Þjóðleikhús Íslendinga
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Árni Johnsen:
    Hæstv. forseti. Að bera af sér sakir. Það sem ég sagði um embætti húsameistara í framgangi þessa máls stendur. Því miður er skammur tími hér til umræðunnar og ástæða hefði verið til að fara lið fyrir lið í marga þætti. En ég get fyllilega tekið undir orð síðasta hv. ræðumanns að húsameistari og starfsmenn hans eru mjög hæfir menn og hafa unnið það verk sem liggur fyrir gagnvart Þjóðleikhúsi mjög vel. Það er enginn sem ber brigður á það. Það er allt annað mál en það að taka upp hanskann sem svokallaðir húsfriðunarmenn og vilja ekki taka tillit til þess hvort Þjóðleikhúsið á að nýtast sem leikhús, gott leikhús eða slakt leikhús eftir atvikum. Það er þar sem hnífurinn stendur í kúnni.
    Því miður eru, eins og ég sagði, mörg dæmi þess að húsameistari hafi ekki sýnt, að mínu mati, eðlileg vinnubrögð í framgangi þessa máls. Ég met húsameistara sem fagmann mikils, það er engin ástæða til að luma á því. En það er auðvitað mikil spurning þegar rætt er um svona mál hvað má ætlast til þess að menn teygi lopann. Vegna þess að það kostar mikla peninga þegar um 15 hönnunaraðila er að ræða og tugi sérfræðinga sem fá hátt tímakaup. Þá er spurning hvað menn mega gera þegar búið er að taka ákvörðunina. Alþingi tók ákvörðun og færir hana yfir til framkvæmdarvaldsins og síðan er það endanlega samstarfsnefnd um opinberar byggingar sem hv. síðasti ræðumaður á sæti í sem á að sjá um að allir þræðir séu í hendi. Tæknilegir þræðir eru í hendi í dag og hafa verið rétt unnir og það er viðurkennt. En það er líka jafnrétt að það á eftir að hnýta upp endanlega hvernig fjármagnið sem er á fjárlögum getur greitt fyrir þær framkvæmdir sem ætlað er að vinna á þessu ári. Og ég held að það verði ekki vandamál sem menn muni ekki geta leyst.
    Það er ástæða til að undirstrika það að öll innri lagnakerfi Þjóðleikhússins eru mjög illa farin, sama hvort er talað um rafmagn, vatn, brunavarnakerfi,
loftræstikerfi eða aðra þætti sem húsið samanstendur af. Og þegar þarf að svo gott sem rústa þessum þáttum til þess að endurbyggja --- því auðvitað þarf að brjóta upp veggi til þess að komast að ónýtum rafmagnsleiðslum, auðvitað þarf að brjóta upp veggi þar sem vatn rennur ekki lengur eftir rörum heldur eftir steinsteypu vegna þess að rörin eru tærð og horfin, auðvitað fylgir þessu brot --- er þess vegna skynsamlegt að nota tækifærið til að bæta það sem betur má fara án þess að gengið sé yfir það sem er stíll hússins.
    Það er rangt sem hér hefur komið fram að hingaðkoma erlends leikhússérfræðings hafi skipt sköpum um það að tillögur voru unnar um hækkun á salargólfi. Þegar saman kom vinna margra sérfræðinga sem unnu hver á sínu sviði lágu staðreyndir á borðinu og út frá því horfðu menn á málið og unnu eftir því. Það er sannleikurinn í málinu.
    Sumir hafa gert lítið úr því og orðað það þannig að einhver Pólverji hafi komið hingað til lands sem

sérfræðingur. Sá erlendi sérfræðingur sem hingað kom, Miklos Ölvercky sem hefur verið búsettur í Svíþjóð í áratugi, er virtur af leikhúsmönnum víða um heim sem einn færasti sérfræðingur í leikhúsmálum í heiminum í dag, byggingu og haganlegum þáttum í leikhúsi. Sú tillaga sem rædd var og hefur verið skoðuð ofan í kjölinn og lengst gekk í breytingum á Þjóðleikhúsinu miðaði við að engar svalir væru í húsinu. Það væri svokölluð ein brekka. Það var talið hagstæðast fyrir húsið sem leikhús. Á það vildu menn ekki fallast vegna þess að mönnum þótti það stílbrot og menn hafa farið að mínu mati skynsamlega leið sem rök eru fyrir.
    Það er ástæða til að benda einnig á það að þótt menn hefðu gjarnan viljað fara í endurbætur á Þjóðleikhúsinu og breyta í engu húsinu sjálfu þá hefði það ekki fengist samþykkt til opnunar á ný. Það liggur ljóst fyrir. Það liggur ljóst fyrir að flóttaleiðir úr sal --- það heitir flóttaleiðir í brunavarnakerfi --- ef upp kemur eldur í húsinu og fólk þarf að komast burt þá kallar kerfið á flóttaleiðir. Það er langsótt þegar talað er um leikhús en það er kerfisorð. (Gripið fram í.) Já, ömurlegt orð, ég get tekið undið það. En þetta er málið. Það er spurning um rými þannig að fólk geti yfirgefið sal ef óhapp hendir. Og það er heldur ekkert launungarmál að fyrir fáum árum kom upp eldur í kjallara Þjóðleikhússins sem leiddi inn í loftræstikerfi hússins, loftræstikerfi sem er smíðað úr efnum sem fyrir löngu voru bönnuð í slíkt kerfi vegna þess að þau eru svo eldfim. Og þeir sem hafa unnið í húsinu telja að það hafi kannski ekki munað nema sekúndum að húsið yrði alelda. Þetta er ekki gamanmál, þetta er staðreynd og þó svo að menn gjarnan vildu og teldu vera rök fyrir að hafa salinn óbreyttan, nýta ekki tækifærið til þess að lagfæra það sem betur má fara þá fengist slíkt ekki samþykkt. Það mundi fækka samt sem áður um tugi sæta í sal.