru á síðasta þingi. Þó er bætt inn ákvæði um að menntmrn. verði að samþykkja þau verkefni sem fræðsluskrifstofur taka að sér fyrir sveitarfélög eða samtök þeirra eða þessir aðilar taka að sér fyrir fræðsluskrifstofur.
    Í 16. gr. frv. er fjallað um skipan skólanefnda í sveitarfélögum með yfir 10 þús. íbúa eða eins og greinin er orðuð: ,,Skólahverfi er sú eining sem stendur að einum grunnskóla eða fleiri. Sveitarfélög geta sameinast um rekstur grunnskóla og mynda þá eitt skólahverfi.
    Sveitarfélag sem rekur tvo eða fleiri grunnskóla telst eitt skólahverfi séu íbúar færri en 10 þús. Fjölmennari sveitarfélögum skal skipta í skólahverfi og annast viðkomandi sveitarstjórn þá skiptingu með samþykki menntmrn. Við þá skiptingu skal miða við að íbúar í hverju skólahverfi séu að jafnaði ekki fleiri en 15 þús. og ekki færri en 5 þús. Sama sveitarfélag getur átt aðild að fleiri en einu skólahverfi ef börn og unglingar á skólaskyldualdri úr viðkomandi sveitarfélagi eiga skólasókn til tveggja eða fleiri

skólahverfa.`` Þessi grein er í samræmi við frv. sem lagt var fram á Alþingi 1988 í hv. efri deild af þingmönnum úr öllum flokkum, 154. mál þess þings. Í grg. með því frv. sagði svo:
    ,,Tilgangur þessa frv. er að færa yfirstjórn skólamála, í þessu tilviki starf skólanefnda, nær vettvangi og auka lýðræði og áhrif íbúa skólahverfis á stjórn skóla og auðvelda þannig samstarf einstakra skóla og skólanefnda og gera það markvissara en nú er. Það er álit flm. að með þessum hætti aukist líkur á því að málefni einstakra skóla fái betri umfjöllun og afgreiðslu fyrr en nú er og einnig að íbúar einstakra íbúðarhverfa geti haft aukin áhrif á þróun skólamála í sínu nánasta umhverfi.``
    Þeir sem fluttu frv. á síðasta þingi höfðu einkum í huga þann vanda Reykvíkinga að Reykjavík er eitt skólahverfi samkvæmt gildandi grunnskólalögum. Þeir töldu þó að sami vandi gæti birst í öðrum byggðarlögum og því kæmi til greina að lækka viðmiðunartöluna 20 þús. t.d. í 10 þús. ef aðrir þingmenn teldu það til bóta eins og fram kom í umræðum. Í 16. gr. er miðað við 10 þús. íbúa og tekur því breytingin til Reykjavíkur og stærstu kaupstaða landsins.
    Í 17. gr. er um að ræða ákvæði sem eru lítið breytt efnislega eða óbreytt frá því sem er í gildandi lögum.
    Í 18. gr. er fjallað um skipan skólanefndanna. Þar er um að ræða nokkrar orðalagsbreytingar til samræmis við 16. og 17. gr. frv. Gert er ráð fyrir að skólanefndir í sveitarfélögum sem standa ein að skólarekstri skuli skipaðar fimm mönnum ef íbúar eru 500 eða fleiri í stað 900 áður. Ákvæði þess efnis að í Reykjavík fari fræðsluráð með hlutverk skólanefndar er fellt brott.
    Þær nýjungar eru svo teknar upp í þessari grein að foreldrar í hverju skólahverfi kjósi úr sínum hópi fulltrúa til starfa með skólanefnd. Enn fremur er ráðuneytinu gert skylt að leita tillagna samtaka kennara á grunnskólastigi áður en reglur eru settar um kosningu kennarafulltrúa í skólanefnd og ráðuneytið skal einnig setja reglur um kosningu foreldrafulltrúa.
    19. gr. er í raun og veru óbreytt frá því sem er í gildandi lögum og lögum um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
    Í 20. gr. er áréttað að skólastjóri er forstöðumaður þess skóla sem hann starfar við og stjórnar starfi hans. Staða skólastjóra hefur að mörgu leyti þótt óljós. Hér er leitast við að skýra hana og einfalda gildandi lagatexta til að taka af öll hugsanleg tvímæli.
    Í 21. gr. er lögð aukin áhersla á samskipti heimila og skóla og kennurum gert skylt að miðla fræðslu um skólamál til foreldra og veita upplýsingar um starfið í skólanum. Hér er að mínu mati um ákaflega mikilvægt ákvæði að ræða
sem mjög góð samstaða á að vera um hér á hv. Alþingi. Markmiðið er að foreldrar geti fylgst betur með námi barna sinna og þar með verið færari um að veita skólanum nauðsynlegt aðhald og hafa áhrif á skólastarfið.
