Lánasýsla ríkisins
Föstudaginn 06. apríl 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Það kemur ekki á óvart að hv. 3. þm. Vestf. Karvel Pálmason skuli mæla nokkur varnaðarorð til ríkisstjórnarinnar og hæstv. fjmrh. Það kemur ekki á óvart að þessum fulltrúa þeirra Vestfirðinga sem hefur gegnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir verkalýðshreyfinguna skuli ofbjóða sú mikla eyðslusemi og eyðslustefna sem kemur fram hjá hæstv. ríkisstjórn, sérstaklega þegar höfð er hliðsjón af því að lífskjör hér á landi hafa versnað um 15--20% síðan 1988 eins og glögglega kemur fram í grein sem iðnrh. skrifaði í Morgunblaðið í gær og hrósaði sér af því annars vegar að hafa skert kjörin um 15--20% og hins vegar af því að hér skuli vera töluvert atvinnuleysi sem hann telur bera vott um heilbrigða stefnu stjórnvalda og telur sig eiga von á því að erlendir menn muni hrósa sér fyrir það að ríkisstjórninni skuli þó hafa tekist að koma á viðvarandi atvinnuleysi hér á landi eins og tíðkast erlendis.
    En þetta er raunar ekki efni minnar ræðu og ekki tilefni þess að ég stóð upp þó ég í framhjáhlaupi veki athygli á því að þeir þingmenn sem fram að þessu hafa stutt ríkisstjórnina heils hugar en standa næst atvinnulífinu og fólkinu í landinu eru óðum að missa trú á þá ríkisstjórn sem nú situr.
    Það sem olli því að ég stóð upp var að hæstv. fjmrh. sagði í sinni ræðu áðan að það væri eðlilegt að verðbréfapappírar eins og ríkisskuldabréf sætu við svipað borð og aðrir pappírar af þessu tagi sem boðnir væru og þá skildist mér að hann væri að tala um skuldabréf sem bankar selja eða jafnvel hlutabréf.
    Nú liggur það fyrir að það gegnir alls ekki svipuðu máli um ríkispappírana og aðra. Ríkispappírarnir njóta sérstakra skattfríðinda en á hinn bóginn hefur það líka komið glöggt fram hjá þeim sem hafa gert úttekt á íslenskum fjármagnsmarkaði, og kemur raunar fram líka í ræðum hæstv. iðnrh. þegar hann er í hátíðaskapi og er að reyna að geðjast sjálfstæðismönnum, að óhjákvæmilegt er til þess að koma hér á heilbrigðu efnahagslífi að hlutabréf njóti sambærilegra skattfríðinda og þessir ríkispappírar til þess að sparnaður fólksins í landinu geti runnið inn í atvinnulífið. Það er að sjálfsögðu miklu heilbrigðari og eðlilegri stefna en hin að ríkissjóður sé að velja nokkur fyrirtæki, taka þau út úr og lofa fyrirgreiðslu í sambandi við fjáraukalög þegar einstökum stofnunum er falið að skenkja einstökum fyrirtækjum opinbera fjármuni.
    Ég get bara rifjað upp að á fundi Byggðastofnunar í gær voru afgreidd tvö fyrirtæki sem bæði munu njóta verulegrar opinberrar fyrirgreiðslu. Og ég get líka rifjað upp að á fundi Byggðastofnunar í morgun var til meðferðar erindi frá ríkisstjórninni þar sem lofað var verulegum fjárhæðum úr ríkissjóði. Ég held að ég fari rétt með að í bréfinu hafi því verið heitið að um 37 millj. kr. sem ekki er gert ráð fyrir í fjárlögum skuli renna til loðdýrabænda á þessu ári. Ríkisstjórnin lofar síðan að þessir peningar komi í

gegnum fjáraukalög eða gefur það í skyn. Stefna af þessu tagi, slík opinber forsjá í atvinnulífinu gengur auðvitað ekki. Ég veit að hæstv. fjmrh. hlýtur að vera mér sammála um að það væri miklu eðlilegra að sparifjáreigendur sjálfir, fólkið sjálft legði fram sitt fé til þess að treysta undirstöðu atvinnulífsins. Af þessum sökum beini ég þeirri fyrirspurn til fjmrh. hvort þess megi vænta á þessu þingi að ríkisstjórnin leggi fram frv. til breytinga á lögum um tekju- og eignarskatt sem geri hlutabréf jafnsett opinberum pappírum skattalega séð. En réttlæting hans í sambandi við það að ríkið færi sjálft inn á fjármagnsmarkaðinn sem samkeppnisaðili var einmitt sú að þessi stofnun ríkisins ætti að vera jafnsett eða starfa á svipuðum grundvelli og bankar og aðrar slíkar stofnanir.
    Ég hlýt líka, úr því að ráðherrann lagði svo mikið upp úr því að það ætti að vera eðlileg samkeppnisstaða þarna á milli, að spyrja hvort hæstv. ráðherra finnist eðlilegt að þessi nýja peningastofnun sem rekin er á ábyrgð ríkissjóðs greiði opinber gjöld með sama hætti og t.d. ríkisbankar til þess að ekki sé verið að halda uppi dýrri og óhagkvæmri starfsemi á vegum ríkisins sem sýnist bera sig þegar ekki er tekið tillit til þeirra opinberu gjalda sem samkeppnisaðilarnir verða að greiða. Það eru atriði af þessu tagi sem nauðsynlegt er að komi fram.
    Ég þakka svo að síðustu hæstv. fjmrh. fyrir það að hann skuli hafa heitið nefndinni því að um það verði séð að henni berist fullnægjandi upplýsingar og gögn um þau atriði sem fram hafa komið í þessum umræðum.