Lögheimili
Föstudaginn 06. apríl 1990


     Guðrún Helgadóttir:
    Hæstv. forseti. Ég stend aðeins upp til að þakka hæstv. félmrh. fyrir að þetta frv. skuli nú fram komið.
    Á þingi Norðurlandaráðs 1986 var samþykkt tillaga sem ég var 1. flm. að um að samræmdar yrðu reglur um almannaskráningu á Norðurlöndum þar sem það var mjög óþægilegt fyrir marga að mjög mismunandi skilningur var lagður í það hvort menn skyldu skoðast innflytjendur eða hvort menn mættu vera með tímabundna búsetu á öðrum Norðurlöndum.
    Nefnd sú sem skipuð var þegar tillagan hafði verið samþykkt hefur unnið mjög gott og merkilegt starf að mínu mati og ber að þakka Hallgrími Snorrasyni hagstofustjóra fyrir mikla vinnu sem hann lagði á sig í þeirri nefnd. Ég fylgdist nokkuð vel með því svo að ég tel mig geta fullyrt að hann gerði það mjög vel og skilmerkilega. Þar var við dálitla erfiðleika að etja varðandi Dani sem hafa verið mjög kröfuharðir um að menn skrái sig sem innflytjendur hversu stutt í raun veru sem þeir ætla að vera í landinu og kannast menn við flutningsvottorð sem menn verða að hafa með sér til þess að komast inn í danskt samfélag.
    Ég tel að hér hafi verið unnið skynsamlega. Vissulega eru lög hinna ýmsu Norðurlanda nokkuð mismunandi enn þá en þó hefur mjög verið unnið að því að samræma lögin og hér held ég að sé stigið spor í rétta átt. Ég þakka því hæstv. ráðherra fyrir að leggja þetta frv. fram og vona að það nái afgreiðslu á þessu þingi. Um önnur atriði get ég verið sammála og vildi aðeins vekja athygli á því að með þessu er stigið verulegt skref til samræmingar varðandi Norðurlöndin.