    Í 22. gr. eru gerðar nokkrar orðalagsbreytingar frá

gildandi lagatexta varðandi nemendaráð. Heimildin tekur til allra grunnskólanema í stað nemenda í 7.--9. bekk eins og það er í gildandi lögum.
    23. og 24. gr. eru lítt breyttar frá því sem er í gildandi lögum um grunnskóla, samkvæmt þeim breytingum sem gerðar voru á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga á síðasta þingi.
    Í 25. gr. er skólahúsnæði skilgreint. Þar er lögð sérstök áhersla á mikilvægi skólasafns, aðgengi og aðstöðu fatlaðra, aðstöðu fyrir nemendur til náms og hvíldar og aðstöðu til að neyta málsverðar og húsnæði til sérkennslu og ráðgjafarþjónustu.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að menntmrn. ákveði í reglugerð hvaða búnaður og kennslutæki skuli vera í skólum miðað við stærð þeirra og hlutverk. Auk þess er gert ráð fyrir því að menntmrn. beiti sér fyrir að gerðar verði framkvæmdaáætlanir um skólabyggingar sem miðist við einsetinn skóla, sbr. 3. gr. frv.
    Í 26. gr. er gert ráð fyrir nokkrum breytingum og að 2. mgr. gildandi lagagreinar um þetta efni falli niður en í staðinn komi ákvæði um að tillöguuppdrættir að gerð skólamannvirkja skuli kynntir opinberlega í viðkomandi skólahverfi til þess að foreldrar og aðrir íbúar hafi tækifæri til að gera athugasemdir og koma með ábendingar. Einnig er gert ráð fyrir því að viðkomandi skólastjóri og fulltrúar kennara séu með í ráðum við hönnun skólahúsnæðis því að sjálfsagt þykir að þeir sem í skólunum starfa hafi áhrif á gerð húsnæðis vegna sérþekkingar sinnar. Þá er einnig ákvæði í greininni um að áður en framkvæmdir hefjist skuli leita eftir samþykki menntmrn. í samræmi við lagabreytingar sem samþykktar voru á síðasta þingi. Eðlilegt þykir að menntmrn. fái upplýsingar um fyrirhuguð skólamannvirki í tvíþættum tilgangi. Í fyrsta lagi til þess að unnt sé að koma á framfæri athugasemdum vegna lágmarkskrafna um aðbúnað og vinnuaðstöðu til kennslu og í öðru lagi að ráðuneytið geti með nægilegum fyrirvara tekið afstöðu til þess kostnaðar við kennslu og fleira sem af byggingu skólans leiðir.
    27. gr. er samhljóða gildandi lögum og hið sama er að segja um 28. og 29. gr.
    30. gr. fjallar um starfslið grunnskóla. Þar er lagt til að heiti IV. kafla breytist frá gildandi lögum og verði einfaldlega starfslið grunnskóla. Þar er vitnað til laga nr. 48/1986, um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra. Í þessu frv. eru alls staðar, eins og ég sagði áður, herra forseti, felld út ákvæði um setningu og skipun en í stað þess er gert ráð fyrir ráðningu starfsmanna í skóla. Þá er það nýmæli að kennararáð geri tillögu til menntmrn. um ráðningu skólastjóra auk skólanefndar og fræðslustjóra.
    Í 31. gr. verður sú breyting að starfsheitinu yfirkennari er breytt í starfsheitið aðstoðarskólastjóri til þess að undirstrika að þessi starfsmaður er fyrst og fremst aðstoðarmaður skólastjóra. Þá er fellt niður ákvæði um að ráðherra sé skylt að fara eftir tillögum umsagnaraðila ef þeir eru sammála um að mæla með ákveðnum umsækjanda í stöðu aðstoðarskólastjóra þar

sem ekki þykir ástæða til það hafa þau sérákvæði um þessa starfsmenn eingöngu.
    Í 32. gr. er fjallað um ráðningu starfsliðs skólanna. Nú er ráðningu þannig háttað að menntmrn. setur eða skipar kennara að fengnum tillögum skólastjóra, skólanefndar og fræðslustjóra. Þrátt fyrir þessi ákvæði hefur ráðning kennara raunverulega verið í höndum skólastjóra. Breytingin er því fyrst og fremst formleg og rétt þykir að það fyrirkomulag verði lögfest. Það er gert ráð fyrir því að skólastjóri ráði kennara, námsráðgjafa og skólasafnverði í samráði við skólanefnd og geti þessir aðilar vísað hugsanlegum ágreiningi til menntmrn. með greinargerð. Takist ekki að fá kennara með réttindi til að sækja um auglýsta stöðu þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir skal skólastjóri sækja um undanþágu til að ráða tiltekinn starfsmann til kennslustarfa í samræmi við 13. gr. laga nr. 48/1986, um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra. Fræðslustjórar munu síðan staðfesta ráðningarsamninga í umboði menntmrn.
