Utanríkismál
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég vil taka það fram vegna þess sem hér hefur komið fram fyrr í umræðunni að Kvennalistinn telur ekki rétt að farið sé út í þær samningaviðræður sem virðast standa fyrir dyrum. Við viljum að það verði frekar leitað eftir samningum við Evrópubandalagið á svipuðum grunni og gert hefur verið hingað til og haldið áfram því sem byrjað hefur verið á á grundvelli Lúxemborgaryfirlýsingarinnar og síðan leitað eftir tvíhliða viðræðum enn frekar varðandi niðurfellingu á tollum og þá á grundvelli bókunar 6. Ég vil taka það fram að við erum aðilar að þeirri tillögu sem hér hefur verð gerð að umtalsefni um að nú þegar verði gengið til beinna samningaviðræðna við Evrópubandalagið um frekari ívilnanir á viðskiptasviðinu. Af því að tekið var sérstaklega fram að tillagan væri sjálfstæðismanna vil ég taka fram að við kvennalistakonur vorum aðilar að þeirri tillögu þó svo við teljum að tvíhliða beinar viðræður við Evrópubandalagið eigi að fara fram á fleiri sviðum en þar er tekið fram.
    Þetta vildi ég láta koma fram hér við þessa umræðu. Eftir því sem mér skilst er nú þegar búið að ákveða að fara út í samningaviðræður á þeim forsendum sem gefnar hafa verið, þ.e. að reglur Evrópubandalagsins gildi, og reyndar virtist vera búið að gera það miklu fyrr þar sem hæstv. utanrrh. fór með þau skilaboð frá Íslandi 19. des. að íslenska ríkisstjórnin vildi taka þátt í þessum samningaviðræðum.
    Mig langar að benda á að þann 29. nóv. gerði þingflokkur Alþb. samþykkt um það að áður en til þátttöku í beinum og formlegum samningaviðræðum kom verði málið tekið til sérstakrar umfjöllunar og afgreiðslu í ríkisstjórn og stjórnarflokkum, eins og segir orðrétt í þeirra samþykkt. Mér þykir það mjög merkilegt og það kemur þá greinilega fram að hæstv. utanrrh. hefur ekki alla stjórnarflokkana að baki sér og langar mig til að varpa fram þeirri spurningu
hvort orðið hafi á einhver breyting í þessu sambandi, hvort þessi samþykkt sé ekki lengur gild eða hvort þetta hafi verið tekið til sérstakrar umfjöllunar nú þar eð nú liggur fyrir að um formlegar samningaviðræður muni verða að ræða fljótlega eftir því sem hæstv. utanrrh. sagði. Þrátt fyrir að einhver afturkippur virðist vera kominn í það af hálfu EB sagðist hann þess fullviss að það séu einungis örlitlar tafir.
    Það kom fram fyrr í umræðunni að einn þingmaður Alþfl. telur rétt að Íslendingar íhugi það mjög alvarlega að sækja um aðild að Evrópubandalaginu. Hann talaði að sjálfsögðu einungis fyrir sjálfan sig og ekki fyrir fleiri hv. þm. Alþfl. en þetta þótti mér mjög athyglisvert, sérstaklega í ljósi þess að það hefur komið fram af hálfu hæstv. utanrrh., að vísu ekki hér á þessum vettvangi, mjög ákveðið ef rétt er eftir haft að ef Svíar og Norðmenn gengju í Efnahagsbandalagið sé ekki um neitt annað að ræða fyrir okkur en að ganga inn í Evrópubandalagið. Þetta þóttu mér ekki góð tíðindi. Mér þykir það slæmt ef hæstv. utanrrh.

og samningamenn á hans vegum ganga til samninga við Evrópubandalagið með það í huga að næsta skref sé að sækja um inngöngu í bandalagið. EFTA sé eins konar biðsalur fyrir ríki sem vilja ganga inn í Evrópubandalagið, eins og mátti skilja á ummælum hæstv. ráðherra hér áðan þegar hann talaði um ríki Mið- og Austur-Evrópu sem væru hugsanlega að sækja um aðild að EFTA þá með það í huga að næsta skref þeirra væri að ganga í Evrópubandalagið. Mér finnst mjög einkennilegt að stilla málum þannig upp þar sem ég hélt að það væri yfirlýst stefna allra íslenskra stjórnmálaflokka að aðild að bandalaginu kæmi ekki til greina af ýmsum ástæðum og þá skipti ekki máli hvort Svíar eða Norðmenn sækja þar um inngöngu. Ég hélt að við hefðum þar sjálfstæða skoðun og stefnu og þyrftum ekki að fara eftir því sem þeir gerðu.
