Gjöld fyrir lækninga- og sérfræðileyfi
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Ég þakka hæstv. forseta fyrir að leyfa mér að gera stutta athugasemd.
    Ég undirstrika að það er ekki sambærilegt að staðfesta menntun fólks og að veita verslunarleyfi sem ekki krefst sérstakrar menntunar. Það getur aldrei verið sambærilegt í raun og veru. Og það má jafnvel spyrja: Hvers vegna þarf að borga fyrir það að fá staðfestingu á menntun sinni? Það er hins vegar allt annar handleggur að skattleggja fólk í samræmi við tekjur þess. Það er ekki hægt að skattleggja væntanlega tekjumöguleika. Það er alveg út í hött.