    Í 33. gr. verður sú breyting að fræðslustjórar auglýsa stöður við grunnskóla í stað ráðuneytisins. Stöður við grunnskóla hafa allar verið auglýstar í gegnum ráðuneytið sem nú flyst til fræðslustjóra og fræðsluskrifstofa. Þá er gert ráð fyrir því í frv. að gengið verði frá ráðningu fyrir 1. maí í stað 1. júlí til þess að ráðningum sé lokið áður en skólastarfi lýkur að vori og þar með sé hægt að skipuleggja næsta skólaár fyrr en nú.
    34. gr. er í samræmi við breytt lagaákvæði um verkaskiptingu ríkis- og sveitarfélaga.
    35. gr. er óbreytt.
    Í 36. gr. er lítils háttar breyting þar sem gert er ráð fyrir að skilyrði fyrir kennsluafslætti við 55 og 60 ára aldur verði 10 ára kennsluferill í stað
20 ára og skal bent á að hjá framhaldsskólakennurum er kennsluafsláttur vegna aldurs ekki bundinn við lengd starfsferils.
    Í 37. gr. er orðalagi breytt í samræmi við lögin um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra. Og rétt er að taka fram, vegna þess orðalags sem er í greininni, að þegar talað er um fastan kennara í 1. málsgr. er átt við kennara sem ráðnir eru í hálft starf eða meira.
    Í 38. gr. er sú breyting gerð að skólastjórar eigi að velja umsjónarkennara í samráði við kennararáð eða kennarafund til þess að tryggja að kennarar séu með í ráðum þegar valdir eru umsjónarkennarar.
    Í 39. gr. er um að ræða tillögu um einföldun á gildandi lagaákvæðum um orlof. Í stað orðsins ,,orlof`` er alls staðar í þessu frv. notað orðið námsleyfi sem undirstrikar enn betur markmið greinarinnar og í stað orlofstíma er talað um leyfistíma af sömu ástæðu.
    Ég tel ekki ástæðu til að fara hér yfir 40. gr. frv.
    41. gr. er mjög mikilvæg. Hún fjallar um starfstíma grunnskóla, námsefni og kennsluskipan. Í greininni segir svo:

    ,,Reglulegur starfstími grunnskólanemenda skal vera 9 mánuðir á hverju skólaári og hefjast 1. september en ljúka 31. maí.
    Með hliðsjón af atvinnuháttum og aðstæðum í einstökum skólahverfum getur fræðslustjóri veitt tímabundna undanþágu frá framangreindum ákvæðum. Æski skólanefnd að hluta námsskyldu barna sé fullnægt með sumarskóla getur menntmrn. heimilað það, að fenginni umsögn fræðsluráðs. Skipan þessara mála skal nánar ákveðin með reglugerð og skóladagatali sem ráðuneytið gefur út árlega.``
    Í grg. með frv. er birt nokkuð fróðleg tafla um þessi mál þar sem sést hvernig þau hafa þróast og með hvaða hætti lagt er til að þau verði í frv.
    Í gildandi lögum er reglulegur starfstími grunnskóla mismunandi eftir skólahverfum og er hann 7--9 mánuðir. Í greinargerðinni er birtur samanburður á starfstíma skólanna eftir mánuðum árin 1973 og 1974 annars vegar og 1988 og 1989 hins vegar. Þar kemur í ljós að 1973--1974 voru aðeins 57% nemenda í skólanum í 9 mánuði alls en á tímanum frá 1974 hefur tíminn lengst í skólum þannig að núna er þetta hlutfall orðið 77%, hlutfall sem var 57% áður.
    Í öðru lagi kemur fram að sá fjöldi nemenda sem eru 8 1 / 2 mánuð í skólanum hefur breyst lítið á tímanum. Þeir sem eru 8 mánuði eru mikið færri en þeir voru áður og hið sama er að segja um þá sem eru skemur en 8 mánuði.
