Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir til umræðu frv. til laga um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Ég var einn af þeim sem voru skipaðir í nefnd af hæstv. sjútvrh. til að fjalla um þessi mál og skilaði sú nefnd af sér 3. apríl 1990. Höfðu þá farið fram ítarlegar kannanir á stöðu þessara mála og niðurstaðan var sú að mjög skiptar skoðanir voru um áframhaldið eða það frv. sem hér liggur fyrir.
    Í fyrsta lagi var eindreginn meiri hluti fyrir því að leggja niður núverandi Verðjöfnunarsjóð sem menn telja að hafi löngu gengið sér til húðar. Í öðru lagi voru menn alls ekki sammála um ágæti þessa nýja sjóðs og lögðust þrír aðilar algjörlega á móti því og raunar einn í viðbót.
    Það er athyglisvert að þeir sem lögðust gegn þessu, auk mín, voru Kristján Ragnarsson frá LÍÚ, Óskar Vigfússon frá Sjómannasambandi Íslands og einnig hafði fulltrúi stjórnar Farmanna- og fiskimannasambands Íslands mjög eindreginn fyrirvara um botnfisk. Því má segja að þessir aðilar hafi hafnað frv. og það segir sitt um hvað hér er á ferðinni.
    Hér er í fyrsta lagi verið að setja upp mjög flókið kerfi, miðstýringu, forræði ríkisins og áframhaldandi tilhneigingu til þess að halda í hönd hvers og eins, eins og hann sé ósjálfbjarga og geti ekki hjálpað sér sjálfur. Það er verið að færa fjármuni úr rekstri fyrirtækja inn í lokað kerfi sem á að ávaxta í erlendum bönkum með þeim hætti að það verður að teljast mjög óvenjulegt hér á landi. Það ýtir undir það og reyndar staðfestir að hér er verið að mismuna fyrirtækjum. Fyrirtæki í hvaða öðrum rekstri sem er hafa ekki möguleika á því að gera þetta. Í þriðja lagi er ábyrgð atvinnurekenda ekki sú sem hún ætti að vera. Hér er verið að reyna að fría menn frá ábyrgð og að þeir geti tekið sjálfstæðar ákvarðanir, staðið frammi fyrir því að spara þegar vel gengur og eiga eftir til mögru daganna.
    Í því sambandi er rétt að minna á að hugmyndir hafa verið uppi um að koma á fót sveiflujöfnunarsjóði innan fyrirtækjanna þar sem stjórnendur fyrirtækja sjálfir ákveða hvort leggja skuli fyrir fjármuni eður ei. Ég held sjálfur og hef talið að það sé hin rétta leið, að það sé ekki verið að færa valdið frá fyrirtækjum og stjórnendum þeirra yfir til ríkisins eða einhvers miðstýringarafls heldur sé hér um það að ræða að fyrirtækin og þeir sem ráða fyrirtækjunum stjórni sínum gerðum sjálfir og standi ábyrgir fyrir því sem þeir gera.
    Það þarf ekki að tíunda hér sérstaklega að eldri sjóðurinn hefur verið misnotaður þar sem úr honum hefur verið fært á milli greina og fyrirtækja þannig að þau fyrirtæki sem hafa lagt mest inn í sjóðinn hafa ekki hlotið þær greiðslur sem þau hefðu átt að fá samkvæmt því heldur hafa þær runnið til einhverra annarra fyrirtækja eftir aðstæðum hverju sinni.
    Ég held að þetta frv. sé heldur ekki þannig vaxið að ástæða sé til bjartsýni. Ég held að núverandi ríkisstjórn muni halda áfram að mismuna með

einhverjum hætti með þessum sjóði og mun koma að því síðar. Þá má reikna með því að þetta forræði ríkisins yfir rekstri sjávarútvegsins sé einn liðurinn í því að gera sjávarútveginn undirgefnari ríkisstjórninni hverju sinni.
    Ég minni á það að í 2. gr. frv. er kveðið á um það að stjórn sjóðsins skuli skipuð af sjútvrh. og það segir auðvitað að pólitísk skipan verður í þennan sjóð. Hagsmunaaðilar hafa ekki möguleika á að tilnefna inn í sjóðinn eins og var gert ráð fyrir til að mynda í frv. sem hv. þm. Matthías Bjarnason flutti hér í fyrra. Og ég tel að líka að það væri til bóta ef Alþingi kysi menn í slíkan sjóð þannig að forræðið væri ekki á hendi sjútvrh. eins og hér er eina ferðina enn. Þetta er raunverulega staðfesting á miðstýringu þessa frv.
    Í 3. gr. er tekið fram að sjútvrh. taki ákvörðun um deildaskiptingu sjóðsins samkvæmt tillögum sjóðsstjórnar. Hér er auðvitað mjög einkennilegt afbrigði í þessum lögum. Sjóðsstjórn er ekki treystandi til þess að ákveða þetta, jafnvel þó hún sé skipuð af hæstv. ráðherra.
    Það sem hins vegar er til bóta í frv. miðað við eldri lög er að greiðslur eiga að renna inn á verðjöfnunarreikning á nöfn viðkomandi framleiðenda. Hins vegar eru ýmis ákvæði í frv. sem eru þannig vaxin að þau geta orkað tvímælis, bæði hvað varðar almennt réttarfar í landinu, hvað varðar uppgjör eða skuldaskil á þrotabúum og tryggingu manna fyrir því að þeir fái greiddar ógreiddar kröfur sem þeir eiga í fyrirtækjum sem verða gjaldþrota.
