Lánasýsla ríkisins
Föstudaginn 06. apríl 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég skal reyna að svara í örstuttu máli þeim spurningum sem fram hafa komið.
    Í fyrsta lagi vil ég vegna ræðu hv. þm. Halldórs Blöndals láta það koma fram að ákveðið hefur verið að vinna að því á næstu mánuðum að gera tillögur um breytingar á skattlagningu hlutafjár og samræmingu skattlagningar á hlutafjár við annað fjármagnsform. Það voru gerðar nokkrar breytingar í þinginu í desember í þessum efnum. Það fara fram viðræður við einstaka nefndarmenn í fjh.- og viðskn. Nd. að gera kannski fáeinar breytingar einnig á þessu þingi þannig að það er ákveðin þróun í þessum málum sem sýnir vilja til þess að breyta ríkjandi skipan.
    Hins vegar var talið nauðsynlegt að kanna mjög rækilega lagasetningu í ýmsum helstu viðskiptalöndum okkar í þessum efnum í sumar og undirbúa slíkar tillögur fyrir haustið því að það þarf ekki aðeins að gæta samræmis innan lands heldur einnig huga að því hvernig þessum málum er fyrir komið í okkar helstu viðskiptalöndum til þess að innra samræmi ríki þá einnig þegar íslenska hagkerfið tengist meira, sem það mun óhjákvæmilega gera, þróun hagkerfanna í nágrannalöndum okkar. En það er fullur vilji á því að skoða þetta mál þess vegna í því samhengi.
    Vegna ummæla hv. þm. Karvels Pálmasonar vil ég bara leggja ríka áherslu á það að ég tel að þetta frv. sé einn þáttur í því að renna styrkari stoðum undir nýgerða kjarasamninga vegna þess að mikilvægur þáttur í árangri þeirra er að innlend fjármögnun ríkissjóðs takist vel, að erlendum lánum sé ekki í stórum stíl dælt inn í hagkerfið og fest sé í sessi sú árangursríka starfsemi sem hófst í fyrra að selja spariskírteini ríkissjóðs og ríkisvíxla til þess að fjármagna umframfjárþörf ríkissjóðs. Það tókst á sl. ári sem nemur 80%. Sala á spariskírteinum ríkissjóðs og ríkisvíxlum er þess vegna mjög veigamikill
þáttur í þeim efnum og t.d. sala á slíkum verðpappírum til lífeyrissjóðanna sem verkalýðsfélögin eiga aðild að og við höfum átt ágætar viðræður við forsvarsmenn margra lífeyrissjóða og samtaka launafólks um það efni. Svo að sú starfsemi sem hér er verið að veita lagaramma og traustan lagagrundvöll er einmitt veigamikill liður í því að árangur náist til frambúðar í þeirri efnahagsstefnu sem kjarasamningarnir tengjast. Það er þess vegna ekki verið að setja hér á laggirnar neitt bákn sem gengur gegn þeirri hugsun heldur þvert á móti halda áfram á þeirri braut.
    Ég vil, vegna þess að menn ræða mikið um hugsanlegt bákn eða starfsmannafjölda, vekja athygli á því að það er ekki eðli þessa máls samkvæmt. Hvað snertir þá starfsemi sem snýr að Ríkisábyrgðasjóði og erlendum lántökum er þar aðeins um örfáa starfsmenn að ræða sem taldir verða á fingrum annarrar handar. Aftur á móti er það auðvitað alveg ljóst að þegar ríkið annast sjálft sölu á spariskírteinum til almennings og öðrum verðpappírum og viðskiptabankarnir hafa

sagt upp þeim sölusamningum er óhjákvæmilegt að hafa einhverja starfsmenn til að sinna því verkefni. Og ég vil vegna fyrirspurnar frá hv. þm. Salome Þorkelsdóttur vekja athygli á því að þessir fáeinu starfsmenn sem starfa í þjónustumiðstöðinni sinna m.a. viðskiptum við yfir 4000 Íslendinga sem nú eru áskrifendur að spariskírteinum ríkissjóðs. Þeir annast samningagerð við lífeyrissjóði og banka um kaup á spariskírteinum ríkissjóðs og þróa uppbyggingu ríkisvíxlamarkaðar þannig að í raun má segja að þetta sé ótrúlega fámennur hópur miðað við það að á sl. ári var salan á spariskírteinunum kringum 5--6 milljarðar og á ríkisvíxlunum rúmlega sú upphæð vegna þess að salan á ríkisvíxlunum núna nemur í kringum 10 milljarða.