    Í 42. gr. er kveðið nánar á um þau meginatriði sem fjallað er um í 2. gr. frv. Þessi grundvallaratriði og grundvallarmarkmið grunnskólalaganna eru sameiginleg öllum námsgreinum og koma ekki einungis fram í venjulegri kennslu heldur í öllu starfi skólans. Hér er fyrst og fremst lögð aukin áhersla á þessi atriði með ákvæðum 42. gr. og tekið tillit til þeirrar þróunar sem orðið hefur frá setningu laganna 1974 fremur en að um efnisbreytingu sé að ræða. Í greininni er gert ráð fyrir því að í stað orðsins ,,kennslufræði`` í gildandi lögum verði notað orðið ,,kennsluskipan``. Með því er verið að leggja áherslu á aukið, faglegt sjálfstæði skólanna. Í stafliðum a-i í þessari grein eru ákvæði um hvaða markmið og inntakslýsingar skuli setja í aðalnámsskrá. Hér er ekki um efnislegar breytingar að ræða þótt uppröðun sé lítillega breytt frá gildandi lagagrein. Aukin áhersla er lögð á hlut skólans í því að stuðla að heilbrigði og hollustu.
    Síðasta mgr. frv. er viðbót við gildandi lagaákvæði. Þetta ákvæði er nú í lögum um Námsgagnastofnun en þar sem það varðar ekki síður ýmsa aðra útgefendur námsefnis þykir rétt að hafa það ákvæði í grunnskólalögum. Í tillögu um breytingar á lögum um Námsgagnastofnun sem er til meðferðar hér á hv. Alþingi er gert ráð fyrir því að þetta ákvæði falli út.
    Í 43. gr. er gerð sú áherslubreyting frá gildandi lögum að tómstunda- og félagsstarf fari ekki fram aðeins utan venjulegs skólatíma heldur að tómstunda- og félagsstarf geti einnig verið liður í venjulegu, daglegu starfi. Síðasta mgr. um kennaranámskeið á vegum menntmrn. er felld brott enda eru slík

námskeið fremur verkefni stofnana sem annast kennaramenntun en ráðuneytisins.
    Í 44. gr. er um að ræða talsverða breytingu frá því sem er í gildandi lögum. Í greininni segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Við ákvörðun daglegs og vikulegs starfstíma nemenda í grunnskóla skal þess gætt að í heild fari hann (þ.e. kennslutími, stundahlé og sjálfsnám utan kennslustunda) ekki fram yfir hæfilegt vinnuálag miðað við aldur nemenda og þroska.
    Vikulegur kennslutími á hvern nemanda í grunnskóla skal að lágmarki vera þessi`` og síðan er það tilgreint fyrir hvern bekk, í 1. bekk þúsund mínútur o.s.frv. Síðan segir: ,,Skólastjóri ákveður lengd kennslustunda. Samfelld kennslustund má þó ekki vera lengri en 80 mínútur og ekki skemmri að jafnaði en 20 mínútur. Meðallengd kennslustunda í grunnskóla telst vera 40 mínútur.
    Stundahlé í grunnskóla skulu að jafnaði vera 15 mínútur á móti hverjum 100 mínútum sem kenndar eru.
    Daglegur kennslutími nemenda skal vera samfelldur með eðlilegum stundahléum og matartímum.``
    1. mgr. 44. gr. er óbreytt frá því sem er í gildandi lögum. Hér er um að ræða almennt ákvæði sem varðar vinnuálag á nemendur. Í 2. mgr. er orðalagið ,,sem næst`` fellt út en í stað þess sett lágmark í stafliðina a--j. Lágmarkskennsla sem nemendur í grunnskóla eiga rétt á verður þá ákveðnari en er kostur á samkvæmt gildandi lögum. Í þessu efni er einnig rétt að vísa til ákvæðis til bráðabirgða sem verður fjallað um hér á eftir.
    Í stafliðum a--j er lagt til að vikulegur skólatími yngri barna verði aukinn að lágmarki í 1000 mínútur eða 5 kennslustundir á dag að jafnaði miðað við 5 daga kennsluviku.
    Í töflunni sem birt er í grg. með frv. kemur fram samanburður á vikulegum kennslustundafjölda samkvæmt gildandi lögum, gildandi viðmiðunarstundaskrá, lágmarki samkvæmt 44. gr. þessa frv. og hámarki í ákvæðum til bráðabirgða í frv. þessu.
    Ef við lítum aðeins á gildandi grunnskólalög og 7 ára börnin þá gera þau ráð fyrir 22 tímum á viku. Viðmiðunarstundaskráin gerir ráð fyrir 22 tímum á viku. Þetta frv. gerir ráð fyrir 25 tímum á viku og hámarkið eftir aðlögunartímann yrði 35 stundir á viku. Þá er auðvitað ekki verið að tala um hefðbundna stundaskrárkennslu í 35 tíma heldur margvíslegar nýjar greinar sem skólinn mundi þá sinna eftir að skóladagurinn hefur verið lengdur, eins og list- og verkmenntagreinar af ýmsu tagi.
