Virðisaukaskattur af snjómokstri
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Fyrirspyrjandi (Árni Gunnarsson):
    Virðulegi forseti. Frá síðustu áramótum og til 17. mars sl. hafði Vegagerð ríkisins greitt 267 millj. kr. fyrir snjómokstur. Af þessari fjárhæð má ætla að greiddar hafi verið 52,5 millj. kr. í virðisaukaskatt. Frá 17. mars hefur kostnaður Vegagerðar ríkisins við snjómokstur aukist verulega og er nú líkega um 300 millj. kr. En þetta er ekki nema hluti af kostnaði við snjómokstur á Íslandi. Eftir er að taka saman kostnað sveitarfélaganna sem er gífurlegur í sumum landshlutum.
    Sem dæmi vil ég nefna að á fyrstu þremur mánuðum ársins greiddi Akureyrarbær 18,7 millj. Þar af fara 3,7 millj. í virðisaukann. Á Húsavík er kostnaðurinn orðinn 7 millj., 1,4 millj. fara í virðisaukaskatt. Það sem af er árinu hefur Vegagerðin greitt tæpar 8 millj. kr. fyrir það eitt að halda veginum um Ólafsfjarðarmúla opnum.
    Mikill munur er á kostnaði sveitarfélaga við snjómokstur. Í snjóþungum héruðum er um að ræða verulegan fjárhagslegan bagga og eykur virðisaukaskatturinn á þennan mismun. Í 4. gr. reglugerðar um greiðslu virðisaukaskatts af skattskyldri starfsemi sveitarfélaga og annarra opinberra aðila er talin upp skattskyld starfsemi. Þar er snjómokstur ekki meðtalinn. Í lögum um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, er þess getið í 1. gr. að fjmrh. sé heimilt að setja í reglugerð nánari skilyrði fyrir undanþágu.
    Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa þeirri skoðun minni að ég átta mig ekki á því í fljótu bragði hvaða virðisauki er fólginn í snjómokstri og af hverju úrkoma er skattlögð og spyr af því tilefni: Hvað með rigninguna? Þess vegna hef ég leyft mér að spyrja hæstv. fjmrh. eftirfarandi spurningar:
    ,,Telur fjmrh. sig hafa lagaheimildir til að fella niður virðisaukaskatt af snjómokstri? Ef svo er, hyggst hann nota þær og þá hvenær?