Jöfnun orkukostnaðar
Mánudaginn 09. apríl 1990


     Alexander Stefánsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins bæta nokkru við af því að hér hafa komið hvatningarorð úr öllum áttum og stuðningur sem er í samræmi við það sem alþingismenn hafa sagt á undanförnum árum en hefur því miður ekki tekist að finna samnefnara til þess að leiða málið fram til sigurs. Mér dettur í hug að fram undan er ákvörðunartaka um nýjar stórvirkjanir upp á 50 milljarða kr. Því fylgir ákvörðun um nýja stóriðju sem yrði náttúrlega að vera til staðar til að hagnýta sér þá miklu orku og við vitum allir hve þýðingarmikið það er fyrir efnahagskerfi þjóðarinnar. Ég tel það sjálfsagðan hlut að í sambandi við ákvörðun um að farið verði í þessi stórvirki á þessu sviði þá verði leitt til lykta þetta réttlætismál, að orkuverð í landinu verði jafnað út. Það verði það sama fyrir hliðstæða orkunotkun. Ég tel að hv. þm. gætu náð saman um að nota þetta tækifæri, að við greiðum ekki atkvæði nýjum stórvirkjunum og stóriðju öðruvísi en þetta mál, verðjöfnun á orku, sé leyst um leið. Miðað við reynslu undangenginna ára er þetta sjálfsagt eina tækifærið sem við höfum til að setja þetta sem skilyrði. Og ég mun a.m.k. fyrir mitt leyti beita þessu ákvæði.
    Ég ætla bara að segja ykkur í leiðinni að ég er með fyrir framan mig reikninga fyrir rafmagns- og hitanotkun á tveimur íbúðum. Önnur er í Reykjavík og hin vestur á landi, á svæði sem býr við dýrasta kerfið. Þetta er 61 dagur. Kostnaðurinn í Reykjavík fyrir 61 dag er 8.165 kr. En kostnaðurinn við íbúðina úti á landi, á kalda svæðinu sem kallað er, sem er sömu stærðar en lítið notuð, er 18.199 kr. fyrir 61 dag. Þetta er sem sagt sem svarar 2,7 sinnum hærra verð og þó er þetta sennilega mjög vægt dæmi miðað við reynslu annarra sem koma til okkar með reikningana sína. En þetta sýnir þörfina, virðulegi forseti, að þarna verði farið að gera leiðréttingu á, sem er, eins og hér hefur komið fram áður, 2,2 milljarða kr. ójöfnuður.