    Samkvæmt gildandi fjárlögum fyrir árið 1990 er gert ráð fyrir því að verja 41--42 millj. kr. til þess að lengja skóladaginn hjá yngstu börnunum. Í samræmi við það hefur hafist undirbúningur að því verkefni sérstaklega í menntmrn. þannig að unnt verði að tilkynna það skólunum núna á næstunni og fræðslustjórunum. Ég mun halda fund á fimmtudag og föstudag með öllum fræðslustjórum í landinu þar

sem farið verður yfir það hvernig verður háttað lengingu skóladagsins hjá yngstu börnunum. Við gerum ráð fyrir að lengingin eigi sér stað í 6 ára bekk, 7 ára bekk og 8 ára bekk, þ.e. 1., 2. og 3. bekk samkvæmt þessu frv.
    Í þessu sambandi er kanski rétt að nefna það, herra forseti, að auðvitað kann svo að fara að á þeim tíma sem eftir er af Alþingi nú treysti menn sér ekki til þess að afgreiða þetta frv. í heild. Ég vil þó leggja á það áherslu og fara fram á það við hv. menntmn. og hv. Nd. að kannað verði mjög alvarlega að afgreiða a.m.k. ákvæðin um skólaskyldu 6 ára barna þannig að sá þáttur verði afgreiddur fyrir næsta haust. Fyrir því er séð í fjárlögum ársins 1990 að fjármunir eru til að standa undir því að 6 ára börnin verði öll skólaskyld.
    Í 45. gr. eru óverulegar breytingar.
    Í 46. gr. eru aftur á móti nokkrar breytingar. Það er gert ráð fyrir því að meðaltal nemenda í bekk verði 24 í stað 28. Í raun og veru er með þessu verið að staðfesta þróun og veruleika sem þegar liggur fyrir. Meðalfjöldi nemenda í bekk hefur lækkað og er núna 22--24 nemendur í stærri skólum. Meðaltalið er auðvitað mikið lægra í fámennu skólunum í landinu. Í gildandi lögum er ákvæði um að nemendafjöldi í bekkjardeild fari ekki yfir 30. Sú tala gildir áfram um efri bekki grunnskóla en gert er ráð fyrir því að í 1.--3. bekk fari nemendafjöldi einstakra bekkja aldrei yfir 22. Eðlilegt er að í skólabyrjun þar sem grunnur er lagður að skólagöngu séu færri nemendur í bekk en þegar ofar dregur. Hvort tveggja er að nemendur þurfa meiri einstaklingsaðstoð þegar þeir eru yngri og mikilvægt að tryggja sem best grundvallarfærni, svo sem í lestri.
    Í þessu sambandi er hins vegar rétt að leggja á það áherslu að það er forgangsstefnuatriði menntmrn. um þessar mundir að lengja skóladaginn. Og það er útilokað að gera hvort tveggja í senn fyrir sömu krónuna, að lengja skóladaginn og fækka verulega í bekkjum.
    Við höfum ákveðið að taka lengingu skóladagsins fyrir yngstu börnin út úr og veita því algeran forgang í okkar áherslum í ráðuneytinu. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að hv. Alþingi átti sig á því að þetta er forgangsatriði og hlýtur að vera það og menn geta ekki á sama tíma stuðlað að þeirri fækkun í bekkjardeildum sem æskileg væri. Það er líka vert að benda á það í þessu sambandi, virðulegi forseti, hvernig þessum málum er háttað í grannlöndum okkar þar sem meðalfjöldi í bekk og hámark í bekkjardeild er yfirleitt svipað eða jafnvel heldur hærra en það er hér á landi.
    Í 46. gr. er bætt við nýrri mgr. sem heimilar skólunum að blanda saman aldurshópum. Margir skólar hafa þegar tekið upp slíkt skipulag, bæði tímabundið og til lengri tíma og í fámennum skólum er blöndun árganga reyndar alveg óhjákvæmileg. Blöndun árganga hentar vel til að ná ýmsum markmiðum náms og kennslu í grunnskólum, svo sem um félagsþroska, samvinnu og jafnrétti.
    Í 47. gr. er einnig miðað við samkennslu nemenda

í fámennum skólum sem er breyting frá því sem nú er og ber að leggja á hana alveg sérstaka áherslu.
    Í 49. gr. eru aldursákvæði nokkuð rýmkuð frá gildandi lögum auk þess sem ákvæðin um vorskóla eru felld niður þar sem þeir eru nú alls staðar aflagðir.
    Ég tel ekki ástæðu til að fara yfir 50. gr. frv.
    Í 51. gr. er tekið upp það nýmæli að námsráðgjafar skuli starfa við einstaka grunnskóla eða fræðsluskrifstofur og sinna ráðgjöf við nemendur um mál er tengjast námi þeirra. Hér er um að ræða náms- og starfsráðgjöf og persónulega ráðgjöf.