    Það er misskilningur að þjónustumiðstöðin hafi verið sett upp þegjandi og hljóðalaust. Það fóru fram ítarlegar viðræður á milli fjmrn. og Seðlabankans um það til hvaða ráða ætti að grípa þegar viðskiptabankarnir sögðu upp samningunum sem þeim var auðvitað frjálst að gera og þegar ljóst var að Seðlabankinn gæti ekki við núverandi aðstæður sinnt því hlutverki að vera söluaðili á samkeppnismarkaði á pappírum af þessu tagi. Það var einnig rætt við fjvn. og Ríkisendurskoðun um skipan þessara mála og niðurstaðan varð sú að færa þennan kostnað með nákvæmlega sama hætti og gert hefur verið á undanförnum árum, þ.e. sem hluta af vaxtakostnaði ríkisins vegna þess að þetta er lántökukostnaður ríkisins. Og kostnaðurinn af starfseminni hingað til er færður með þessum hefðbundna hætti. Þjónustumiðstöðin tók til starfa um mitt sl. ár og hefur því ekki enn þá starfað í heilt ár. Sá kostnaður sem snertir starfsmannahaldið er í raun og veru mjög lítill, aðeins fáeinar milljónir, miðað við þá miklu veltu sem þarna fer fram. Meginkostnaðurinn á þessum 12 mánuðum eða svo hefur falist í því að byggja upp innlendan markað fyrir spariskírteini og ríkisvíxla sem allir eru sammála um að hafi tekist með mjög árangursríkum hætti.
    Ég vona að ég hafi þá svarað þeim spurningum. ( SalÞ: Ég var að spyrja um heimildirnar fyrir ráðningunni.) Já, eins og ég sagði áðan, þá voru heimildirnar fyrir ráðningunni byggðar á því að Seðlabankinn og fjmrn. gerðu
samning um þessa markaðsskrifstofu með sama hætti og iðnrn. og Landsvirkjun gerðu samning í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar um markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar --- og ég er ekki að segja það þeirri ríkisstjórn til hnjóðs. Ég er bara að nefna annað dæmi um nákvæmlega sama hátt á þegar markaðsskrifstofa iðnrn. og Landsvirkjunar var sett upp með samningi milli iðnrn. og Landsvirkjunar þannig að það voru á engan hátt óvenjuleg vinnubrögð í þeim efnum. Hins vegar lá það ekki ljóst fyrir fyrr en að fenginni reynslu hvort þetta form væri hentugt til frambúðar. Þegar það kom hins vegar í ljós á seinni hluta síðasta árs að svo væri var strax hafin sú vinna sérfræðinga Seðlabankans og fjmrn. að semja tillögur um frv. að lögum til þess að veita þessari

starfsemi varanlegan, lagalegan grundvöll. Ég vona að þetta veiti nægileg svör við þeim spurningum sem hér hafa komið fram.
    Ég bið hins vegar hv. þm. að hugleiða það að Alþingi samþykkir árlega í fjárlögum og fjáraukalögum þá kvöð á hendur fjmrh. að afla innlends lánsfjár sem getur numið mörgum milljörðum kr. Sú öflun innlends lánsfjár er forsenda þess að efnahagslífið hér sé á eðlilegum brautum og m.a. forsenda þess að kjarasamningarnir fari ekki úr skorðum. En þingið verður þá að leggja viðkomandi fjmrh. einhver tæki upp í hendurnar til þess að geta, á þeim nýja markaði sem við búum við í dag, selt spariskírteini og ríkisvíxla svo að hægt sé að afla þessa innlenda lánsfjár. Það er tiltölulega auðvelt af hálfu þingsins að setja bara í fjárlög og lánsfjárlög að svo skuli aflað segjum 10 milljarða á innlendum lánsfjármarkaði. En þá þarf líka að velta þeirri spurningu fyrir sér hvernig beri að gera það. Gamla kerfið var þannig að viðskiptabankarnir tóku þetta verkefni að sér. Viðskiptabankarnir sögðu upp þeim samningi og vildu ekki hafa það verkefni í sínum höndum áfram. Seðlabankinn tók á fyrri tímum einnig virkan þátt í þessu starfi. Miðað við breyttar aðstæður er talið óeðlilegt að Seðlabanki sinni því verkefni á þeim peningamarkaði sem við búum við í dag og þess vegna var óhjákvæmilegt að ríkið kæmi sér upp fastbundnum vettvangi til að annast það mikilvæga verkefni að selja á frjálsum markaði spariskírteini og ríkisvíxla til þess að tryggja innlenda fjármögnun þess sem á vantar þegar Alþingi hefur samþykkt tekju- og gjaldahlið fjárlaga og lánsfjáráætlun.
    Það er það sem við erum að leggja til og er í samræmi við þær bestu venjur sem tíðkast hafa í nágrannalöndum okkar þar sem menn hafa viljað koma þessu fyrir með álíka hætti og við og þar sem peningamarkaðurinn hefur tekið álíka breytingum og hann hefur gert hjá okkur.