    Í 7. gr. er tekið fram að í skuldafrágöngubúi eigi búið ekki kröfu í sjóðinn sem þýðir auðvitað það að þeir aðilar sem hafa lánað þeim ágæta manni sem fallinn er frá, en erfingjar vilja ekki gangast við búinu vegna skulda, standa verr eftir en áður.
    Þá er það einnig í 7. gr. að ef framleiðandi verður gjaldþrota eða félagi er slitið án þess að ákvæði 1. mgr. eigi við á innstæðan á verðjöfnunarreikningi hans að renna óskipt inn á reikning Verðjöfnunarsjóðs. Það sama er um það að segja að kröfuhafar í gjaldþrotabú standa verr eftir en áður. Meginregla í íslensku réttarfari gagnvart því hvernig menn standa er að þeir geti fengið
kröfur sínar greiddar. Þetta getur auðvitað skipt sköpum ef framleiðandi á miklar fjárhæðir inni í Verðjöfnunarsjóði.
    Þá er sagt í 8. gr. að greiðslur framleiðenda inn á verðjöfnunarreikning hjá Verðjöfnunarsjóði skuli koma til lækkunar á tekjum þeirra á því ári sem framleiðsla á sér stað. Útgreiðslur af verðjöfnunarreikningum til framleiðenda skuli færðar til tekna á því ári sem framleiðsla á sér stað. Um þetta ákvæði er það að segja að hér mun vera ætlunin að fyrirtæki geti nýtt sér þetta skattalega þegar þau leggja inn á reikningana þó að ekki sé ótvírætt kveðið á um það í lögunum. Ég hefði talið að ef svo ætti að vera ætti auðvitað að taka efasemdir af. Hitt er annað mál að það er ekki til bóta að mismuna fyrirtækjum skattalega með þessum hætti, jafnvel þó að sama fyrirtæki eigi að greiða skatta af þessu þegar þeir fá til baka úr

Verðjöfnunarsjóði. Það er meginregla í íslenskum lögum að menn greiða skatta af tekjum á því ári sem þær verða til.
    Í 9. gr. er sagt: ,,Skylt er framleiðendum og útflytjendum sjávarafurða ásamt útflutningsfyrirtækjum og lánastofnunum að veita Verðjöfnunarsjóði allar þær upplýsingar sem hann kann að leita eftir um söluverð, söluskilmála, tegundir, pakkningar, vinnslustig afurða og annað það sem máli skiptir.``
    Hér er auðvitað mjög viðkvæmt mál á ferðinni. Almennt má segja að þegar menn eru í samkeppni sé það meginreglan að menn þurfi ekki að gefa upp viðskiptaleyndarmál sín, en hér í 9. gr. er mönnum með fyrirtæki gert það skylt, þeim er sagt: Svona förum við að --- og allar upplýsingar um viðskiptin eru lagðar fram. Ég tel þetta mjög óheppilegt og ég tel mjög óheppilegt að hægt sé að ganga í innri upplýsingar fyrirtækja með þessum hætti. Ég tel það meginreglu að fyrirtæki eigi að geta starfað sjálfstæð og óháð án þess að ríkiskerfið sé með puttana í rekstri þeirra og sé að rannsaka hvernig og hvað þau eru að gera í megindráttum. Ég held að 9. gr. verði að teljast mjög hæpin og alls ekki til þess að auka traust manna á ríkinu.
    Í 10. gr. er rætt um það að stjórn sjóðsins sé heimilt að fella niður inngreiðslur í Verðjöfnunarsjóð verði verulegur aflabrestur. Auðvitað er sjálfsagt að svo sé en þetta sýnir náttúrlega þá vankanta sem eru á slíku frv. Þegar aflabrestur er standa fyrirtækin miklu verr og því er erfitt annað en hafa slíkt ákvæði í þessu frv. eins og það er lagt fram hér.
    Í 11. gr. er kveðið á um að stjórn Verðjöfnunarsjóðsins hafi umsjón með starfsemi sjóðsins og að kostnaðurinn sé greiddur af óskiptum reikningi sjóðsins. Þá er í þeirri grein ákvæði um það að innstæður á verðjöfnunarreikningi sjóðsins skuli ávaxtaður á tryggan og hagkvæman hátt í erlendum gjaldeyri. Hér er eitt meginatriði frv. Það er verið að segja að ávaxta eigi fé í erlendum bönkum sem er mjög óvenjulegt um meðferð á fé sem er aflað innan lands. Ég held að þetta ákvæði sé mjög athugunarvert og því spurning á hvaða leið stjórnvöld.
    Ég bendi síðan á ákvæðið þar sem sjóðurinn er undanþeginn opinberum gjöldum og sköttum. Að lokum vil ég taka undir það sem hv. 1. þm. Vestf. sagði áðan um ákvæðin til bráðabirgða, með hverjum hætti er verið að greiða útflutningsbætur af þeim sjóðum sem enn eru til, og ætla ekki að hafa fleiri orð um það.
    Að lokum vil ég segja að frv. eykur aðeins miðstýringu í íslensku þjóðfélagi og er ekki jafnsýnt að það verði til bóta eins og hér hefur verið rakið lítillega. Og síðan er hitt að mjög mikill ágreiningur er um þetta mál og stórir hagsmunaaðilar, aðallega þeir hagsmunaaðilar sem launafólk stendur að, eru á móti frv., svo og LÍÚ. Ég tel því að ekki eigi að samþykkja frv. eins og það liggur fyrir hér og hef reyndar frá upphafi talið að það ætti ekki að fjölga opinberum sjóðum um einn enn.