    Í 52. gr. er fjallað um nemendaverndarráð sem er ætlað að samræma skipulag og framkvæmd ýmiss konar þjónustu fyrir nemendur. Hér er átt við sérkennslu, námsráðgjöf, ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu og heilsuvernd.
    Í 54. gr. er nýtt ákvæði í 5. mgr. um að ekki verði heimilt að víkja nemanda úr skóla án þess að ráðstafanir séu gerðar til þess að tryggja honum skólavist annars staðar eða önnur úrræði. Þetta er nýmæli. Í gildandi lögum er heimilt að víkja nemendum úr skóla án þess að neinar upplýsingar liggi fyrir um það hvað um nemandann síðan verður. Tæplega verður sagt að það ákvæði gildandi grunnskólalaga sé í samræmi við anda þeirra.
    Í 57. gr. er aðalbreytingin sú að heimilt verði að fela ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu fræðsluskrifstofu að annast þjónustu við forskóla- og framhaldsskólastigið líka og það er mjög mikilvægt atriði að þessir faghópar sem munu tengjast skólunum í vaxandi mæli á komandi árum geti einnig sinnt verkefnum fyrir forskóla- og framhaldsskólastigið.
    Í 58. gr. sem er ný grein er gert ráð fyrir því að heimila rekstur kennslugagnamiðstöðvar við fræðsluskrifstofur og þjónustu við bókasöfn. Kennslumiðstöð Námsgagnastofnunar hefur starfað síðan 1983. Þar hefur verið haldið uppi öflugri kynningu og upplýsingastarfsemi og almennri þjónustu við starfsfólk skóla. Þegar er kominn vísir að svonefndum kennslugagnasöfnum við fræðsluskrifstofur utan Reykjavíkur. Nefnd sem skipuð var til að fjalla um kennslugagnamiðstöðvar í tengslum við fræðsluskrifstofur skilaði áliti fyrir stuttu og mælir mjög eindregið með frekari breytingu á þessu sviði. Alþingi samþykkti ályktun um málið vorið 1985 og menntmrn. hefur farið fram á fjárveitingar til að koma á fót og efla þá þjónustu sem kennslugagnamiðstöðvar í tengslum við fræðsluskrifstofur geta látið í té. Þessi grein miðar að því að staðfesta þá þróun sem þegar er orðin í því skyni að jafna aðstöðu skóla í landinu.
    Ég tel ekki ástæðu til þess að fjalla hér nánar um 59.--61. gr.
    Í 62. gr. er fjallað um námsmat. Hér er orðið ,,námsmat`` notað í stað orðsins ,,próf`` eins og það er í gildandi lögum enda er litið svo á að próf í venjulegum skilningi sé hluti af námsmati og ýmsar aðferðir aðrar en próf henti betur til að afla upplýsinga um sum markmið náms. Enn fremur eru felld út ákvæði um einkunnir og að vitnisburðir séu

færðir í prófbækur og einkunnabækur eins og um er að ræða í gildandi lögum.
    Í 63. gr. er meginbreytingin sú að ekki er lengur tiltekið í hvaða námsgreinum skuli halda samræmd próf. Þá er ekki lengur gert ráð fyrir stöðluðum prófum því að ákvæði laganna um stöðluð próf hefur ekki komið til framkvæmda, enda afar tímafrekt, kostnaðarsamt og vafi á að gagnsemi slíkra prófa réttlæti kostnaðinn.
    Í 66. og 67. gr. er fjallað um skólaþróun.
    Í 68. gr. er fjallað um þróunarsjóð grunnskóla. Þetta er ný grein. Þróunarsjóður grunnskóla hefur þegar verið stofnaður og var starfræktur í fyrsta sinn á árinu 1989. Í honum voru þá 4 1 / 2 millj. kr. Fé úr honum er úthlutað samkvæmt sérstökum reglum í samráði við hlutaðeigandi aðila. Á árinu 1990 var framlag í Þróunarsjóð grunnskóla tvöfaldað frá því sem það var á árinu 1989. Ef þingmenn óska eftir því þá er ég tilbúinn til þess að gera grein fyrir Þróunarsjóði grunnskóla í einstökum atriðum í tengslum við þessa umræðu. Þróunarsjóðurinn hefur ákaflega mikilvægu hlutverki að gegna við að styrkja nýjungar í skólastarfi og hann hefur mætt miklum áhuga og skilningi og velvilja af hálfu kennara og annarra aðstandenda skólanna.
