Skoðunarferðir um Hótel Borg
Mánudaginn 09. apríl 1990


     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Hér er greinilega hið alvarlegasta mál á ferðinni, að forsetar þingsins hafa ákveðið að bjóða þingmönnum að fara í skoðunarferð í tilteknu húsi hér við Austurvöll, og það fer mjög í taugarnar á hv. 8. þm. Reykv. Það hljóta allir að skilja að hér er ekkert lítið mál á ferðinni og ég hvet hæstv. forseta til þess að reyna að finna einhverja þá stund sólarhrings sem lítið beri á þessari heimsókn ef einhverjir skyldu leggja leið sína inn í Hótel Borg, t.d. árla morguns um sexleytið þegar umferð er lítil í bænum þannig að ekki verði ljóst hverjir eru hugsanlega að velta fyrir sér kaupum á þessu húsi.
    Í þessu sambandi finnst mér sjálfsagt að rifjað sé upp að innganga í Hótel Borg hefur komið við stjórnmálasögu Íslands þó að nokkuð sé um liðið. Það mun hafa verið á fjórða áratugnum að þrír nafngreindir menn voru reknir úr virðulegum Kommúnistaflokki Íslands vegna þess að þeir sáust hafa gengið inn á Hótel Borg. Einn í þessum hópi var, ef ég man rétt, Aðalsteinn Kristmundsson, síðar Steinn Steinarr skáld, sem lét henda sig þann höfuðglæp að ganga inn á kaffihús sem var rómað fyrir setu borgaralegra stjórnmálamanna og viðskiptahölda. Ég vona að Sjálfstfl. láti ekkert slíkt henda sig nú í sambandi við þetta hús þannig að ekki þurfi að gera menn í þeim flokki flokksræka vegna þess að þeir leggi hugsanlega leið sína inn í þetta hús sem eitt sinn þótti reisulegt og álitlegt en menn hafa sjálfsagt misjafnar skoðanir á hvernig ástand þess er nú og hvort það er fallið undir starfsemi þingsins.