    Það hefur mikið verið rætt um svokallaða fyrirvara Íslands í þessum samningaviðræðum og mikið rætt um að þeir séu ýmist miklir eða engir eða litlir sem engir. Það fer eftir því hver talar. Hæstv. utanrrh. hefur ítrekað sagt að fyrirvararnir séu mjög fáir og það muni ekki verða mikið mál að ganga til samninga. Við hefðum nánast enga fyrirvara og þar af leiðandi þyrftum við ekki að hafa neinar áhyggjur af því sem alltaf væri verið að tala um, að fyrirvararnir mundu verða okkur hindrun í samningum. Það eru fyrirvarar á fjármagnssviðinu varðandi rétt til nýtingar á grundvallarauðlindum, eins og ég held að hann hafi orðað það, og krafa um fríverslun með fisk og svo einhverjir fyrirvarar varðandi flutning á vinnuafli. En það eru ekki fyrirvarar almennt að því er varðar ítök erlendra aðila í íslensku atvinnulífi. Þetta mun að mínu mati og margra annarra fljótlega leiða til þess að erlendir aðilar geta náð verulegum tökum á íslensku atvinnulífi. Það muni reynast mjög erfitt fyrir okkur að halda fiskveiðum og fiskvinnslu utan við ef ekki verða settar hömlur á ítök erlendra aðila almennt í íslensku atvinnulífi.
    Ég hef því verulegar áhyggjur af þessu atriði. Menn virðast halda að þarna séu miklu víðtækari og verulegri fyrirvarar en eru í raun og veru. Það er greinilegt að þingflokkur Alþb. hefur einnig litið svo á að fullur fyrirvari eigi að vera um þátttöku og fjárfestingu útlendinga í íslensku efnahags- og
atvinnulífi almennt þar sem það kemur einnig fram í samþykkt þess þingflokks. Það virðist því greinilegt að túlkun stjórnarflokkanna er mjög mismunandi á því hvers konar fyrirvarar eigi að vera og séu þarna á ferðinni. Ég tel það mjög, og vil ítreka það, mjög óheillavænlegt fyrir okkur að fara út í þá samninga sem þarna virðast vera á döfinni.
    Mig langar einnig að gera að umtalsefni þá yfirlýsingu eða frásögn sem hér var lesin af hæstv. sjútvrh. Þar talaði hann um þann boðskap sem þrír starfsmenn framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins færðu Íslendingum, sem kom að vísu ekki neitt á óvart því það var alveg í samræmi við það sem við höfum heyrt áður, þar sem embættismennirnir hafa ítrekað að sjávarútvegsstefna bandalagsins verði að

yfirfærast yfir á Ísland eins og önnur lönd. Mér finnst mjög merkilegt að lesa þá yfirlýsingu. Og ekki síður merkilegt að hæstv. sjútvrh., og það hefur reyndar einnig komið fram hjá hæstv. utanrrh., skuli láta sér detta í hug að fyrst ekki er hægt að fara út í beinar tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið um viðskiptahagsmuni, hvers vegna í ósköpunum ætti það þá frekar að vera hægt í viðræðum eins og EFTA er að fara út í við Evrópubandalagið? Það virðist einnig koma fram í skýrslu ráðherrans að þar hafa embættismenn sagt að þeir vilji að fyrir aðgang að mörkuðum komi fiskveiðiheimildir innan íslenskrar efnahagslögsögu. Hvers vegna í ósköpunum ætti þá ekki að vera hægt að fara í tvíhliða beinar viðræður strax? Ég sé engan mun á því hvort sú krafa er innan EFTA eða hvort við erum með hana ein og sér.
    Mér fannst það mjög furðulegt sem kom fram í yfirlýsingu hæstv. sjútvrh. og þykir slæmt að hann skuli ekki vera hér til þess að ræða þessi mál.