    Fyrir utan þau ákvæði sem þarna er að finna um Þróunarsjóð grunnskóla er vert að vekja athygli á því að ráðuneytið hefur fyrir sitt leyti lagt á það áherslu að ýta undir tilrauna- og þróunarstarf í skólum víðs vegar um land. Ég gæti nefnt tugi dæma. Ég ætla aðeins að nefna tvö, annars vegar átak til jafnréttisfræðslu sem hefur verið í gangi í fræðsluumdæminu á Reykjanesi og ég vil síðan nefna það að á sl. hausti hófst tilraun í Fossvogsskóla með heilsdagsskóla. Þá var skólanum veitt aukið kennslumagn sem kostar 1,7 millj. kr. á þessu skólaári. Aðstæður í Fossvogsskóla eru nú þannig að allir nemendur geta verið samtímis í skólanum, fyrir hádegi, þannig að skólinn er einsetinn. Viðbótarkennslumagnið var notað til þess að lengja skóladag yngstu barnanna og eru 6--8 ára börnin 25 stundir á viku í skólanum þetta skólaárið. Við gerum ráð fyrir því að þessi tilraun standi um nokkurra missira skeið og að allir aldurshópar verði samtímis í skólanum en elstu tveir bekkirnir kæmu í skólann kennslustund fyrr en þau yngri. Menntmrn. fylgist með þessari tilraun. Í lengri skólatíma barnanna í Fossvogsskóla er miðað við að lenging skólatímans nýtist fyrst og fremst til þess að auka nám í list- og verkgreinum og við munum hagnýta okkur þær upplýsingar sem fást úr tilrauninni í Fossvogsskóla
þegar farið verður að lengja skóladaginn með kerfisbundnum hætti í framhaldi m.a. af samþykkt frv. til þessara grunnskólalaga sem ég er hér að mæla fyrir.
    Í 70. gr. frv. er fjallað um skólasöfn. Ég vil geta þess í þessu sambandi að hafin er vinna við undirbúning að setningu reglugerðar um skólasöfn sem ekki hefur verið til áður.
    Í 72. gr. er fjallað um einkaskóla og er greinin

efnislega óbreytt frá gildandi lögum að öðru leyti en því að bætt er við ákvæði um að skólagjöld séu háð samþykki menntmrn. Ég ætla ekki að hefja hér almenna umræðu um einkaskóla en bara segja þetta, virðulegi forseti. Ég tel að það sé óhjákvæmilegt að til verði almennar reglur um það hvernig ráðuneytið á að bregðast við þegar óskað er eftir stofnun einkaskóla. Ég tel að það sé jafnfráleitt að segja já við öllum slíkum beiðnum og nei við öllum slíkum beiðnum. Það er grundvallaratriði skynsamlegrar skólastefnu að ná samstöðu, helst þjóðarsamstöðu um mál af þessu tagi. Það er slæmt fyrir skólann og börnin sem í skólanum kunna að verða og foreldra þeirra að það séu stöðug átök og sviptingar um viðkomandi skólastofnun. Þess vegna tel ég að umræða um þessi mál þurfi að fara fram með kannski dálítið öðrum svip en stundum hefur verið. Hér er ekki gerð nein tillaga um breytingar á gildandi lagaákvæðum í þessu efni en ég fitja upp á umræðunni til að minna á að hún er óhjákvæmileg.
    Ég mun ekki fara hér, virðulegi forseti, út í það að fjalla um fjármál skólanna vegna þess að þar eru einfaldlega þræddir þeir kaflar sem teknir voru inn í lögin um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Það er því í sjálfu sér engin þörf á að fara yfir það hér svo skammt sem liðið er síðan að um þessi fjármál og fjárskipti ríkis og sveitarfélaga vegna skólamála var fjallað á hinu virðulega Alþingi.
    Ég vil þá að lokum, herra forseti, víkja hér að ákvæði frv. til bráðabirgða. Þar er gert ráð fyrir því að ákvæði 44. gr. um lágmarks vikulegan kennslutíma á hvern nemanda komi til framkvæmda á næstu þrem árum frá gildistöku laga þessara.
    Ákvæði 46. og 47. gr. um fjölda nemenda í bekkjum og ákvæði 51. gr. um námsráðgjafa við einstaka grunnskóla eða fræðsluskrifstofu komi til framkvæmda á næstu fimm árum frá gildistöku laganna samkvæmt ákvörðun í fjárlögum hverju sinni.
    Í þriðja lagi er í ákvæði til bráðabirgða sagt að stefnt skuli að því að ákvæði 3. gr. um einsetinn skóla komi að fullu til framkvæmda á næstu tíu árum frá gildistöku laga þessara samkvæmt áætlun sem unnin yrði í samstarfi við Samband ísl. sveitarfélaga. Jafnframt verði á því árabili jafnt og þétt aukið við kennslu grunnskólanemenda að því marki að við lok tímabilsins verði vikulegur stundafjöldi allra nemenda 35 stundir.
    Að fimm árum liðnum, segir svo að lokum í ákvæðinu, frá gildistöku laga þessara skal menntmrh. gera Alþingi grein fyrir framkvæmd og undirbúningi þeirra bráðabirgðaákvæða sem hér eru talin.
    Ég vil aðeins í þessu sambandi segja það, herra forseti, að ég hef heyrt það og reyndar séð það í fjölmiðlum að menn hafa verið að hafa orð á því að ákvæði þessa frv., ef það yrði að lögum, séu dýr. En ég vil trúa þinginu fyrir því, og vona að hv. Alþingi taki það gott og gilt, að þessi ákvæði eru ódýr í framkvæmd miðað við það tjón sem unga fólkið, börnin og þar með þjóðin verða fyrir vegna núverandi ástands í þessum efnum. Það er auðvitað löngu, löngu

ljóst að þegar gert er ráð fyrir því að báðir foreldrar, ef báðum er til
að dreifa, vinni úti frá börnum sínum þarf þjóðfélagið um leið að gera ráðstafanir sem tryggja að þessi börn séu í sæmilegu skjóli og öryggi. Það tjón sem þjóðfélagið verður fyrir vegna vanrækslu í þessu efni er mikið stærra en nemur þeim kostnaði sem það tekur að framkvæma þetta frv. ef að lögum yrði.
    Það sem einkum hefur verið nefnt í sambandi við kostnað við að framkvæma þetta frv. er það ákvæði að koma á einsetnum skóla á tíu árum, það sé óhemju kostnaðarsamt. Staðreyndin er sú að ef þeir peningar sem í dag fara til skólabygginga eru notaðir til þess að bæta við skólastofum þá næst þetta mark á tíu árum. Það er ekki meira afrek en það. Vandinn liggur ekki í því að ekki hafi verið varið til þessa nægilegum peningum. Vandinn liggur í því að þungi verkefnisins verður svo mismunandi eftir byggðarlögum. Vandinn á landsbyggðinni er ekki sá að þar þurfi að byggja svo mikið meira húsnæði fyrir skóla, a.m.k. ekki í hinu ýtrasta dreifbýli þó að það eigi við um staði eins og Akranes, Ísafjörð, Akureyri, Sauðárkrók, Siglufjörð, svo nokkur dæmi séu nefnd. Vandinn liggur í því að ef sú öfugþróun heldur áfram í byggðamálum sem hefur gengið hér yfir núna um nokkurra ára skeið mun verða erfitt fyrir þéttbýlli sveitarfélögin, m.a. Reykjavík, að svara kröfum um einsetinn skóla fyrir sín börn af því að fjölgunin er margföld á við það sem eðlilegt væri að gera ráð fyrir. Á þetta ekki bara við um Reykjavík heldur líka Kópavog, Hafnarfjörð, Seltjarnarnes, Mosfellsbæ og Garðabæ. En það er alveg augljóst mál að ef peningarnir sem hvort sem er hafa farið til að byggja skólana færu til þess að fjölga stofum í samræmi við markmið frv. ef að lögum verður, ef þeim er varið í það þá næst þetta markmið á tíu árum. Og meginkosturinn við
frv. er að mínu mati sá að það er ekki aðeins lagarammi, það er líka tilraun til að lögfesta tiltekna stefnu.
    Við höfum dæmi um slíkt frá síðustu árum. Við höfum dæmi um það t.d. í lögum að tekin sé ákvörðun um tiltekna áfanga í félagslegum réttindum án þess að um leið sé gengið frá fjármögnun þeirra áfanga í einstökum atriðum. Engu að síður hafa þeir verið framkvæmdir. Nýjasta dæmið sem ég man eftir er ákvörðun um lengingu fæðingarorlofs sem var tekin án þess að í rauninni væri búið að sjá fyrir fjármögnun þess um leið og ákvörðun var tekin á þeim tíma. En engu að síður hafa menn framkvæmt lögin um lengingu fæðingarorlofs með breytingum á lögum um almannatryggingar. Með því að Alþingi gangi frá viljayfirlýsingu og lögum um stefnu af því tagi sem hér er um að ræða á að vera unnt að knýja á um framkvæmd hennar og það skapar líka viðspyrnu fyrir fræðsluyfirvöld, fyrir menntmrh., fyrir fræðslustjóra, skólastjóra og kennarasamtök að fylgja málinu eftir ef stefnan hefur verið mörkuð, ef menn vita hvert þeir eru að fara.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. verði að

lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.